Leiðréttum mistökin – Látum auðstéttina borga!
Pistill
30.03.2020
Vinnandi fólk hefur skapað ómældan auð fyrir íslenskt samfélag. Bæði efnahagslegan auð og samfélagslegan auð. Þetta vitum við öll. Vinnandi fólk heldur uppi grunnkerfunum á landinu. Verka og láglaunfólk hefur síðasta áratug þrælað sér út. Til að komast undan hruninu sem hafði hræðileg áhrif á líf okkar þurftum við að vinna og vinna og vinna; í endalausum yfirvinnum og aukavinnum. Láglaunakonur eru búnar að þræla sér út í umönnunarstörfum inn í fjársveltu kerfi. Þær hafa eitt síðasta áratug í að hlaupa hraðar og hraðar, til að halda öllu gangandi. Rútubílstjórar hafa unnið 24/7 árum saman, í ferðamanna-bransanum, til að komast uppí eitthvað sem hægt væri að kalla sæmileg laun. Þeir hafa borið þann fórnarkostnað sem því fylgir að vera alltaf í vinnunni. Fólkið sem vinnur við að þrífa og ræsta á hótelunum hefur breytt sjálfu sér í vélar, unnið hraðar og meira en nokkur manneskja ætti að vinna, til að komast yfir verkefnin sem á þau hafa verið lögð inn á vinnustöðunum. Þetta fólk hefur stundað „back-breaking“ vinnu fyrir lágmarkslaun.
Svona mætti lengi telja. Þetta vitum við öll.
Nú berast okkur fregnir af því að útsendarar ríkasta fólks Íslands, Viðskiptaráð, krefjist þess að svokölluð hagræðingarkrafa verði gerð á opinberar stofnanir, samstundis, í upphafi krísunnar. Að tækifærið verði notað þegar farsótt gengur yfir heimsbyggðina og niðurskurðarhnífurinn brýndur og brúkaður. Vegna þess að það sé „sanngjarnt“.
Allt sem þetta fólk hefur lagt til síðustu ár og áratugi er bull. Hugmyndafræðin er bull. Hún er samfélagslegt eitur. Hugmyndafræðin sem Viðskiptaráð aðhyllist býr til ástand þar sem sumt fólk þarf að hlaupa endalaust til að hafa í sig og á, meðan annað fólk færir sjálfu sér milljarða á ári hverju. Milljarða sem verða til vegna vinnu þeirra sem eiga að komast af á litlu sem engu. Milljarða sem verða til vegna vinnu þeirra sem geta aldrei lagt fyrir, aldrei tryggt afkomu sína, aldrei lagst til svefns án þess að áhyggjurnar taki sitt pláss í rúminu. Milljarða sem verða til vegna grimmilegs arðráns.
Fyrst að Viðskiptaráð hefur stigið fram (og ýmsir fleiri: Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vilja sleppa við veiðigjaldið í eitt ár) og notað orðið „sanngirni“ um firringu og þvaður, þá legg ég hér með til að í nafni sanngirninnar:
Verði allir þeir milljarðar sem greiddir hafa verið í arð til eigenda atvinnutækjanna á síðustu árum, þeir milljarðar sem fámennur hópur hefur talið sig mega taka til sín, gerðir upptækir af ríkinu og notaðir til að fjármagna kerfin okkar og samfélagið okkar, félagslega endurframleiðslu og mannsæmandi lífsskilyrði. Allir þessir milljarðar áttu auðvitað alltaf að fara í að gera það en runnu í vasann á fólkinu sem öllu hefur fengið að ráða í samfélaginu. Nú gefst tækifæri til að leiðrétta „mistökin“. Við hljótum að vilja grípa það tækifæri frekar en að leyfa auðstéttinni að láta sína hugmyndafræðilegu óra rætast, á kostnað okkar allra.
Það skal enginn láta sér detta það í hug að vinnandi fólk ætli að láta eitthvað svívirðilegt rugl fjármagnseigenda yfir sig ganga, í nafni samstöðunnar. Það kemur ekki til greina og mun aldrei gera það.
Bara svo að það sé sagt.