Almannagæði í stað sérgæða
Pistill
28.04.2020
Almannagæði 1
Áratugum saman hefur það verið barið inn í okkur að heimskapítalisminn sé stórkostlegur og jafnvel endir söguþróunarinnar. Að öll vandamál hafa verið leyst og kerfið sé uppspretta endalausrar nýsköpunar og jákvæðra breytinga.
Takmarkalaus auður rennur eins og stórfljót til þeirra fáu ríku og endurdreifist um allt samfélag með stöðugri frumkvöðlastarfsemi þeirra og töframætti við að skapa ný störf. Þetta er brauðmolakenningin sem er hin miðlæga réttlæting þess að slíkt kerfi gagnist samfélaginu sem heild.
Samt hrynur allt. 2008 var þetta „þúsundáraríki“ fallið. Á Íslandi tók það ný-einkavædda banka aðeins 5 ár að leggja sjálfa sig og landið í rúst og nú sviftir alheimsfaraldur aftur leiktjöldunum frá og sýnir okkur að þrátt fyrir ofboðslega söfnun auðæfa þá eru þeir ofsaríku lítils virði til að standa undir þeim vanda sem skapast í efnahagskerfi og innviðir eru illa farnir eftir niðurskurð og einkarekstur eða einkavæðingu sem einmit átti að skila betra kerfi.
Engin tilraun er gerð til að útskýra þessa mótsögn enda má segja að kerfið bæði pólitískt og efnahagslega nærist á mótsögnunum.
Það er eins og Donald Trump hafi staðið í ræðustól allan þennan tíma, harðneitað veruleikanum og beljað sinar valkvæðu staðreyndir undir áköfum fagnaðarlátum.
Þrátt fyrir stöðugan áróður um annað er engin samfélagssáttmáli sem heldur í þessu kerfi, hvernig getur líka annað verið þar sem byggt er á stöðugri samkeppni og græðgi og hvernig getur lýðræðið verið tryggt með ægivaldi fjármagnsins?
Eða að hægt sé að keyra áfram endalausan hagvöxt á plánetu með takmarkaðar auðlindir?
Mótsagnirnar eru augljósar.
Víðsýn stað rörsýnar
Aðgerðir stjórnvalda sýna okkur hversu þröng sýn þeirra er á samfélaggerðina og þrátt fyrir að nú sé hallarekstur mögulegur á ríkisjóði er þeim ómögulegt að skilja að möguleikar eru á annarri peningastefnu og niðurskurðar- og sveltistefna bíður handan við hornið.
Hagfræðingar og seðlabankstjórar eru rokkstjörnur tímans en ráðgjöf þeirra sem standa næst valdinu er lituð pólitískri kreddu og mælitækin sem þeir nota veita rörsýn á samfélagið eins og er til dæmis með hagvaxtarmælingar og verga landframleiðslu (GDP) sem eru miðlæg tæki um markið og leiðir.
Það þarf víða sýn og ekki einungis hvað varðar hagfræði og rekstur heldur þarf að taka með í reikninginn allar þær greinar sem fást við mannlegt samfélag og gefa þeim vægi. Við gætum kallað það víðsýn í stað rörsýnar.
Ef við hugsum um samfélagið út frá þörfum fjöldans þá er það augljóst að núverandi markaðskerfi er ekki að uppfylla þær þarfir. Smávægilegar endurbætur eru einskis virði og munu einungis slá stórvægilegum vandamálum á frest eins og raunin var eftir kreppuna 2008. Reynslan sýnir okkur það og ætti að vera veganesti við að leysa vandamál samtímans.
Við þurfum allt önnur ráð og aðra hugsun. Almannagæði í stað sérgæða er heillaráð og hugsun til að breyta samfélagi til góðs.
Almannagæði
Almannagæði eru verðmæti sem að samfélagið hefur sameiginlegan aðgang að og jafnan rétt til.
Við getum talið til; land, vatn, þekkingu, auðlindir, afrakstur vísindaþekkingar og rannsókna, hugbúnað, húsnæði, heilsugæslu, vegakerfi, matvælaframleiðslu á öllum sviðum og svo framvegis.
Í kerfi nýfrjálshyggjunnar er litið á þessa þætti sem eitt og annað form af kapítali sem nýta á til að skapa rentu, hagnað, sem rennur að mestu til þeirra sem eiga fjármagn, fyrirtæki eða hlutabréf.
Þannig höfum við, fjöldinn, verið svift okkar sameiginlega auði.
Það eru hinsvegar ýmis almannagæði enn standa. Til dæmis má nefna vegi sem að byggðir eru fyrir almannafé og öllum er frjálst að nota. Við eigum enn leifar af heilbrigðiskerfi sem eitt sinn náði með öflugum stofnunum um allt land og var gjaldfrjálst. Þessi kerfi eru hinsvegar undir stöðugum árásum. Sú var tíðin að konur gátu fætt í heimabyggð en nú þarf fjöldi kvenna að ferðast yfir langan veg til að fæða börn sín.
En almenna reglan er einkaeignarrétturinn og einkanýtingarréttur þegar við ættum fyrst og fremst að vera að hugsa um sem flest svið mannlegrar iðju sem almannagæði.
Efnahagsmál, félagsmál og lýðræði eru óaðskiljanleg
Núna þegar mannkynið stendur frami fyrir þessum mikla tilvistarvanda, heilsufarslega og efnahagslega þá ætti það að vera flestum ljóst hversu hættulegt það er fyrir framtíð okkar að leifa þann gerfiskort á þekkingu sem einkavæðing og einkaleyfin búa til við að skapa sem mestan arð og búa til sem mest völd með starfsemi sinni. Hér má nefna Google og Facebook og þá staðreynd að bæði fyrirtækin byggja auð sinn á því að hafa nýtt sé þekkingu sem var almannagæði og hefðu ekki náð árangri án hennar.
Þess vegna á að taka stefnuna á efnahagskerfi samfélagslegrar þekkingar, að þekking sé almannagæði og hugvitsfólk fái alla aðstöðu til að vinna með hana og skapa enn meiri almannaverðmæti. Ýmsir slíkir sprotar eru til má til dæmis nefna opna Linux stýrikerfið.
Að byggja upp og endurreisa hugmyndina um almannagæði umfram sérgæði mundi dreifa auðnum réttlátar um samfélagið en mikilvægara væri þó að slíkur hugsunarháttur er breyting á grunn hugsunarhætti núverandi skipulags.
Og það er mikilvægt að hafa það í huga að almannagæði eru ekki bara eitthvað til að fá heldur hafa þau í för með sér aðra menningu þar sem samfélag fólks stýrir notkun þeirra og varðveislu, fær réttindi og hefur skyldur og ber ábyrgð. Ég er að tala um raunverulegt lýðræði úti í samfélaginu, samvinnufélagarekstur, annan óhagnaðardrifinn rekstur, setu launamanna í stjórnum fyrirtækja og ríkisrekstur.
Í stuttu máli að endurskapa stjórnkerfið okkar til að mæta þörfum fólksins ekki stórfyrirtækja.
Við getum ekki rætt samfélagsmál lengur útfrá rörsýn stjórnmálastéttarinnar og hagfræðinnar á takmörkuð svið samfélagsins.
Kreppan sem gengur yfir heiminn er í stórum dráttum þríætt: Heilsufarsleg, efnahagsleg og félagsleg. Það ætti að vera krafa þeirra sem vilja vinna að raunverulegum kerfisbreytingum að samfélagsmál séu rædd í því víða samhengi. Að hugsa um samfélag út frá hugmyndinni um almannagæði hefur þann augljósa kost að hún er ekki einungis um efnahagskerfið heldur líka um félagsmál og lýðræði.
Þeir sem vilja endurreisa nýfrjálshyggjusamfélagið einn ganginn enn munu vilja ræða um öll mál eins afmarkað og þeir komast upp með.
_____________
Þetta er fyrsta greinin af 5 í greinaflokki um almannagæði.
Ég mæli með þessarri bók George Monbiot sem er full af frumlegri hugsun um nýfrjálshyggjuna og almannagæði og þessi grein er að nokkru byggð á.