Stöðugleikasamningar, SALEK og starfsmatskerfi í opinberum rekstri

Jónas Friðrik Steinsson Pistill

Ég hef ekki verið að tjá mig mikið varðandi kjarabaráttu undanfarinna ára en eftir að mis-gáfulegar og misvísandi auglýsingar og viðtöl fóru að sjást í sjónvarpi á dýrasta tíma verð ég eiginlega að rita nokkur orð varðandi stöðugleikasamninga, SALEK og starfsmatskerfi í opinberum rekstri.

Vinsamlegast hafið í huga að þessa lesningu rita ég ekki sem formaður stéttarfélags og einstaklingur sem hefur í nokkur skipti setið í samninganefnd gagnvart opinberum aðilum, heldur smáþorpari að austan og verðandi þriggja barna faðir, sem er alinn upp hjá framsóknarmönnum og vinstrimönnum í bland.

Þennan smáþorpara svíður í réttlætiskenndina þegar hann sér hvern hálaunaeinstaklinginn á fætur öðrum koma fram í fjölmiðlum til að tala kjarabaráttu láglaunafólks niður og halda því fram að láglaunafólkið, en ekki láglaunastefnan sem þessir sömu hálaunaeinstaklingar marka, stofni stöðugleika í hættu.

„SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. SALEK er afrakstur vinnu sem hófst 2013 með úttekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, SA og samninganefnda ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á umhverfi kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum, þar sem áhersla var lögð á heildarendurskoðun samningalíkansins“ (Heimild).

SALEK samkomulagið svokallaða var ansi merkilegt plagg, ekki eingöngu að því leiti að þar var leitast við að ná breiðri sátt varðandi launaþróun í landinu heldur einnig hvernig ríki og Reykjavíkurborg litu á plaggið. SALEK er semsagt samkomulag á milli BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, SA og ríkis og sveitafélaga eins og kemur fram í úrdrættinum hér ofar. Samt sem áður neituðu ríki og Reykjavíkurborg að semja við önnur félög á öðrum forsendum en búið væri að semja um undir SALEK hattinum. Slík vinnubrögð eru óeðlileg og ólögleg þar sem búið er í raun að taka samningsrétt af öðrum félögum en eiga aðild að SALEK.

Að auki þverneituðu ríki og sveitarfélög ítrekað að taka mið af kjarakönnunum fagfélaga til marks um launaþróun á almennum markaði. Það getur verið ansi erfitt fyrir opinbera aðila að jafna kjör á við almenna markaðinn ef staðreyndir um launakjör á almennum markaði eru ekki hafðar til hliðsjónar.

Annar ljóður á SALEK er að samkomulagið nær eingöngu til þeirra aðila sem eru kjarasamningsbundnir undir þeim hatti. Þ.e. það starfsfólk ríkis, Reykjavíkurborgar og annara sveitarfélaga sem heyrir ekki beint undir kjarasamninga, heldur undir kjararáð og kjaranefndir eru ekki bundnir af þessu samkomulagi og þar undir eru ‘topparnir’ þ.e. einstaklingarnir sem eru með hæstu launin hjá ríki og sveitarfélögum. Því var ekkert sem meinaði ríkinu að hækka grunnlaun hjá prestum og prelátum um heil mánaðarlaun láglaunamanneskju korteri eftir undirskrift samningsins og að sjálfsögðu fylgdu embættismenn, þingmenn, ráðherrar og yfirhausar ríkisfyrirtækja í kjölfarið í, að því sem virðist hafa verið, algert siðrof og sjálftaka. Við skulum ekki gleyma því að þarna eru nefndir og ráð sem skipuð eru af þeim pólitísku fulltrúum sem fá hækkanirnar að veita sínum vinum hækkanir. En svo að ég vitni nú í forseta bandaríkjanna „There was no quid-pro-quo“.

Hugmyndafræðin á bak við SALEK var í raun að starfsfólk hins opinbera fengi að njóta launaskriðs á almennum markaði „að frádregnu launaskriði á opinbera vinnumarkaðnum“ (Heimild) en svo virðist sem gleymst hafi að taka tillit til þess að starfsfólk á opinberum vinnumarkaði var og er enn í ansi mörgum tilfellum á mun lægri launum en bjóðast fyrir sambærileg störf á hinum almenna vinnumarkaði. Þó að prósentuhækkanir myndu fylgjast að skv SALEK þá vantar oft stórar krónutöluhækkanir inn í mengið til að jafna kjör á opinberum markaði til jafns við þann almenna.

SALEK samkomulagið er því að því er virðist einhliða tól til að halda lægri- og meðallaunum í skefjum á meðan þeir sem tekjuhærri eru fá að taka sér stærri sneiðar af kökunni. Snilldin við þetta er líka sú að þetta einfalda tól veltir allri ábyrgð á hinum svokallaða ‘stöðugleika’ yfir á láglaunafólk, þar sem þau eru þau einu sem SALEK nær til. Hér tala ég um ‘hinn svokallaða stöðugleika’ af því að ég veit að þeir einstaklingar sem hafa verið á leigumarkaði hafa ekki fundið mikið fyrir slíku.

Árið 2016 leit dagsins ljós álíka merkilegt samkomulag varðandi jöfnun kjara á almenna- og opinbera vinnumarkaðnum. Sú vinna hefur þó aldrei náð lengra en svo að jöfnun lífeyrisréttinda (sem eins furðulegt og það kann að virðast, var fyrsta skrefið) hefur náð í gegn, en launakjörin voru látin sitja á hakanum. Hér áður fyrr var starfsfólk ríkis og sveitarfélaga í mörgum tilfellum sátt við lægri laun en almenni markaðurinn bauð uppá, þar sem lífeyrisréttindin voru talsvert hærri hjá hinu opinbera og fólk sá fyrir sér að mögulega gæti viðkomandi farið fyrr á eftirlaun og haft það bara ágætt. Nú er reyndin aftur á móti sú að launakjörin hjá hinu opinbera sitja eftir þrátt fyrir að búið sé að jafna lífeyrisréttindin. Hér var byrjað á öfugum enda.

Starfsmatskerfi Reykjavíkurborgar er svo annað apparat sem vert er að minnast á. Hér er um að ræða ansi öflugt og rándýrt tól sem borgin notar til að ákvarða meðal annars persónubundið álag, ábyrgð og áreiti í starfi í heiðarlegri tilraun til að meta slíkt til launa. Stóri gallinn á kerfinu er að starfsfólk þarf að meta þessa þætti sjálft. Þ.e. hér er ekki um að ræða að utanaðkomandi ráðgjafi sé fenginn inn til að meta þessa þætti heldur sest starfsmaðurinn niður með blað og merkir í viðeigandi kassa eftir því sem viðkomandi telur rétt. Einstaklingur sem er vanur að vinna í miklu áreiti og undir álagi og hefur gert slíkt í einhvern tíma vanmetur oftar en ekki eigið starfsálag og ábyrgð og fær framangreinda þætti því ekki metna til launa.

Þegar Tölvunarfræðingar hjá Reykjavíkurborg gengu inn í Stéttarfélag Tölvunarfræðinga fórum við fram á að okkar starfsfólk væri utan starfsmats. Ástæða þess var meðal annars sú að þrátt fyrir að við reyndum að hífa okkur ofar með starfsmati vorum við samt sem áður á milli 20 og 25% undir meðallaunum á markaði, en önnur ástæða var að við upplifðum dæmi þar sem starfsmaður í kerfisrekstri sem var með mikla sérþekkingu, mikið starfsálag og áreiti og þar að auki með mannaforráð bæði yfir verktökum og starfsfólki merkti það hátt í starfsmati að hann fór uppfyrir næsta yfirmann í launum. Borgin brást við því með því að færa viðkomandi starfsmann niður í launum handvirkt og braut þar með eigið starfsmatskerfi og eigin reglur.

Það virðist því vera að þrátt fyrir að starfsmatskerfið sé afskaplega gott að mörgu leiti, hafi framkvæmd starfsmatsins verið allt annað en eðlileg.

Til að einfalda málið:

1 – Almenni markaðurinn er aldrei að fara að elta launaþróun hjá ríki og sveitarfélögum, því verða ríki og sveitarfélög að elta almenna markaðinn, ekki eingöngu varðandi launaþróun í prósentutölum, heldur heildarlaunakrónutölur. SALEK virkar ekki nema að almenni markaðurinn ákvarði launaþróunina og ALLIR séu með (topparnir líka). Stöðugleikasamkomulag þarf að byggjast á því að hálaunafólkið og stjórnendurnir leiði með góðu fordæmi. Hér er því miður alls ekki um slíkt að ræða, heldur virðast topparnir telja að þeir geti stundað gengdarlausa sjálftöku og velt síðan allri ábyrgð á ‘stöðugleika’ yfir á láglaunafólkið.

2 – Þau stéttarfélög sem ekki hafa skrifað undir SALEK samkomulagið eru ekki bundin af því og því er þeim frjálst að gera kröfur sem ekki samræmast því samkomulagi. Ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög geta ekki borið fyrir sig að þau séu bundin af SALEK nema gagnvart þeim aðilum sem hafa skrifað undir það samkomulag. Annað er skýlaust brot á rétti verkalýðs- og fagfélaga til samningsréttar.

3 – SALEK samkomulagið er ekki virt á almennum vinnumarkaði að neinu marki, nema mögulega gagnvart láglaunastörfum. Ríki, Reykjavíkurborg og sveitafélög eru einu aðilarnir sem líta á launatöfluna sem heilaga, ekki bara sem löglegt lágmark. Það er ástæða þess að illa gengur að manna ábyrgðarstörf sem veita lítið í aðra höndina, til dæmis við umönnun og kennslu og eins ástæða þeirrar gífurlegu starfsmannaveltu sem er í slíkum störfum í opinbera geiranum. Það má leiða líkum að því að ef kostnaður vegna starfsmannaveltu væri tekin saman og laun hækkuð til mótvægis þeim kostnaði næðist að lyfta lægstu launum talsvert.

4 – Starfsmatskerfi virkar ekki nema að utanaðkomandi ráðgjafar framkvæmi starfsmatið. Starfsmatskerfið á einnig að ná yfir allt starfsfólk, ekki bara það mengi sem hentar til að halda milli- og láglaunafólki niðri. Þrátt fyrir að starfsmaður færist upp fyrir næsta yfirmann í launum við starfsmat má ekki færa viðkomandi starfsmann neðar nema breyta þá vinnutilhögun viðkomandi starfsmanns.

Ábyrgð borgaryfirvalda:

Staðreyndin er sú að húsnæðis- og samgöngustefnur Reykjavíkurborgar, þ.e. þétting byggðar á dýrustu svæðum borgarinnar, þrenging gatna til að koma hjólreiðastígum fyrir og tafir á framkvæmdum nauðsynlegra úrbóta við umferðarmannvirki og uppbyggingu nýrri hverfa auk vaxandi ferðamannastraums hafa valdið framlegðarhækkunum á húsnæðisverði um alla borg og í nágrannasveitarfélögum, þar sem láglaunafólkið var þvingað til að flýja í úthverfin og jafnvel út úr borginni vegna ‘stökkbreytingar’ á fastegnamarkaði, bæði þegar kemur að fasteignakaupum og leigu. Þessi þróun hefur aukið á vandamálið.

Þessar illa ígrunduðu og óheppilega tímasettu aðgerðir borgaryfirvalda hafa valdið miklum kostnaðarauka, sérstaklega hjá barnafólki sem starfar hjá Reykjavíkurborg og hefur þurft að flytja fjær vinnustaðnum. Ferðatími hefur lengst og ekki er lengur í boði að rölta eða hjóla með börnin til dagforeldra, á leikskóla eða í grunnskóla og rölta síðan eða hjóla í vinnuna, heldur þarf að hafa að lágmarki einn bíl á heimili til að geta gert allt þetta innan skikkanlegs tímaramma, hvað þá nú þegar verið er að stytta opnunartíma leikskóla í ofanálag.

Þessum kostnaðarauka hefur enn ekki verið mætt með neinum raunhæfum mótvægisaðgerðum. Þetta er fólkið sem er nú að biðja um leiðréttingu sinna kjara og lagfæringu á launastefnu opinberra aðila, sem eru búnir að skuldbinda sig til að leiðrétta laun til jafns við almenna markaðinn skv SALEK samkomulaginu og hefðu átt að vera búnir að því fyrir allmörgum árum síðan. Mér finnst því ansi leiðinlegt að horfa uppá hvern embættismanninn á fætur öðrum varpa ábyrgðinni á aðra og sanna þessa skemmtilegu staðalímynd sem fyrrverandi borgarstjóri bjó svo eftirminnilega til með ‘Indriða’.

Hver á að bera ábyrgð? Á ÉG að gera það??

#efling #salek #lífskjarasamningar #láglaunastefna #así

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram