Af hugtakaruglingi og ismaflótta

Símon Vestarr Frétt

Það er ekkert lítið sem mér brá við að opna smettisskinnuna í fyrradag.

„Sósíalismi er ekki svarið,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata, „hvorki við kóvid, loftslagsbreytingum né fátækt.“

Albert Svan, flokksfélagi hans, tekur undir:

„Sammála, enda ismar of gildishlaðnir og svarthvítir núorðið. Samt ætti að hafa það sem viðmið að flestar grunnstoðir virka best ef þær eru reknar á forsendum samfélagsins sem þær eiga að þjóna, fremur en arðsemissjónarmiðum. Það er enginn ‘ismi’ í heilbrigðri skynsemi.“

Þarna er ég að mestu leyti sammála Albert. En Helgi Hrafn veður reyk og svima.

Ég hef aldrei litið á hann sem hugsunarslugsara og því verð ég að játa að einfeldningsleg yfirlýsing hans sló mig örlítið. Ég fékk óþægilegt afturblik í æsku mína innan veggja trúarstofnunar við orðalagið: „Sósíalismi er ekki svarið.“ Ég get vart talið hversu margir hlutir voru „ekki svarið“ á sunnudagssamkomum í kirkjunni; áfengi, vímuefni, djöflarokk, kynlíf fyrir hjónaband, húmanísk lífssýn, þróunarkenningin og svo framvegis. En hvað var þá svarið? Nú, Jesús auðvitað. Við sungum lagið hans André Crouch um það. Jesús var vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Sósíalistar líta ekki á sósíalisma sem veginn, sannleikann og lífið. Þeir sem halda að sósíalistar séu trúarsöfnuður sem syngur nallann vikulega með Marx-líkneski á rauðu altari hafa búið sér til skemmtilega fantasíu en hún er álíka samkvæm sannleikanum og sagan um að breska konungsfjölskyldan samanstandi af eðlufólki.

Sósíalismi er ekki trúarskoðun heldur prinsipp. Að vera sósíalisti er að taka sér stöðu með hinum eignalausu og skrifa upp á þá einföldu afstöðu að allir í samfélaginu eigi að fá að leggja af mörkum það sem þeir geta og uppskera það sem þeir þurfa. Útfærsluhugmyndirnar eru svo hér um bil eins breytilegar og sósíalistar eru margir en auðvitað eru þeir sammála um vissa hluti; t.d. að grunnþjónusta eins og heilbrigðisþjónusta, menntamál og orkuveitur eigi ekki að vera í höndum einkaaðila og ekki rekin með gróðasjónarmiði.

Albert Svan er, samkvæmt þessari skilgreiningu, sósíalisti.

Og það er auðvitað satt hjá honum að það er enginn „ismi“ í heilbrigðri skynsemi (hvað stafsetningu varðar) en ofangreint prinsipp sósíalismans byggir á þeirri heilbrigðu og félagsvísindalega ígrunduðu ályktun að fyrirbæri eins og ójöfnuður og valdamisvægi vegna eignasamþjöppunar séu ekki bara óréttlát heldur geri samfélög beinlínis óstöðugri og ofbeldisfyllri. Það að gefa sér að allir eigi rétt á mannsæmandi lífi án þess að þurfa að sanna manngildi sitt fyrir sálarlausu markaðskerfi er í raun mun hófsamari hugmynd en hin gagnstæða; að skiptagildi sé mælikvarði allra hluta.

Ein af hetjum mínum á sviði gamanskrifa og -gjörninga skellti fram firrunni um sósíalisma sem trúarbrögð án nokkurs einasta rökstuðnings í tístheimum og ég þurfti bókstaflega að lesa færsluna yfir fjórum sinnum áður en ég gat meðtekið hana fyllilega:

„það sem sósíalismi og trúarbrögð eiga ma sameiginlegt:

Styðjast við rit sem eru bæði úrelt og uppfull af þversögnum, og verða túlkunaratriði

ala sífellt af sér „hreintrúarhópa“

kommar og kratar eru eins og kaþólska kirkjan og lúterstrú“

Þetta er að vísu mjög fyndið tíst en um hvaða sósíalisma er Jón Gnarr að tala?

Ég er vanari því að sjá svona málflutning frá andstæðingum femínisma sem taka eina eða tvær öfgakenndar birtingarmyndir hugmyndafræðinnar og alhæfa út frá þeim. „Femínistar eru bitrir karlahatarar.“ Sú staðhæfing getur vel átt við um einhverja sem titla sig femínista en biturleiki og karlahatur er ekki það sem femínismi gengur út á. Á sama hátt hafa óneitanlega verið angar af sósíalismanum sem hafa vaxið í rangar áttir – stalínismi er gott dæmi um trúarbrögð þar sem mennskur maður er dýrkaður – en sá sem lítur á örlög Sovétríkjanna og ályktar út frá þeim að ójöfnuður sé bara fínasta mál er með örfáar strípaðar snúrur lausar í höfðinu á sér.

Já, og hvað með kapítalisma? Markaðssinnuðum einstaklingum hefur gengið vel í gegnum árin að framreiða hugmyndir sínar sem einhvers konar raunvísindi en nýfrjálshyggja er ósköp einfaldlega sú nálgun að greiða götu eignafólks með skattalækkunum, eftirlitsleysi og annarri greiðasemi í þeirri trú (já: trú!) að það muni leiða til almennrar hagsældar. Það að þetta hefur aldrei nokkurn tímann gengið eftir hefur ekkert slegið á trúarhita lærisveinanna.

Allar lífskjarabætur sem launafólk hefur hlotið eru afurð baráttu þess gegn yfirgangi auðvaldsins. Markaðurinn getur skapað hagvöxt en aðeins verkalýðsbarátta getur skapað jöfnuð. Þess vegna hefur nýfrjálshyggjubylgja síðustu fjögurra áratuga leitt af sér gríðarlegan gróða eignastéttarinnar og kjarastöðnun launafólks. Þetta er ekki trúarskoðun heldur niðurstaða fjölmargra rannsókna. Maður hlýtur því að álykta sem svo að brauðmolakenning hægrimanna sé álíka trúverðug og gulltöflur Jósefs Smith, en í huga Helga Hrafns er það ekki kapítalisminn sem er vanhugsaður heldur andófið gegn honum.

Hann segir: „Það er frumstæð og ofureinfölduð nálgun á stjórnmál að ætla að stýra samfélaginu samkvæmt einum tilteknum isma. Góð samfélagsmódel eru kokkteill úr ýmum áttum, þ.á.m. sósíalisma, kapítalisma og öðrum.“

Ég álykta út frá þessari viðbót að Helgi gangist alla vega við þeim einfalda sannleik að kapítalismi er ekki náttúrulögmál heldur hugmyndafræði og er það vel. En það er ekki heldur eins og hugmynd hans um blandað hagkerfi sé eitthvað sem sjokkerar sósíalista. Mér sýnist Helgi ekki byggja hugmynd sína um hinn almenna sósíalista á neinum sem ég þekki. Marx sjálfur talaði aldrei um að allt ætti að vera rekið af samfélaginu eftir einni aðferðafræði og það eru helst áðurnefndir stalínistar (dýrategund sem dó að mestu út í röðum sósíalista milli 1956 og 1991) sem vilja hafa allt í ríkisrekstri. Sósíalisti er, í huga Helga Hrafns, ekki Jeremy Corbyn eða Sanna Magdalena heldur Marteinn Mosdal.

Hér sýnist mér bræður mínir í baráttunni gegn spillingu, Albert, Jón og Helgi, hafa týnt áttavitanum og villst í trjáþykkni hugtakanna. Albert hefur meira rétt fyrir sér en hinir tveir en hártogun hans varðandi isma er hvorki hjálpleg né vel ígrunduð. Ég skrifaði um þennan isma-flótta fyrir tæplega þremur árum og stend við þær röksemdir sem ég setti fram í þeim pistli. Eftirfarandi tilvitnanir eiga vel við hér:

„Allir hafa sjónarhorn. Þess vegna er það í besta falli tilgerðarlegt sjálfshól og í versta falli óheiðarleg hugarleti að lýsa því yfir að maður aðhyllist engan -isma eða sé enginn -isti.“

„Að kalla sig -ista er að lýsa yfir upplýstri afstöðu. Málið er að maður þarf fyrst að upplýsa sig og það er vesen. Maður þarf bara að gera það upp við sig hvort það sé meira vesen að lesa hluti með opnum huga eða að sætta sig við óréttlæti.“

Áður en maður fullyrðir digurbarkalega að sósíalismi sé ekki svarið við krísum nútímans er um að gera að lesa sér aðeins til um hvað hann er og hvað hann er ekki. Að afloknum þeim lestri komumst við Jón, Albert og Helgi að öllum líkindum að því að við vorum sammála allan tímann.

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram