Tími fyrir hálaunastéttir að líta í eigin barm!
Pistill
05.03.2020
„Við höldum, til dæmis, að hagvöxtur sé sama og fjárstreymi, en við sjáum ekki að mannslíf og náttúra geta visnað þótt að hagvöxtur aukist tímabundið. Okkur skortir félagslegt innsæi, okkur skortir vistkerfislæsi og skilning á raunverulegum hagvexti“ Bjarni Karlsson siðfræðingur í viðtali við RÚV 05.03.2020
Við getum allt eins sagt að ríkisstjórnir í röðum fólks sem er jafnan úr millistéttt/efri millistétt eða hástétt sem sannarlega verða að hástétt um leið og það fer að fá hinar ýmsu sporslur og launahækkanir kjararáðs er fyrst og fremst fólkið sem skortir félagslegt innsæi og skortir vistkerfislæsi og skilning á raunverulegum hagvexti. Bjarni Benediktsson er afar gott dæmi um þetta því hann tjáir sig mikið um það hvað við Íslendingar höfum það rosalega gott. En nei það er ekki fátæka fólkið sem skortir neitt fjármálalæsi, langt þar í frá, heldur er það þetta lið sem kemst til valda sem annað hvort þekkir ekki fátækt, þekkir engan fátækan eða firrist við það að vera kosið á þing. Meira að segja flokkur fólksins gekk ekki heill heldur frekar hálfur að kosningaborðinu í síðustu kosningum og hafa aðeins tveir upphaflegir þingmenn flokksins reynt að halda uppi umræðu um fátækt á þinginu við litlar undirtektir. Þau eru gjarnan afskrifuð af öðrum þingmönnum sem popúlistar sem þau eru kannski, en þau eru þó allavegana að reyna að vekja athygli á fátækt hvernig sem þau svo bera sig að.
Það er óendanlega sorglegt að hér hafi fátækt fengið að grassera síðastliðin tuttugu ár. Hefur hún aukist frekar en minnkað og það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að þorri fólks sætti sig ekki við þetta ástand. Það er ekki nóg að byggja einhver kærleiksskýli þó það sé að sjálfsögðu gott í neyð. En það leysir ekki vandann til langs tíma enda vandinn tekjuvandi fyrst og fremst! Í umræðu síðustu daga hef ég orðið vör við að nokkrir hoppi á vagninn „borgaralaun“ í þessu samhengi. Já við skulum bara leggja niður tryggingastofnun og setja á borgaralaun og þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af neinu höfrungahlaupi því allir fá bara það sama í grunninn. Ég persónulega skil ekki slíkan rökstuðning því ef allir hefðu sömu möguleika til þess að bæta við sig tekjum þá væru borgaralaun kannski góð hugmynd en þannig er það bara ekki langt þar í frá. Þetta er eins og að segja já við skulum eyða fordómum gegn öryrkjum með því að greiða öllum hinum bara örorkubætur líka. Ég er ansi hrædd um að það myndi núlla út tekjur öryrkja og dýpka vanda þeirra.
Ef það á að skoða borgaralaun í samhengi við til dæmis tækniþróun og horfin störf þá ætti að gera það alfarið utan við tryggingakerfið sem slíkt. Ef það ætti að greiða fólki fyrir að skapa sér mögulega atvinnu, finna uppá einhverju og eða hafa eitthvað milli handanna til að halda við neyslu, þá á það að leggjast ofan á möguleg laun fólks og bætur en ekki koma í staðinn því það inniheldur misskiptingu í sjálfu sér.
Samfélagið þarf bara að greiða almennileg lægstu laun, greiða hefðbundnum kvennastéttum mannsæmandi laun, kennurum og hjúkrunarfræðingum og öryrkjum og öldruðum, nota skattkerfið sem það tekjujöfnunartæki sem það getur sannarlega verið, hætta aftur þessari skatttekju af bótum og lægstu launum því hún er ekki náttúrulögmál sem alltaf hefur verið til staðar.
Svo geta hálaunastéttir litið í eigin barm og ákveðið að hætta þessu höfrungahlaupi sínu og þingmenn tekið sig saman í andlitinu og lagt línurnar um tekjubil í samfélaginu. Þetta er manngerður vandi sem er hægt að leysa en hann verður ekki leystur af fólki í stjórnmálastétt sem vinnur ekki fyrir allan almenning heldur bara suma en því miður verður hann á sama tíma þó bara leystur af fólki í stjórnmálastétt, fólki sem hefur valdið til þess að breyta skattkerfinu, breyta tryggingakerfinu og breyta launakerfinu.