Sósíalistaflokkurinn krefst aðgerða

Ritstjórn Frétt

Framkvæmdastjórn, félagastjórn og málefnastjórn Sósíalistaflokks Íslands krefjast þess að ríkisstjórn og Alþingi grípi strax til aðgerða til að fyrirbyggja að sagan frá 2008 endurtaki sig, þegar almenningur tók á sig öll áföll vegna þeirra manngerðu hörmunga sem þá gengu yfir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Þau auðvaldsöfl sem standa að baki ríkisstjórninni vilja nota yfirstandandi og fyrirsjáanleg áföll til að flytja fé, eignir og vald frá almenningi til hinna fáu ríku og valdamiklu, fella niður skatta á fyrirtæki og fjármagn, renna ríkisábyrgð undir skuldir einkafyrirtækja, styðja stærri fyrirtæki til að hirða upp þau minni og ýta með öðrum hætti undir samþjöppun valds og auðs. Sósíalistaflokkur Íslands hafnar slíkum aðgerðum og krefst þess að Alþingi, og sú ríkisstjórn sem það hefur myndað, vinni fyrst og síðast út frá hagsmunum almennings, sem veitir þinginu umboð sitt.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að lögum um opinber fjármál verði breytt svo stjórnvöld geti beitt ríkissjóði til að verja almenning fyrir áföllum.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að sett verði lög sem taki verðtrygginguna úr sambandi svo fall krónunnar hækki ekki sjálfkrafa skuldir almennings á sama tíma og fé auðvaldsins er varið.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að þak verði sett á húsaleigu svo að óheimilt verði að leigja út íbúðarhúsnæði fyrir meira en 1500 kr. á fermetra og að bannað verði að segja leigjendum upp húsnæði þar til efnahagslægðin er gengin yfir.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að afborganir lána þess fólks, sem missir atvinnu eða verður fyrir tekjutapi vegna minni vinnu eða lækkunar launa verði frystar, þar til fólkið fær aftur vinnu eða er komið með sambærilegar tekjur og áður.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að örorkulífeyrir og eftirlaun frá Tryggingastofnun ríkisins verði jafnhá lægstu launum. Með því að auka kaupmátt hinna fátækustu örvast efnahagslífið, öfugt við það þegar fé er fært hinum ríku.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að ríkisvaldið ráðist í uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis til að vinna gegn samdrætti í atvinnulífinu.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að velferðarkerfin; bætur skattkerfisins, heilbrigðis- og menntakerfið, atvinnuleysisbætur og öll félagsleg aðstoð verði varin og efld til að mæta auknum þörfum almennings.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að skattar á tekjur undir lágmarkslaunum verði afnumdir, en skattar á fjármagnstekjur og háar launatekjur hækkaðir á móti. Auk þess verði lagður á 2,5% auðlegðarskattur á hreina eign umfram 100 milljón kr.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að ríkisvaldið og sveitarfélög tryggi aðgengi allra að matvælum, ekki síst þeim sem hafa þurft að sækja þau til hjálparsamtaka, sem núna hafa fellt niður starfsemi vegna kórónaveirunnar.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að lagður verði skattur á gjaldeyrishagnað útflytjenda vegna falls krónunnar. Það má ekki gerast aftur að mikill hagnaður útgerðarinnar af nýtingu auðlinda almennings verði að ógnarhagnaði vegna falls krónunnar, á sama tíma og almenningur tók á sig heiftarlega kaupmáttarrýrnun.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að fyrirhuguð sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum verði stöðvuð og allar áætlanir um einkavæðingu, útvistun eða annan tilflutning á eignum almennings eða verkefnum hins opinbera til einkafyrirtækja verði stöðvuð.

Sósíalistaflokkur Íslands krefst þess að sett verði á gjaldeyrishöft til að stöðva fjárflótta hinna efnameiri og til að tryggja að söluandvirði afurða íslenskra útflutningsfyrirtækja skili sér til landsins, en sé ekki falið í aflöndum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram