Jöfnun atkvæða milli kjördæma: Ekki mikil breyting á þingliðinu

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Nú er jöfnun atkvæðaréttar komin á dagskrá á ný. En hvaða afleiðingar myndi það hafa? Hversu stórt er þetta mál? Besta leiðin til að átta sig á því er að deila út þingsætum miðað við úrslit síðustu kosninga þannig að jafnræði sé með kjördæmunum og horfa yfir þingmenn.

Áður en ég sýni ykkur þingheim vil ég benda á að núverandi kerfi gætir að jafnræði milli flokka. Í síðustu kosningum tókst það þó ekki. Framsóknarflokkurinn fékk átta kjördæmakjörna þingmenn en hefði aðeins átt að fá sjö þingmenn kjörna, náði einum þingmanni af Samfylkingunni. Ástæða þessa er ekki ójafnt vægi atkvæða í sjálfu sér, heldur að kjördæmakjörin sæti eru of mörg en jöfnunarsæti of fá. Sá vandi er sprottin af fjölda framboða sem ná kjöri. Meðan flokkarnir voru færri slapp þetta, en eftir að þeim fjölgaði varð meiri hætta á að þetta gæti gerst, að einhver flokkur fengi svo marga kjördæmakjörna þingmenn að hann færi fram úr þeim þingmannafjölda sem hann ætti skilið að fá miðað við atkvæðamagn. Og þá að annar flokkur, sem ætti rétt á uppbótarþingmanni, fengi hann ekki vegna þess að þeir væru uppseldir. Það er erfitt að meta hversu skaðlegur þessi galli er, hvort þetta gerist í öðrum hverjum kosningum, þriðju hverjum , fjórðu eða fimmtu. En hann er þarna og um leið og þetta hefur gerst einu sinni á auðvitað að breyta lögunum. En það kemur í sjálfu sér ekki við jafnræði atkvæða milli kjördæma, ekki beint.

En ef við búum til kerfi sem gætir ekki bara að jafnræði milli flokka heldur líka milli kjördæma en höldum öðrum reglum kosningalaganna og anda þeirra þá sýnist mér þetta hefði orðið breytingin:

Engin breyting yrði á þingliði Viðreisnar eða VG.

Framsókn myndi fyrst missa þennan þingmann sem ég nefndi áðan, sem er Halla Signý Kristjáns­dóttir í Norðurlandakjördæmi vestra, af öðrum ástæðum en jöfnun atkvæða. Áhrif jöfnunar yrði þau að Líneik Anna Sævars­dóttir í Norðaustri myndi falla út en Krist­björg Þóris­dótt­ir, annar maður á lista Framsóknar í Suðvestri, setjast á þing í staðinn.

Áhrifin á Sjálfstæðisflokkinn yrðu þau að Vilhjálmur Árnason í Suðurkjördæmi færi út en nafni hans Bjarnason í Suðurvesturkjördæmi kæmi inn.

Samfylkingin myndin af fyrrgreindum ástæðum fá inn nýjan mann en síðan myndi Albertína Friðbjörg Elías­dóttir í Norðaustri líka missa sæti sitt. Nýir þingmenn yrðu Mar­grét Tryggva­dótt­ir úr Suðvestri og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir úr Reykjavík suður.

Hjá Miðflokknum myndu Sigurður Páll Jóns­son úr Norðvestri og Anna Kolbrún Árna­dóttir úr Norðaustri fara út en í stað þeirra koma á þing Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir úr Reykjavík Suður og Una María Óskarsdóttir úr Suðvestri.

Áhrifin á Pírata yrðu þau að Björn Leví Gunnars­son (Reykjavík suður) félli af þingi en Oktavía Hrund Jónsdóttir (Suðvestur) kæmi inn.

Hjá Flokki fólksins hefði Ólafur Ísleifsson ekki náð kjöri í Reykjavík norður en séra Halldór Gunnarsson sæti á þingi í hans stað sem fulltrúi Norðausturkjördæmis.

Þetta eru breytingarnar. Sumt af þessu er tilfærsla á þingmönnum úr landsbyggðakjördæmunum en annað er önnur lending í hringekjunni, sem úthlutun jöfnunarsæta er alltaf. Til að halda bæði jöfnuði milli flokka og kjördæmi gerist það alltaf í lokin að síðustu flokkarnir sem fá jöfnunarsæti fá þau ekki endilega þar sem styrkur viðkomandi flokks er mestur, í lokin fær einhver flokkur þingsæti í einu kjördæmi einfaldlega vegna þess að það var eina þingsætið sem átti eftir að úthluta.

En ég set þetta fram ekki sem spádóm um hvernig þessi hringekja spilast út, heldur fyrst og fremst til að benda á þau sem hafa ofurtrú á að jöfnun þingsæta milli kjördæma muni umturna og stórbæta íslensk stjórnvöld eru að gera annað af hvoru; að ofmeta mannval flokkanna hérna fyrir sunnan eða vanmeta þær breytingar sem gerðar hafa verið á kosningakerfinu á undanförnum áratugum. Ójöfnuðurinn sem var mikill á síðustu öld er mun minni í dag.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram