„Bara ef þau væru aðeins fjármálalæsari væru þau ekki svona blönk“

Sólveig Anna Jónsdóttir Pistill

Hér að neðan er viðtal við Oddnýju Ófeigsdóttur, eitt þeirra frábæru viðtala sem Stundin birti við félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg og eru nú í verkfalli.
Oddný lýsir því m.a. hvernig möguleikinn á því að leggja fyrir er aldrei til staðar, launin eru einfaldlega svo lág.

Það hefur tíðkast á Íslandi undanfarin ár að reyna að selja okkur eitthvað sem heitir fjármálalæsi. „Bara ef þau væru aðeins fjármálalæsari væru þau ekki svona blönk“ hefur marg-miljón króna fólkið, þau sem aldrei þurfa að neita sér um neitt og geta ekki aðeins lagt fyrir, heldur geta safnað fé fyrir börnin sín svo að þau komist strax í eigið húsnæði þegar þau flytja að heiman, sagt hvort við annað. Ég ætla að fullyrða að engin er jafn fjármálalæs og láglaunakonan. Hún veit alltaf nákvæmlega hvað hún á inná reikningnum sínum. Hún veit alltaf nákvæmlega hvaða reikninga hún verður að borga fyrst og hverja má geyma aðeins. Hún veit nákvæmlega hvað desember og orlofsuppbótin duga í. Engin stendur henni framar í að vita allt um eigin krónur og aura, skuldastöðu, möguleikana á því að komast í gegnum nálarauga greiðlsumatsins og svo framvegis.

Hugsið ykkur ef að við hættum að taka við áróðrinum um fjármálalæsið og settum fram kröfum að þess í stað yrði kennt réttlætis-læsi? Þar sem það yrði sett fram sem sjálfsagður hlutur í mannlegu samfélagi að öllu fólki yrði tryggð afkoma, öllu fólki gert kleyft að lifa góðu lífi, öllu fólki gert kleyft lifa frjálst undan þeim fáránleika að selja endalausan aðgang að vinnuaflinu sínu og uppskera samt aldrei neitt.

Valdastéttin á Íslandi hefur ekki sýnt neinn áhuga á því að sleppa láglaunakonunum og fjölskyldum þeirra burt af útsölumarkaði samræmdrar láglaunastefnu. Í stað þess að viðurkenna einföld réttlætissjónarmið hefur okkur verið boðið upp á falskar lausnir. En eins og alltaf gengur slíkt aðeins í takmarkaðann tíma. Á endanum lætur fullorðið fólk ekki bjóða sér falskar lausnir. Fjármálalæsi, jafnlaunastuðull, fleiri menn í hefðbundin kvennastörf. Ekkert af þessu leysir vandann sem að við stöndum frammi fyrir, vandann sem sprettur af því að eiga aldrei krónu með gati. Aðeins efnhagslegt réttlæti í samfélaginu leysir þann vanda. Og baráttan fyrir því er hafin í alvöru. Loksins.

„Það gefur augaleið að á svo lágum útborguðum launum sem 260 þúsund krónum eru getur verið þrautin þyngri að eiga fyrir öllum útgjöldum, og jafnvel þó að upphæðin sé 320 þúsund krónur. Oddný segist vera svo heppin þó að hún deili kostnaði með öðrum, móður sinni. „Ég er orðin 36 ára gömul og ég er í þeirri stöðu að ég bý með móður minni, við búum tvær saman. Hún sér um húsnæðiskostnaðinn en ég sé um annað, rek bílinn og sé um innkaup og svo framvegis. Ég er því ekki á leigumarkaði en þrátt fyrir það næ ég ekki að leggja neitt fyrir. Á þessum launum má ekkert koma upp á, ef maður veikist, þarf að kaupa lyf eða annað þá verður bara að treysta á að hægt sé að hækka yfirdráttinn.“

https://stundin.is/grein/10549/a-thessum-launum-ma-ekkert-koma-upp-a/?fbclid=IwAR0KxFx77c7LXOHwbv_cHgZKkomEy7E5je4A4Jp9xY5infzAguGBTc12utg

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram