Á konudaginn; Nokkur orð um vinnu-konur vegna orða um heimsreisur

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

„Reikningarnir eru kannski ekki margir, en öll launin mín fara í þá“.
Elżbieta Kołacz, frá Póllandi.

„Okkar tími er núna“.
Niuvis Sagó Suceta, frá Kúbu.

„For it is only through a mix of brute coercion and constructed consent that the system can sustain itself in the best of times“.
Feminism for the 99%, bls. 33.

Ég þekki konur sem hingað á eyjuna hafa komið frá hinni stóru veröld. Þær hafa komið til að vinna. Þær hafa komið til að eiga lífið sitt hér. Þær dvelja, ásamt konum sem hér fæddust, á útsölumarkaði samræmdrar íslenskrar láglaunastefnu. Þær vinna við umönnunarstörf. Þær vinna við að snúa hjólum velferðarkerfisins. Þær eru grunnþátturinn í því að hjól atvinnulífsins geti snúist.

Þær skildu svo margt eftir þegar þær komu hingað. Mömmu sína. Stórfjölskylduna. Upprunalandið sitt. Til að komast „heim“ í heimsókn þurfa þær að vinna og vinna, í vinnu númer 2, spara og spara, bíða og bíða. Segja nei við sjálfar sig og börnin sín, aftur og aftur; nei, það er ekki hægt að kaupa pizzu, nei, það er ekki hægt að fara í bíó, nei, það er ekki hægt að fara í klippingu. Að segja svona mörg nei getur kramið hjartað í konu. Þau eru einskonar fangavist, öll þessi nei. Þú ert dæmd til að afplána á útsölumarkaðnum. Þrátt fyrir að hafa ekkert gert af þér. Glæpurinn er að vera ekki „réttu megin“ við gjána; þessa risatóru gjá sem búin er til úr forréttindum og tækifærum, misskiptingu og arðráni.

Á þessum konudegi segi ég og leita innblásturs hjá þeim sem útskýrt hafa fyrir mér baráttuna og hvað við er að fást, öllum fræði og baráttukonunum:
Forréttindahóparnir, alþjóðlegir og þeir sem ráða innan þjóðríkjanna, taka að sér hlutverk gamaldags karls, afturhaldsins í fjölskyldunni; fullir af tilætlunarsemi, skilningsleysi, algjörri vangetu til að sjá og heyra á meðan að láglaunakonan, neðst í stigveldinu, á að halda áfram að vera undirgefin, þögul, hlýðin, fórnfús. Á að halda áfram að ástunda hin konulegu gildi. Á að halda áfram að veita aðgang að vinnuaflinu sínu, vöðvunum sínum, heilanum, hjartanu. Á að halda áfram að veita aðgang að sjálfri sér fyrir smáræði. Á að samþykkja að hún sé bara svona lítils virði. Svona ódýr kona. Bara svona pínkulítil, næstum ósýnileg.

Þrátt fyrir að vera ómissandi fyrir alla.

Mætti ég fá örlítið meira, herra minn?

„The person who has precious labor to sell can be made to feel one down, way down, like a supplicant with her hand stretched out“. Nickled and dimed, eftir Barböru Ehrenreich, bls 84.

En ekki lengur. Ekki hér í Reykjavík. Við höfum gert hið ósýnilega sýnilegt. Það verður aldrei hægt að gera okkur ósýnilegar aftur. Við höfum sagt kerfinu stríð á hendur, kerfinu sem nærist á því að hafa okkur undirgefnar, nærist á því að hafa endalausan aðgang að alþjóðlegu vinnuafli láglaunakvenna.

Við stöndum saman, við sem fæddumst hér og við sem komum frá hinni stóru veröld. Samstaða okkar er algjör. Við eigum hana sjálfar og við gefum hvor annari hana. Ég fæ samstöðu frá þér og þú færð samstöðu frá mér. Við lofum hvor annari því.

Hún er það sem mun færa okkur sigur.

Heimsreisan okkar er inní okkur sjálfum. Hún hófst þegar að við kynntumst í vinnunni, þegar við unnum saman, frá Íslandi, Kúbu, Úkraínu, Póllandi, Spáni, Filipseyjum. Hún hófst þegar við hlustuðum hvor á aðra, unnum hvor með annari, hjálpuðum hvor annari. Alþjóðavæðing láglaunakonunnar er okkar heimsreisa. Við höfum fært miklar fórnir vegna hennar en nú er að því komið að við ætlum að nota hana fyrir okkur sjálfar.

Fyrst tökum við Reykjavík. Og svo höldum við áfram. Með samstöðuna að vopni. Óstöðvandi.

„I am no longer accepting the things I cannot change. I am changing the things I cannot accept.“
Angela Davis.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram