Það sárvantar samtök smáfyrirtækja

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Yfirgangur SA, Viðskiptaráðs og annarra hagsmunasamtaka fyrirtækjaeigenda er sérstakt vandamál í íslensku samfélagi. Þessi samtök hafa krafist þess að á þau sé hlýtt eins og þau séu í forsvari fyrir öll fyrirtæki, en í raun vinna þau aðeins fyrir hagsmunum hinna allra ríkustu og gegn hagsmunum lang flestra fyrirtækja.

Hagsmunasamtök fyrirtækjaeigenda eru ekki lýðræðisleg félög. Þar gildir ekki reglan að hver félagsmaður hafi eitt atkvæði, heldur fer atkvæðamagnið eftir umfangi fyrirtækjanna þannig að hver króna hefur eitt atkvæði; með þeim afleiðingum að hin ríkustu ráða mestu. Um 90% fyrirtækja eru örfyrirtæki, með færri en tíu starfsmenn. En slík fyrirtæki hafa enga fulltrúa í stjórnum hagsmunasamtaka fyrirtækjaeigenda. Þar sitja í stjórn fulltrúar allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjananna. Þessi samtök vinna fyrst og síðast fyrir þennan hóp; örfáar fjölskyldur sem skipa hóp allra auðugasta fólksins á Íslandi.

Og sá hópur hefur allt aðra afstöðu til atvinnulífs en það fólk sem rekur ör- eða smáfyrirtæki, einyrkjar eða lítil fjölskyldufyrirtæki. Stærstu eigendur stærstu fyrirtækjanna gera þá kröfu að fyrirtækin skili eigendum hlutabréfanna sem allra mestum arði og sem mestri verðhækkun hlutabréfa. Eigendur örfyrirtækja horfa fyrst og fremst til þess að fyrirtækin skili sér öruggri atvinnu og afkomu. Stórfyrirtækin kaupa eða ná undir sig rekstri smærri og veikar staddra fyrirtækja og nýta stærðina til að beita hagræðingaraðgerðum, fyrst og fremst með því að fækka starfsfólki. Örfyrirtækin vaxa með því að auka umsvif sín og fjölga starfsfólki.

Setja má þetta svo upp að arðurinn af rekstri stórfyrirtækja sé tekinn upp úr rekstrinum og færður hinum fáu ríku (sem oftar en ekki flytja féð út úr hagkerfinu) á meðan eigendur örfyrirtækja nota arðinn til að byggja upp reksturinn, eyði arðinum innan hagkerfisins. Stórfyrirtæki fækka starfsfólki eftir því sem þau vaxa með yfirtökum, á meðan örfyrirtækin fjölga starfsfólki eftir því sem rekstur þeirra dafnar.

Því má bæta við að stórfyrirtækin kaupa eða komast yfir nýja tækni eða lausnir, sem iðulega á rætur að rekja til leitar örfyrirtækjanna að rekstrargrunni innan viðskiptalífs þar sem hin stóru og valdamiklu drottna yfir öllu, í tilhneigingu hinna stóru til að breyta öllum markaði í fákeppni eða einokun fárra stórfyrirtækja.

Stjórnarfólk í SA, Viðskiptaráði og öðrum hagsmunasamtökum fyrirtækja er fyrst og síðast fulltrúar allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna. Með því að gefa þessum þrönga hópi umboð til að tala máli allra sem eru í rekstri, þ.m.t. einyrkja, örfyrirtækja, fjölskyldufyrirtækja og annarra smáfyrirtækja; hefur rekstrarumhverfi fyrirtækja verið sveigt að hagsmunum stærstu fyrirtækjanna og frá hagsmunum smáfyrirtækja. Leikreglunum hefur verið breytt. Skattar á arð hafa verið lækkaðir að kröfu þeirra sem draga til sín fé upp úr rekstri á meðan skattar á laun hafa verið hækkaðir, en hlutfall launakostnaðar er hærra eftir því sem fyrirtæki eru smærri.

Og þegar kemur að kreppu magnast upp skaðræðið af því að láta fulltrúa allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna tala máli allra sem er í rekstri. Kreppa er tækifæri fyrir stóru fyrirtækin til að ná undir sig rekstri smærri fyrirtækja. Það er markmið stærri fyrirtækja alla daga, en segja má að kreppa sé einskonar uppskerutíð stórfyrirtækjanna að þessu leyti. Þegar kreppan hefur kippt fótunum undan smárekstrinum þá ganga stórfyrirtækin um og hirða upp hræin.

Og hættan er að við séum að ganga inn í slíkan tíma. Ríkisstjórnin hefur engar tilraunir gert til að heyra hver raunveruleg staða í samfélaginu er; hún sættir sig fullkomlega við að vinna innan veraldar sem markast af ægivaldi allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna. Hún er ekki að fást við raunverulega stöðu atvinnulífsins heldur þann raunveruleika sem allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna kynna henni og er fyrst og síðast kröfulisti auðugustu fjölskyldna landsins, um hvernig þær geti aukið við auð sinn og völd.

Og hvar er óskalisti verkalýðshreyfingarinnar eða annarra samtaka almennings, lýðræðislegra samtaka þar sem hver maður hefur eitt atkvæði? Því miður er ólíklegt að slíkir óskalistar séu á borðum stjórnvalda. Þau vinna út frá óskalista hinna ríku og gefa svo verkalýðshreyfingunni færi á að koma með athugasemdir, að hefla af þeim versta óskundann.

Ef við eigum að geta fundið leið út úr komandi kreppu, sem ekki leiðir okkur inn í verstöð í eigu örfárra, verðum við að byggja leiðina á kröfum almennings, eins og þær birtast í kröfum lýðræðislegra samtaka hans. Síðan er mikilvægt að smáfyrirtæki, einyrkja, fjölskyldufyrirtæki og önnur örfyrirtæki myndi með sér lýðræðisleg samtök sem tali máli lang stærsta hluta atvinnulífsins, þess hluta sem hefur og mun skapa flestu störfin, sem hefur og mun innleiða mesta nýsköpun og framþróun. Þegar mótuð hefur verið stefna til að gæta hagsmuna þessara tveggja; almennings og örfyrirtækja; má senda fax með niðurstöðunni á hinar þröngu klíkur hinna ofsaríku, sem hingað til hefur komist upp með að drottna yfir umræðunni og reka hagsmunabaráttu sína í gegnum stjórnmálaflokka, sem í orði kveðnu eru almannasamtök, en hafa þróast í að verða hagsmunaklíkur auðvalds og valdaelítu.

Í stuttu máli: Leiðin út úr kreppunni er í gegnum lýðræði, ekki alræði hinna ríku. Það er áskorun til allra, líka þín.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram