Tillaga Sósíalistaflokks Íslands í borgarstjórn um matarbanka

Ritstjórn Frétt

Í dag lagði Sanna Magdalena Mörtudóttir fram tillögu Sósíalistaflokks Íslands um matarbanka. Hér má sjá tillöguna í heild sinni:

Til þess að enginn í borginni þurfi að búa við svengd og bjargarleysi er lagt til að Reykjavíkurborg komi upp matarbanka fyrir þá sem eru í þörf fyrir mat. Staða margra er oft þannig að þeir eru í þörf fyrir mat vegna fátæktar, atvinnuleysis, tímabundinna erfiðleika eða annarar stöðu sem gerir það að verkum að viðkomandi á ekki fyrir mat. Þrátt fyrir að hjálparstofnanir veiti mataraðstoð, þá er þörfin mikil og aðstoð þeirra dugar ekki alltaf til. Það er nauðsynlegt að bregðast við stöðunni og tryggja að enginn í borginni sé án matar. Velferðarsviði verði falið að setja upp matarbankann og leita ráðgjafar og/eða samstarfs hjá félagasamtökum sem hafa reynslu af umræddu málefni. Æskilegt er að matarbankarnir verði á fleiri en einum stað í borginni svo að borgarbúar þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að nálgast matinn og að þeir verði í nálægð við samgöngumiðstöðvar. Lögð er áhersla á að í matarbankanum sé fjölbreytt, næringarríkt fæði sem þjóni mismunandi þörfum. Áhersla verði á að einstaklingar geti sjálfir valið í matinn, eftir því sem er í boði. Í matarbankanum verði einnig nauðsynjavörur til heimilishalds líkt og klósettpappír, hreinlætisvörur til einkanota, bleyjur og dósaopnarar sem einstaklingar geti tekið með sér.

Greinargerð: Tekjur allra ættu að duga fyrir því að lifa mannsæmandi lífi út mánuðinn, alla mánuði ársins en staðan í samfélaginu okkar er því miður ekki sú. Sem afleiðing upplifa margir sig í þeirri stöðu að vera matarlausir og án bjargar. Hjálparstofnanir hafa aðstoðað marga í gegnum tíðina með matargjöfum og gjafakortum í matvöruverslanir og matargjafir hafa einnig átt sér stað í gegnum samskiptamiðla, þar sem einstaklingar hjálpa öðrum í neyð. Þrátt fyrir það, þá dugar slíkt ekki til, þar sem þörfin er mikil og nauðsynlegt er að bregðast við þeirri þörf. Því er lagt til að Reykjavíkurborg komi upp aðstöðu til þess.

Matarbankar eru viðbragð sem vernda fólk frá hungri og leitast við að tryggja að allir geta orðið sér úti um mat sem eru í þörf fyrir slíkt vegna slæmrar efnahagslegrar stöðu. Hér er lagt til að Reykjavíkurborg komi upp matarbönkum á fleiri en einum stað í borginni og leiti þar eftir samstarfi og/eða ráðgjöf með þeim félagasamtökum sem hafa reynslu af umræddu málefni. Hér gæti mikilvæg innsýn inn í málaflokkinn og mikilvægar raddir er varða útfærslu og uppsetningu m.a. komið frá samtökunum PEPP Ísland, samtökum fólks í fátækt.

Fjölbreyttur, næringarríkur og saðsamur matur er nauðsynlegur hluti matarbankanna og mikilvægt er að maturinn sem standi til boða nái að þjóna ólíkum þörfum þeirra sem kunni að mæta þangað. Þar er t.d. mikilvægt að huga að ofnæmi og óþoli og tryggja að nægur barnamatur sé ávallt til staðar. Þegar einstaklingar búa við fátækt þá verður ódýrasti maturinn oft fyrir valinu sem er oftast ekki sá næringarríkasti. Hér er lagt til að einstaklingar og fjölskyldur geti komið í matarbankann og valið sjálfir í matinn, eftir því sem er í boði, í stað þess að það sé fyrirfram ákveðið hvað hver fái til úthlutunar. Þannig má tryggja að þörfum einstaklinga og fjölskyldna sé mætt hverju sinni, út frá því úrvali sem stendur til boða í matarbankanum.

Einnig er lagt til að matarbankarnir bjóði upp á nauðsynjavörur til heimilishalds en þegar einstaklingar búa við efnahagslegan skort mæta hlutir líkt og klósettpappír og hreinlætisvörur til einkanota, afgangi. Þá hefur einnig verið bent á að mikið af þeim mat sem standi til boða í matarbönkum sé dósamatur og því sé mikilvægt að bjóða upp á dósaopnara, þar sem slíkt er ekki til á öllum heimilum. Þetta og aðra þætti er mikilvægt að hafa í huga þegar unnið er að því að setja upp matarbanka og mæta þörfum þeirra sem búa við slæma efnahagslega stöðu og eru jafnvel að koma úr slæmum aðstæðum með ekkert með sér.

 

Þess má geta að því miður felldi meirihlutinn þessa tillögu sósíalistaflokksins sem er miður því ljóst er að matarbankar í borginni hefðu komið sér afar vel fyrir marga. En við látum ekki deigann síga og höldum áfram að berjast fyrir kjörum þeirra verst settu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram