Sameiginleg velferð með samvinnu – Um Elinor Ostrom
Pistill
02.05.2020
Almannagæði 3
Líf- og mannfræðingurinn David Sloane Wilson lýsti einsemd Elinor Ostrom í kapítalismanum á þann hnyttilega hátt að hún væri eins og Fróði í Hringadróttinssögu á leið sinni til Mordor. Elinor Ostrom fékk nóbelsverðlaun í hagfræði 2009.
Líf og starf Elinor Ostrom
Hún fæddist í Californiu 1933. Á tíma þar sem konur áttu að verða húsmæður, ritarar eða í mesta lagi kennarar. Komin af bláfátækum foreldrum naut hún góðs af ódýru menntakerfi og af frábærum dugnaði náði hún sér í góða menntun
Doktorsrannsókn Ostom fjallaði um jafn „óspennandi“ fyrirbæri og stjórnun á notkun neysluvatns. Engar reglur giltu um notkun vatns í Californíu á þeim tíma en þegar grunnvatnsborðið fór lækkandi varð fólki það ljóst að vatn var takmörkuð auðlind sem þyrfti að stjórna.
Hún rannsakaði ferlið og sá að fjölda aðila sem höfðu hagsmuna að gæta tókst að semja um nothæft regluverk án nokkurra afskipta stjórnvalda.
Þarna hafði Ostom sýnt fram á hugmyndir sem í framkvæmd voru á róttækan hátt andstæðar þeim efnahagskenningum sem voru almennt viðurkenndar og allt um lykjandi. Fólk í nærumhverfi, þar sem vandamál var brýnast, leysti út því og kom aftur á í stórum dráttum kerfi sem tryggði sameiginlega velferð.
Meginstraumshugmyndir voru byggðar á þeirri vissu að eigingirni leiddi sjálfkrafa til sameiginlegrar velferðar. Rannsóknir Ostrom sýndu þvert á móti fram á að þegar allir gátu tekið til sín eins og þeim sýndist af verðmætum var engin „ósýnileg hönd“ sem að greip í taumana og bjargaði fólki frá vandamálinu sem ofnotkun skapaði. Eigingirnin leiðir, eins og flestir geta fundið dæmi um í sínu eigin lífi, til ofneyslu og misnotkunar og veldur þannig fjöldanum skaða en bætir ekki líf hans.
Löggan er almannagæði
Strax og hún hafði tækifæri til tók hún að vinna með útskriftarnemendum að rannsóknum á almannagæðum. Þessar rannsóknir voru brautryðjendastarf þar sem þurfti að búa til aðferðafræði frá grunni og finna hina flóknu snertifleti sem viðfangsefnið hafði.
Almannagæði, eins og áður hefur komið fram í þessum greinaflokki, geta verið öll þau verðmæti, efnisleg eða óefnisleg sem er hægt að deila og stjórna sameiginlega og þar með talin opinber þjónusta. Og hún og rannsóknarhópur hennar valdi sér lögreglustöðvar sem rannsóknarefni.
Sameining og samþjöppun var stefna yfirvalda án þess að neinar rannsóknir hefðu verið gerðar á áhrifum þeirrar stefnu. Það leit hinsvegar ansi vel út á pappírunum að fækka stöðvum í landinu úr 40.000 í 400.
Ransóknir hóps Ostrom sýndu aftur á móti að smærri einingar voru oftar í betra sambandi við samfélagið sem þær voru í og gátu brugðist betur við þörfum þess. Þannig að starfsemi lögreglunnar væri best að miða við þá sértæku þjónustu sem nærsamfélagið þyrfti á að handa og til að vita hver hún mætti best verða væri best að meta slíkt í hverju tilfelli fyrir sig í litlum einingum.
Það var ekki fyrr en á níunda áratug síðusta aldar að verk EO fóru að vekja einhverja athygli og hún fékk stærri verkefni. Og 1990 kom út mekasta verk hennar bókin „Governing the Commons: The Evolution of Institutions for Collective Action“
Uppskrift að árangri
Í bókinni setur hún fram uppskrift í 8 liðum um hvernig hópurinn getur unnið að sameiginlegum markmiðum til hagsbóta fyrir hann allan. Þær eru afar lærdómsríkar fyrir hverskonar hópstarf og árangur þess. Hvort sem er um að ræða litla hópa eða félög sem fást við flókin verkefni.
1) Vandlega skilgreind takmörk
Meðlimir hópsins ættu að hafa sterka sjálfsvitund og hafa sterka hópvitund og þekkja réttindi og skyldur sem eru samfara aðild að hópnum.
2) Hlutfallslegt jafngildi milli réttinda og skylda
Það að sumir innan hópsins leggi fram alla vinnuna og aðrir njóti ávaxtanna er ósjálfbært til lengdar. Allir verða að leggja af mörkum sanngjarnan skerf. Þeir sem leggja til meira en skyldan ber til eiga að fá það viðurkennt. Þegar leiðtogum er úthlutað forréttindum á það að vera vegna þess að þeir hafi tekið að sér sérstaka ábyrgð sem þeir verða að standa ábyrgir fyrir. Ósanngirni og ójafnrétti spillir öllu sameiginlegu starfi.
3) Kerfi til að taka sameiginlegar ákvarðanir
Meðlimir hópsins verða að geta tekið sameiginlegar ákvarðanir, búið til sínar sameiginlegu reglur. Fólk hatar að vera skipað fyrir en er tilbúið til að leggja hart að sér ef um sameiginlega ákvörðun er að ræða. Að vinna fyrir það sem VIÐ viljum ekki það sem ÞEIR vilja. Auk þess sem besta niðurstaðan þarf oft þekkingu sem einungis þeir hafa sem búa næst vandanum. Þekkingu og aðferðir sem VIÐ eigum en ÞÁ skortir. Ákvarðanir teknar með samþykki (consensus) eru mjög mikilvægar.
4) Eftirlit
Það þarf alltaf að standa vörð um samvinnu. Jafnvel þó að flestir í hóp séu velmeinandi þá er freistingin að sleppa billega alltaf til staðar og einhverjir einstaklingar gætu reynt að leika á kerfið. Ef vinnusvik eða brot verða ekki uppvís er ólíklegt að starf hópsins beri árangur.
5) Stigmagnandi aðhald
Vinsamlegar ábendingar og áminningar eru oftast nægilegar til að fólk þjóni hópnum en harðari aðgerðir eins og refsingar eða brottvikning úr hópnum verða að vera til vara.
6) Að leysa úr ágreiningi hratt og á sanngjarnan hátt
Án efa kemur upp ágreiningur í hópnum. Hann þarf að leysa hratt og á þann hátt að hópurinn sé sammála um að það hafi verið gert af sanngirni. Það er hægt að gera með fundi þar sem meðlimir í hópnum sem njóta virðingar og er búist við af að séu óhlutdrægir komist af sanngjarnri ákvörðun.
7) Staðbundið sjálfstæði
Þegar hópur er innan stærra félags eins og til dæmis bændasamtaka sem eiga svo samskipti við stjórnvöld eða hópurinn á í samskiptum við borgaryfirvöld, þarf hópurinn að hafa nægilegt vald til að geta myndað sína eigin félagsskipan og taka sínar eigin ákvarðanir eins og í lið 1-6
8) Fjölskipað stjórnvald (Polycentric governance )
Í stóru samfélagi sem samanstendur af fjölmörgum hópum þá verður það að vera uppbyggt á sama hátt, byggt á sömu reglum, samskiptum og ábyrgð og er milli einstaklinga í einstökum hópi.
Þessar reglur er jarðbundnar, hreinar og beinar og sneyddar allri rómantík. Þetta er einfaldlega lýsing á kerfi sem hefur alla burði til að ganga upp.
Valkostir eru til
Að mínu mati er óþarfi að taka ákveðna afstöðu með eða móti sértækum módelum á þessarri stundu. Aðalatriðið er að brjóta glerþak þeirrar kreddu að það sé engin annar valkostur en nýfrjálshyggjukerfið eða einhverjar smáplástra endurbætur á því. Valkostirnir eru til. Þeir eru allir betri og þeir eru mjög margir þrautreyndir í sögu mannkynsins.
Lýðræði í atvinnulífinu er alvörumál og þarf að byggja á reglum sem hópurinn setur sér og samþykkir, annars getur farið illa fyrir verkefninu. En ef vel tekst til byggist upp ný menning með auknu frelsi einstaklingsins sem skapar fólki meiri velferð, meiri samkennd meiri þáttöku og meiri gleði af lífinu sjálfu. Sem ætti að vera markið sérhvers samfélags fyrir allan hópinn.