Stuðningsyfirlýsing sósíalískra femínista við verkfallsboðun Eflingar

Sósíalískir femínistar Frétt

Ísland 1. maí 2020
Sú fyrirlitning sem valdastéttin hefur sýnt kvennastörfum á vinnumarkaði hefur komið rækilega í ljós í þessum veirufaraldri sem hefur geisað á Íslandi nú í tvo mánuði. Hjúkrunarfræðingar hafa verið án kjarasamninga í langan tíma og enginn vilji virðist vera til að semja almennilega við þá. Talað er um hjúkrunarfræðinga sem hetjur og algerlega ómissandi. En hetjur þessar eru ekki meira virði en svo að þeir eiga ekki skilið mannsæmandi laun?

Eflingarfólk hefur einnig staðið í kjarasamningaviðræðum. Viðræðurnar höfðu ekki borið árangur sem erfiði og var verkfall skollið á. Þegar ljóst var í hvað stefndi með Covid-19 ákvað Eflingarfólk samt að taka tillit til aðstæðna og gerði hlé á verkföllum þar til ástand væri orðið betra og meira öryggi í samfélaginu.
Þeir eru ófáir sem hafa skoðun á því að Eflingarfólk ætlar að hefja verkfall sitt að nýju 5. maí næstkomandi. Skoðanirnar eru misjafnar en þeir eru þó nokkrir sem fussa og sveia yfir því að Eflingarfólkið sýni ekki tillitssemi miðað við ástandið sem er í dag.

Það var klárt frá upphafi, þegar Efling ákvað að gera hlé á verkfallsaðgerðum að verkfall myndi hefjast að nýju þegar samkomubann myndi mildast. Þar á undan var búið að gefa ríflegar undanþágur til að hægt væri að sinna gamla fólkinu og þeim sem þurfa aðhlynningu og hjálp í sínu daglega lífi. Þegar hlé var gert á verkfallinu var enginn sem reyndi að nálgast Eflingu og koma í veg fyrir boðaðar aðgerðir að ástandi loknu.

Eflingarfólk er að stærstum hluta konur, eða 80%. Konur sem að sinna umönnunarstörfum og þrifum meðal annars. Konur sem hafa verið ómissandi starfsfólk í þessum heimsfaraldri sem við göngum í gegnum. Þessar konur mættu í vinnu á hverjum degi og settu líf sitt og fjölskyldna sinna í hættu fyrir laun sem að duga ekki til að eiga í sig og á.

Við, undirrituð, erum fólk í sósíalistaflokknum og skilgreinum okkur sem sósíalíska femínista. Við lýsum hér með yfir algerum stuðningi við aðgerðir Eflingar og vonum að þau bæjarfélög sem koma að samningsborðinu sjái sóma sinn í því að koma að því með opnum hug og réttlátu hugarfari. Það er kominn tími til að þeir sem eru ómissandi í kerfinu okkar fái laun í samræmi við það.

Í dag er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, og ærið tilefni til að standa upp fyrir verkalýðnum og segja: Áfram Efling!

Arna Þórdís Árnadóttir
Margrét Pétursdóttir
Elísabet Ýr Atladóttir
Candice Michelle Goddard
Ynda Eldborg
María Pétursdóttir
Elsa Björk Harðardóttir
Birna Eik Benediktsdóttir
Sigrún Jónsdóttir
Pála Sjöfn Þórarinsdóttir
Laufey Líndal Ólafsdóttir
Elísabet Einarsdóttir
Sanna Magdalena Mörtudóttir
Agnes Erna Estherardóttir
Ester Bíbí Ásgeirsdóttir
Jóna Guðbjörg Torfadóttir
Óskar Steinn Gestsson
Margrét Rósa Sigurðardóttir
Elín Vigdís Ólafsdóttir
Bára Jóhannesdóttir Guðrúnardóttir
Sonja B. Jónsdóttir
Hlynur Már Vilhjálmsson
Birna Gunnarsdóttir
Kristín Bjarnadóttir
Rán Reynisdóttir
Erna Hlín
Jóhann S. Vilhjálmsson
Auður Sighvatsdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram