Taktu hagfótinn af andlitinu á mér

Símon Vestarr Pistill

Í vikulokunum á Rás 1 á laugardaginn var okkur sagt að þrátt fyrir að skiljanlegt væri að neysla heimilanna drægist eitthvað saman meðan sóttvarnaryfirvöld uppáleggja öllum Íslendingum að halda sig heima þá mættu Íslendingar ekki fyrir nokkra muni hætta algjörlega að versla. Ég lagði við hlustir enda kveiktu þessi ummæli rúmlega átján ára gamla minningu af Bandaríkjaforseta í sjónvarpsútsendingu frá flugvelli í Chicago, sautján dögum eftir 11. september 2001, þar sem hann sagði samlöndum sínum að draga ekki fyrir nokkra muni úr flugviðskiptum sínum eða annarri neyslu.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Af því að hreyfiafl samfélags okkar er neysla.

Endalaus neysluaukning

Taktur kapítalismans hljómar nokkurn veginn svona:

Fjárfesting, framleiðsla, neysla, gróði, SÓUN, endurfjárfesting, meiri framleiðsla, meiri neysla, meiri gróði, MEIRI SÓUN, endurfjárfesting, enn meiri framleiðsla, enn meiri neysla, enn meiri gróði, ENN MEIRI SÓUN, o.s.frv. Ég skrifa SÓUN með hástöfum af því hún er kerfisvillan sem gerir það að verkum að þetta getur ekki haldið svona áfram. 3% hagvöxtur út í hið óendanlega á plánetu með endanlegt magn auðlinda er jafnómögulegt og það hljómar. Ef þú trúir mér ekki geturðu gert smá tilraun:

Hentu lúkufylli af seríóshringjum út um gluggann. Endurtaktu þetta á fimm sekúndna fresti í þrjár klukkustundir og ef þú verður ekki uppiskroppa með seríós þá er hagvaxtarmódel okkar heilbrigt. Ef kassinn tæmist hins vegar þá er kerfið okkar fullkomlega vanhugsað. Orðatiltækið að fljóta sofandi að feigðarósi nær ekki yfir þetta. Við brunum í átt að þessu feigðarósi eins og kókaínbátur í Miami Vice þætti.

Við tökum ekki þátt í þessum kapítalíska dauðadansi af einhverri meðfæddri eðlishvöt heldur af vöðvaminni.

Við ákváðum ekki að hefja yfirstandandi neysluhlé en það hefur sýnt okkur svo ekki verður um villst hversu mikill munur er á hagsmunum okkar annars vegar og náttúrunnar hins vegar. Þetta er reyndar ekki alveg rétt orðað hjá mér. Það eru hagsmunir kapítalismans sem stangast á við hagsmuni náttúrunnar, ekki hagsmunir okkar. Við erum náttúra. Við tökum ekki þátt í þessum kapítalíska dauðadansi af einhverri meðfæddri eðlishvöt heldur af vöðvaminni. Vélin er sjálfvirk og mun koma okkur fyrir kattarnef ef við rönkum ekki við okkur og slökkvum á henni.

Ég er ekki að ýkja.

Það er ekki nóg að hægja á henni.

Við þurfum að slökkva á henni.

Efnahagslegt bransamál

Hagfræðingar sem aðhyllast nýfrjálshyggju eru orðnir að tímaskekkju í fagi sínu; menn sem vildu láta líta á ályktanir sínar sem raunvísindalegar. Í módelum þeirra voru mannabyggðir ekki organísk samfélög fjölbreyttra lifandi manneskja heldur kippur af fyrirsjáanlegum rökvélum með enga samvisku, ævintýraþrá, persónuleikaraskanir eða neitt annað sem gæti flækt útreikninga þeirra. Maðurinn í útreikningum þeirra var ekki homo sapiens sapiens heldur homo economicus. Þessi stirðbusalegi hugsunarháttur fann sér svo auðvitað leið inn í stjórnmálaumræðuna og þurrt fagtungumálið með. Grínframboðið Framboðsflokkurinn gerði gys að þessari bransamálstilhneigingu í stjórnmálum árið 1971 með því að kalla eftir því að vaxandi hagfótur fengi „stærri og betri skó“.

Hagfræði er aldrei ópólitísk og hugtakaforði hennar er það aldrei heldur. Og eins og George Orwell benti á árið 1946 þá er pólitískt orðfæri „til þess gert að láta lygar hljóma sannar og morð hljóma virðingarvert og til þess að ljá innantómu vindfoki ásýnd þéttleika.“ Gott dæmi um þetta er þegar Ásta Fjeld­sted, fram­kvæmda­stjóri Við­skipta­ráðs, reyndi að mála kröfur sínar um kjaraskerðingar í opinbera geiranum sem einhvers konar kall eftir þjóðfélagslegri einingu í Silfrinu á sunnudaginn:

„Við erum í raun bara að segja að það sama þurfi að ganga yfir alla á tímum eins og í dag. Þar sem við stöndum í þeirri óvissu að við vitum auð­vitað ekki hversu lengi þetta muni vara eða hvaða áhrif þetta muni hafa. Og við þurfum bara að leggja árar í bát til að róa að því mark­miði að það fjár­magn sem losnar fari á rétta stað­i.“

Óheiðarleikinn sem felst í því að gera að því skóna að eignastéttin muni fara jafnilla og eignalaust fólk út úr þeim efnahagslegu þrengingum sem munu fylgja í kjölfarið á þessum faraldri er nógu slæmur út af fyrir sig. En hugmynd Viðskiptaráðs um að opinberir starfsmenn taki á sig kjaraskerðingu til að bæta hag starfsfólks í einkageiranum er enn verri; hugmynd sem er hvorki skipulega framsett né byggð á neinum haldbærum rökum eða efnahagslegum staðreyndum. Ásta Fjeldsted reyndi að draga í land með þetta í Silfrinu en burtskýringarnar héldu engu vatni.

Krísur sem þessar eiga það til að opinbera svo ekki verður um villst hversu þunnildislegur soðningur frjálshyggjublaður kapítalista er.

Viðskiptaráð þjónar fólkinu sem hefur öll spilin á hendi og því hvetur það til niðurskurðar í almannaþjónustu og fjárútláta til fyrirtækjaeigenda. Krísur sem þessar eiga það til að opinbera svo ekki verður um villst hversu þunnildislegur soðningur frjálshyggjublaður kapítalista er. Ríkið pumpar út skattfé til að halda lífi í einkafyrirtækjum og orðavaðallinn um „báknið burt“ og að skattheimta sé þjófnaður gufar upp á hálfri sekúndu.

Ekki nóg með það, heldur ætlast fyrirtæki eins og Icelandair og Bláa Lónið nú til þess að íslenska þjóðin líti fram hjá svimandi háum arði þeirra á síðastliðnum árum og styrki þau eins og þau séu allslaus, vonlaus og varnarlaus. Þetta er auðvitað ekkert nýtt heldur beinlínis það sem gerist í hvert sinn sem allt fer á hliðina, eins og Naomi Klein útlistaði í bók sinni, The Shock Doctrine. Kerfi sem verðlaunar græðgi og gengur fyrir rányrkju verður ekki manneskjulegra þegar syrtir í álinn.

Þvert á móti.

Arðinn heim!

Í þessu samhengi hljómar uppástunga formanns Eflingar þess efnis að gera himinháar arðgreiðslur fyrirtækjaeigenda upptækar til að fjármagna efnahagslegan bata samfélagsins alls ekki róttæk heldur einmitt eins og skynsamleg sjálfsvörn almennings í stéttastríði sem hann átti ekki upptökin að. Við þurfum stórar aðgerðir ekki seinna en núna. Við þurfum að endurhugsa allt sem við höfum haft fyrir satt varðandi hagvöxt og velsæld. Við þurfum að taka vinnusiðferði okkar sérstaklega til endurskoðunar, eins og ég lagði til í pistli fyrir nokkru:

„Það að hafa eitthvað að gera í lífinu er okkur lífsnauðsynlegt. En vinna hefur ekkert gildi í sjálfri sér. Gildi hennar helgast af því hversu mikið gagn og gaman við höfum af henni og hversu mikið hún gagnast (og eða skemmtir) öðrum. Til dæmis er mun betra fyrir samfélagið og heimsbyggðina alla að sitja heima hjá sér og lesa atómljóð en að vinna á olíuborpalli eða í kjarnorkuveri.

Flestum er líka kunnugt um misræmið milli þess raungildis sem umönnun (á heimili eða utan þess) hefur fyrir samfélagið og þess skiptagildis sem hún hefur. Þeir sem annast sjúklinga, börn eða aðra sem þarfnast aðstoðar og stuðnings fá mun minna fyrir framlag sitt en t.d. þeir sem ollu alþjóðlegu efnahagshruni árið 2008 með glæfraleikjum sínum með fjármuni. Hvor skilar meiru til samfélagsins? Leikskólakennarinn eða áhættufjárfestirinn? Við vitum öll svarið við þeirri spurningu.“

Til marks um það hvort það er vinnuafl eða auðmagn sem heldur samfélaginu raunverulega á floti er ágætt að bera saman annars vegar tæplega sex mánaða langt verkfall bankastarfsmanna á Írlandi árið 1970, þar sem almenningur fann fljótlega leiðir fram hjá fjármálakerfinu með skuldaviðurkenningum á öldurhúsum, og hins vegar verkfall sorphirðumanna í New York árið 1968 sem setti alla starfsemi borgarinnar úr skorðum á níu dögum.

Í núverandi aðstæðum er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að leggja áróður auðvaldsins til hliðar og tala saman eins og fullorðið fólk.

Við þurfum líka að snúa baki við skurðgoðinu hagvöxtur og koma okkur saman um fyrirkomulag sem hleypur ekki í kekki ef hægist á gírum neyslunnar. Fyrirkomulag sem gengur fyrir öðru eldsneyti en græðgi og vægðarleysi. Fyrirkomulag sem á einhvern möguleika á að afstýra því sem afstýrt verður í samhengi við loftslagsbreytingar. Eitthvað í ætt við það sem á ensku er kallað degrowth og hefur verið í umræðunni síðan í upphafi áttunda áratugarins. Við komumst ekki að neinni vitrænni niðurstöðu ef við þurfum að takmarka allar lausnir okkar við það sem eignastéttin á eftir að samþykkja. Í núverandi aðstæðum er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að leggja áróður auðvaldsins til hliðar og tala saman eins og fullorðið fólk.

Antonio Gramsci skrifaði árið 1919: „Satt best að segja þá er það byltingarkenndur kommúnistaverknaður að komast að sannleikanum í sameiningu.”

Það að þessar kröfur um nýjar áherslur kunni að hljóma öfgakenndar í eyrum einhverra — jafnvel eins og byltingarkenndur kommúnistaverknaður — er ósköp einfaldlega til marks um það hversu mjög við höfum fjarlægst heilbrigða skynsemi í meðvirkni okkar við egósentríska auðsöfnun. Sú umræða sem ég legg til er í raun ekki einu sinni róttæk heldur fyrst og fremst nauðsynleg.

Bráðnauðsynleg.

Ekki á morgun eða eftir þrengingarnar sem framundan eru.

Núna.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram