Frá hinu smáa til þess stóra
Pistill
30.04.2020
Almannagæði 2
Hópurinn er betur i stakk búinn til að vernda hagsmuni sína en einstaklingurinn er fyrir hópinn. Þetta er fullyrðing sem er andstæða meiginstraumshugsunar þeirra sem stjórna samfélaginu í dag. Með því að líta á árangur þeirra verður fullyrðingin enn áhugaverðari.
Stjórnmálin eiga að virka frá hinu smáa til his stóra – frá staðbundnum málum til landsmála til alþjóðamála. Frá botninum og upp á topp. Með virku eftirliti frá hópnum í smáum, staðbundnum einingum í atvinnulífi og félagsmálum til stærsta hópsins (þjóðarinnar) sem leyfir ekki fulltrúalýðræði þar sem fulltrúar hennar geta tekið sér stéttarstöðu gagnvart hópnum og velt sér uppúr forréttindum.
Hugmyndin um almannagæði, sem er sameiginlegur nýtingarréttur verðmæta og lýðræðisleg þátttaka og ábyrgð á skipulagningu nýtingarinnar og framleiðsluferlinum, er allt annarskonar menning en í frjálshyggjukapítalismanum. Raunhæfur valkostur sem fráleitt er nýr í sögu mannkynsins.
Það er annarskonar menning á þann hátt að meðvituð, óeigingjörn umhyggja fyrir velferð annarra er verðlaunuð og hengt er fyrir taumlausa græðgi og eigingirni. Hópdýrið – maðurinn – vinnur saman í hóp þar sem samvinna er verðlaunuð en skortur á framlagi til hópvinnunnar eða vinnu gegn sameiginlegum hagsmunum hegnt.
Þetta er ekki efnahagskerfi þar sem sigurvegarinn hirðir pottinn heldur efnahagskerfi þar sem allir njóta ávinningsins. Það skerðir möguleika sigurvegararans á lúxuslífi og söfnun á því sem hann fær ekki torgað í skattaskjóli til dæmis en það er hagfellt fyrir alla aðra.
Það er gott að hafa það í huga að náttúran takmarkar okkur, við drekkum öll úr sama brunninum og engum á að leyfast að spilla vatninu.
Það eru til valkostir!
Fyrir þá sem ekki geta brotist út úr goðsögn kapítalismans getur verið erfitt að skilja að það geti verið til valkostur við efnahagskerfi tvöfalds bókhalds.
Það er ranghugmynd að fjármagn sé af skornum skammti og þurfi að greiðast til baka með vöxtum sem séu ákveðnir með einhverskonar yfirskilvitlegri forsjá illa skilgreindra markaðsafla. Núna á tíma Covid 19 sjáum við hversu fáránlegar hugmyndir nýfrjálshyggjunnar eru við rekstur ríkissjóðs.
Það er hægt að gefa út nóg af krónum til að uppfylla skynsamlegar þarfir okkar en hættan er að nú sé verið að nú sé verið að skapa „móður alls pilsfaldakapítalisma“ og að hægri niðurskurðarstefna (austerity) taki við og þjóðnýti skuldir þeirra ríku en einkavæði gróða þeirra.
Andstætt því þurfum við að byggja upp samfélag þar sem gróðinn er samnýttur og sameiginleg ábyrgð er borin af tapi og áföllum.
Auði dreift fyrir skatta
Eitt sjónahorn sem er hægt að skoða almannagæði útfrá er dreift eignarhald (distributism)* Í stað þess að nota skattkerfið til þungrar skattlagningar og svo endurdreifingar með það markmið að auka efnahagslegan jöfnuð og valddreifingu þá er tækifærunum til að skapa auð einfaldlega fordreift til starfsmanna fyrirtækja. Hér er verið að tala um lýðræðisleg samvinnufyrirtæki sem er árangursríkt og þrautreynt fyrirkomulag.
Dæmi um slíka framkvæmd gæti verið samvinnufyrirtæki sem byggði ódýrt húsnæði þar sem íbúarnir nytu virðisaukans í formi ódýrrar leigu sem markaðist af kostnaði og viðhaldi og með því að framkvæma nóg með þessari aðferð búum við til almannagæði. Ef jarðskjálfti skemmdi slíkar byggingar þyrftu meðlimir í samvinnufélaginu, semvið segjum að séu orðnir fjölmargir um allt land, að deila ábyrgðinni.
Gróðinn er samnýttur og sameiginleg ábyrgð er borin af tapi og áföllum.
Rafræn almannagæði
Stærsti vaxtarbroddurinn er í stafrænum viðskiptum og það er augljóst að virðisauki greinarinnar rennur að langmestu leyti til fárra. Almannagæði á þessu sviði eru þó mjög auðframkvæmanleg.
Uber-rekstur á leigubílaþjónustu er væntanlegur til Íslands. Við vitum að reksturinn fer í gegnum app og eigendur þess eru vellríkir en leigubílstjórar berjast í bökkum, réttindalausir og mjög víða í hreinni fátækt.
Leigurbíla-app er hinsvegar sáraeinfaldur hlutur, góð lýsing á því er að það sé stefnumóta-app, með vegakorta-appi og kreditkorta-appi. Sameign og rekstur á slíku appi er augljóslega bæði auðveldur og sanngjarn og ef að róbótaframtíðin verður að veruleika er augljóslega betra að slík gæði séu í sameign heldur en í einkaeign ef litið er til hagsmuna launamanna.
Sama gildir um allan rafræna heiminn t.d. samskiptamiðla þar sem að ákvörðun um hvort að hegðunarupplýsingar, sem eru í dag aðal framleiðsluvara slíkra miðla, eru seldar eða ekki er tekin á lýðræðislegan hátt.
Að líta á slík fyrirbæri sem almannagæði er hugmynd um að efnahagskerfið sé fínstillt með hagsmuni fjöldans í huga, að kerfið sé fyrir manneskjurnar. Manneskjan er ekki til fyrir kerfið.
Stöðugur vöxtur er ósjálfbær
Krafan um stöðugan vöxt er að drepa plánetuna sem við lifum á og þar með okkur sjálf. En samt virðist ómögulegt að snúa af þeirri braut. Mótsögnin er augljós. Móðir jörð býr yfir takmörkuðum auðlindum og af þeim er ekki hægt að taka ótakmarkað til eilífðarnóns. Ef við lítum út í náttúruna þá sjáum við að þar er ekkert fyrirbæri sem getur vaxið endalaust.
Vöxt þarf að laga að náttúrulegum aðstæðum og góð aðferð til þess er að leita eftir væntingum og þrám venjulegs fólks sem lifir í raunhagkerfinu, ekki eftir væntingum og þrám stórfyritækjaeigenda, hluthafa og fjármálakerfis sem lifir í sýndarveruleikahagkerfinu við að blása út bólur og hagnast á trixum hvort sem það er veltitíð eða kreppa.
Stærra þarf ekki að vera betra. Tími með fjölskyldunni getur verið metinn verðmætari en hlutabréf. Að allir í samfélaginu hafi aðgang að gjaldfrjálsu námi við hæfi getur verið metið verðmætara en fjársjóðssöfnun fárra í skattlausu skjóli fyrir utan samfélagið. Og svo endalaust framvegis.
Núverandi samfélagsgerð er vandamálið
Áratugum saman hefur okkur verið sagt að við stefnum í framfaraátt vegna þess stöðugur vöxtur er mældur hjá þeim sem safna mestum auði úr kerfinu. Fræðasamfélagið, og þar fremstir meiginstraums-hagfræðingar og aðrir framtíðarspámenn auk allra stærstu fjölmiðlanna í heiminum, hafa stöðugt barið þennan lóm.
Framfarir eru alltaf góðar og hafnar yfir alla gagnrýni hvað þá lýðræðislegar ákvarðanir og umræðu. Að standa gegn „framförum“ hvaða afleiðingar sem þær hafa er einhverskonar kerfis-guðlast. Jafnvel „framförum“ á tæknisviðinu eða í umgjörð stórfyrirtækja sem hafa þann augljósa tilgang að lækka eða afnema launakostnað, takmarka aðgang, snúa að siðferðislegum álitamálum og takmörkunum manneskjunnar sem vinnuafls. Engar lýðræðislegar umræður eða lýðræðislegar ákvarðanir eru teknar um slíkar „framfarir“.
Stór hluti vandamálsins sem blasir við okkur er ekki vírusinn, jafn óttalegur og hann er. Það er núverandi samfélagsgerð og sú rörsýn sem er beitt við að greina og mæla. Dæmi um slíkar mælieiningar er hagvöxtur, verg þjóðarframleiðsla (GDP) og útflutningsverðmæti sem taka til takmarkaðra þátta og mæla á engan hátt dreifingu auðs og gæða eða gæði samfélagsins út manneskjunum öllum sem þar búa.
Við þurfum að hugsa um efnahagsmál á miklu víðari grunni sem samfélagsmál. Góð aðferð til þess er að hugsa út frá almannagæðum ekki sérgæðum.