Stöndum vörð um lýðræðislega ákvarðanatöku!

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Tæknin var nýtt áðan á aukafundi borgarstjórnar þar sem hluti borgarfulltrúa tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Á fundinum lá fyrir tillaga sem snéri m.a. að því að heimila notkun fjarfundarbúnaðs á fundum borgarinnar og að því að fela borgarráði heimildir borgarstjórnar fram að næsta reglulega fundi sem fer fram 21. apríl.

Í ljósi stöðunnar sem nú er uppi er mikilvægt að Reykjavíkurborg bregðist við og setji fram viðbragðsáætlanir við þeim afleiðingum sem kórónaveiran hefur. Ég lagði því fram breytingartillögu sósíalista sem fól í sér að fjarfundum borgarstjórnar yrði fjölgað fram til tímabilsins 21. apríl í stað þess að borgarráði yrði falin verksvið borgarstjórnar.

Aðeins hluti borgarfulltrúa situr í borgarráði og ekki allir hafa atkvæðarétt þar. Þar að auki eru fundir borgarráðs lokaðir en fundir borgarstjórnar eru opnir þannig að borgarbúar og aðrir geta fylgst með því sem fer fram á þeim vettvangi. Umgjörð fundanna er því mjög ólíkt og mikilvægt er á tímum sem þessum að tryggja að borgarstjórn öll geti tekið þátt í þeirri stefnumótandi ákvarðanatöku sem er framundan.

Breytingartillaga sósíalista var því miður felld en áhugasamir geta lesið hana hér og meðfylgjandi greinargerð. Tillagan er mjög lagalegs eðlis og vísar einnig í samþykktir um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og heimildir og skilyrði sem þar eiga við.

Breytingartillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands við tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi

Borgarstjórn samþykkir að falla tímabundið frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Vegna áhrifa kórónaveirunnar á samfélagið er mikilvægt að borgarstjórn ræði brýn málefni og komi saman til ákvarðanatöku. Í stað þess að fela borgarráði sömu heimildir og borgarstjórn hefur, fram að næsta reglulega fundi borgarstjórnar 21. apríl, með sömu skilyrðum sem gilda í sumarleyfi borgarstjórnar samkvæmt 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er lagt til að fjarfundum borgarstjórnar verði fjölgað. Aðeins hluti borgarfulltrúa situr í borgarráði og ekki allir hafa atkvæðarétt þar. Lagt er til að fundir borgarstjórnar verði vikulega fram til 21. apríl. Á þessum tíma verður heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum borgarráðs, fagráðum samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og öðrum nefndum samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundarbúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 en meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað. Í samræmi við 8. gr. leiðbeininganna verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum.

Greinargerð:
Í ljósi stöðunnar sem nú ríkir í samfélaginu er mikilvægt að Reykjavíkurborg bregðist við og setji fram viðbragðsáætlanir við þeim afleiðingum sem kórónaveiran hefur. Hér er lagt til að fjölga fundum borgarstjórnar yfir næsta mánuðinn þar sem enginn fyrirhugaður fundur er samkvæmt fundadagatali fyrr en 21. apríl 2020. Upphafleg tillaga sem lögð var fyrir fundinum gerði ráð fyrir því að borgarráð muni fara með verkefni borgarstjórnar á umræddu tímabili. Hér er rétt að nefna að það gilda ekki sömu heimildir um borgarráð og borgarstjórn. Í fyrsta lagi sitja ekki allir fulltrúar borgarstjórnar í borgarráði og í öðru lagi hafa ekki allir atkvæðarétt þar, ólíkt því sem á við í borgarstjórn. Þar að auki eru fundir borgarráðs lokaðir en fundir borgarstjórnar eru opnir þannig að borgarbúar og aðrir geta fylgst með því sem fer fram á þeim vettvangi. Þó að borgarráð fari með heimildir borgarstjórnar á umræddu tímabili, þá er umgjörð fundanna mjög ólíkt og mikilvægt er á tímum sem þessum að tryggja að borgarstjórn öll geti tekið þátt í þeirri stefnumótandi ákvarðanatöku sem er framundan.

Skiljanlegt er að það þurfi að tryggja vettvang þar sem hægt er að bregðast hratt við aðstæðum sem nú ríkja í samfélaginu. Mikilvægt er að aukafundir borgarstjórnar séu því skilvirkir með skýrt mótaða dagskrá um hvernig skuli bregðast við áhrifum og afleiðingum kórónaveirunnar. Lagt er til að skrifstofu borgarstjórnar verði falið utanumhald fundanna og útfærsla tæknilegra mála. Breyttir tímar sem þessir bjóða upp á krefjandi nálganir að verkefnum en með tækninni má leysa málin þar sem fjarfundarbúnaður og streymi frá fundi er valkostur án þess að fundarfólk og starfsfólk fundarins þurfi allt að vera á sama staðnum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram