Við-samfélag í stað Ég-samfélags
Pistill
05.05.2020
Almannagæði 4
„Frjálsa“ markaðskerfið er undratæki sem framleiðir fordæmalaus auðæfi og það ríkidæmi og þau auðæfi koma á endanum öllum að gagni. Eða hvað?
Ef við lítum framhjá einokuninni og fákeppninni í „frelsinu“ og misskiptingu auðs og skoðum vandamálin sem stöðugt aukast meðal þjóðanna þá sjáum við; offitu í stað góðrar heilsu, tímaleysi í stað frítíma, þunglyndi og streitu í stað andlegs jafnvægis, samfélagslega gliðnun í stað samfélagslegrar samkenndar, náttúruspjöll og auðlindaeyðingu í stað ræktunar og sjálfbærrar nýtingar og svo framvegis.
Bílasali í stuði mundi hugsanlega segja: „Vélin í bílnum er í fínu lagi maður! En fullt af hlutum í henni eru handónýtir.“
Við lifum í samfélagi mannfólksins og eðlilegt er að hafa það allt að viðfangsefni, skoða það í heild sinni og gera að minsta kosti tilraun til að mæla sem flesta mikilvægustu þætti þess og taka tillit til þeirra. Hér er ég enn og aftur að gagnrýna rörsýn stjórnmálastéttarinnar og meiginstraumshagfræði á lítinn hluta samfélagsins toppinn á pýramídanum.
Þörf er á kerfisbreytingu
Það er oft látið eins og markaður sé einhver sérstök uppfinning nútímans. Svo er auðvitað ekki og mikilvægt að hafa í huga að markaður er ekkert nýtt fyrirbæri. Vara og þjónusta hefur verið seld og keypt á mörkuðum frá alda öðli. Það sem gerir núverandi markaðskerfi sérstakt er „stýrikerfið“ hvort sem við köllum það frjálshyggju eða nýfrjálshyggju, að eina markmið framleiðslu, sölu og kaupa sé að búa til sem mestan mælanlegan auð í núinu og að fjármagns- og fyrirtækjaeigendur og hluthafar eigi forgangsrétt á þeim auðæfum.
Þetta kerfi hefur komið öllu mannkyninu í gríðarlegan vanda og það er augljóst að einhverjir smáplástrar breyta þar engu um sem máli skiptir. Það þarf að breyta þessu kerfi í grundvallaratriðum. Ein leið til þess er að hugsa um samfélagsbreytingar út frá almannagæðum. Það hefur þann ótvíræða kost að vera ekki aðeins efnahagsleg hugsun heldur einnig félagsleg og lýðræðisleg hugsun.
Það er mjög erfitt að sveigja hugsun meginstraums stjórmálamanna og efnahagsráðgjafa af braut rörsýnar sem sér ekki annað en lítin hluta efnahagskerfisins. Því meira sem framleitt er, því meiri skógur sem breytist í timbur, þeim mun meira sem andrúmslofti er mengað vegna framleiðslu, því meira sem framleitt er án nokkurrar fyrirhyggju þeim mun meira mælir verg þjóðarframleiðsla (GDP) árangurinn og allt er á „réttri“ braut. Engin tilraun er gerð til að mæla kostnað við framleiðslu, óhjákvæmilegar afskriftir eða áhrif á líf fólks í samfélögunum eða þá þau framtíðaráhrif sem framleiðsla án fyrirhyggju og gróðafíknin hefur á efnahag samfélaga og fólksins sem þar býr.
Krabbamein sem hefur í för með sér dýra meðferð og streita og þunglyndi sem gerir fólk að áskrifendum af dýrum lyfjum er eftirlæti mælinga eins og vergrar þjóðarframleiðslu (GDP). En ef mannseskja mér vinveitt prjónar á mig peysu sem heldur á mér hita vetur eftir vetur þá er sú athöfn utan rörsýnar mælieininganna sem eru grundvöllur ákvarðana í efnahagskerfinu. Sama gildir um hagvaxtarmælingar sem mæla einungis kaup vöru og þjónustu og er borin saman við árin á undan. Að gefa slíkri mælingu það vægi sem hún hefur í samfélagi mannanna sem er óendanlegt í fjölbreytileika sínum talar sínu máli. Hér er tækifæri að vitna í skáldið góða Stein Steinarr „Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán“.
Ný efnahagstefna og hugsun
Svart-hvít lýsing á muninum á milli vinstri og hægri er að hægrið vilji sem mest frelsi fyrir fjármagn, eigendur og hluthafa fyrirtækja og frumkvöðla og að það séu þeir sem skapi auðinn og eigi rétt á honum.
Vinstrið vilji hinsvegar koma reglum yfir fjármagnsöfl og fyrirtækjaeigendur og dreifa auðnum víðar um samfélagið þar sem hann er skapaður.
Ef að umbætur vinstrisins eru eingöngu jafn takmarkaðar og hér er lýst eru þær lítils virði því að þær takmarkast við kerfið sem fyrir er og það kerfi hefur skapað vandamálin sem glímt er við.
Valið á ekki að standa á milli gráðugrar markaðsófresku og ríkisvalds sem er með nefið ofaní hvers manns koppi.
Það er heldur ekki þörf á alltumlykjandi ríkisvaldi þar sem samfélagið er byggt upp frá grunninum. Þið vitið eins og pýramídinn lítur út í raun og veru. Toppur er ekki undirstaða hans.
Að reka fyrirtæki um almannagæði á lýðræðislegan hátt sameinar þessa þætti og varðveisla, eftirlit og framleiðsla verðmæta á þeim grunni skapar nýja sameiginlega menningu sem gefur okkur í samfélaginu betra líf. Ég er að tala um lýðræðisvæðingu í atvinnulífi og fulltrúakerfi og dreifingu auðs og félagslegra gæða á því stigi sem að vara og þjónusta er framleidd ekki bara með sköttum og baráttu um kaup og kjör.
Ef þú lesandi góður heldur að þetta sé óframkvæmaleg rómantík þá leiddu hugan að kóngum og aðalsmönnum fortíðarinnar. Sú stétt er horfin og það geta líka orðið örlög hamfarakapítalista dagsins í dag.
Allt er til sölu – Og amma þín líka
Í um fjörutíu ár hefur það gengið ótrúlega vel að reka samfélag á forsendum harðar hægristefnu byggðri á hugmyndinni um að allt mannlegt atferli miðist fyrst og fremst við kaup og sölu á vöru og þjónustu og stöðug aukning sé nauðsynleg án þess að hugað sé að tilkostnaði eða afleiðingum.
Það má segja með réttu að ríkasta 1% sé afkvæmi þessa kerfis.
Árangurinn blasir við okkur en þrátt fyrir það er kerfið geirneglt í huga þeirra sem stjórna. Þetta er sannkölluð „success story“ kerfisins og ekki annað en sjálfsagt að viðurkenna það.
Ég teldi það ekki ólíkleg að langflestum þeirra sem nú sitja á alþingi fyndist það mun líklega í framtíðinni að þáverandi ríkisstjórn segði Færeyjum stríð á hendur en að sú stjórn væri að gera raunverulegar kerfisbreytingar á samfélagsgerðinni.
Margaret Thatcher fyrverandi forsætisráðherra Bretlands og drottning nýfrjálshyggjunnar sagði að „það væri ekkert til sem héti samfélag …“ Þetta og margt annað sem hún kom svo vel orðum að er inngróið í samtímann og okkur er bráðnauðsynlegt að hafna þeim hugmyndum og koma með lausnir og valkosti við þær.
Við vitum að þegar ákveðnum þröskuldi í öflun efnislegra gæða er náð þá veita fleiri og fleiri hlutir enga fullnægju. Það er að segja ef við erum heilbrigt fólk. Þetta á auðvitað ekki við um siðblindingja og græðgisfíkla sem eru jafn sjúkir og alkóhólistar. Það er vegna þess að við erum hópdýr og félagsverur að svo miklu leyti og við þurfum að fullnægja þeim þörfum okkar og án þess líður okkur ekki vel. Í ÉG-menningu samtímans, í einangrun stöðugrar og miskunarlausrar samkeppni sem háð er eftir sífellt hlutdrægari leikreglum er það afar erfitt.
VIÐ-menning er okkur miklu eðlislægari hvað sem áróður nýfrjálshyggjunnar segir og samkennd, hjálpsemi og örlæti veita okkur oftast miklu meiri og dýpri ánægju en auðsöfnun. Þetta vita allir ef þeir líta í eigin barm. Hugsum bara til barnanna okkar í þessu samhengi.
Það er með öllu fráleitt að engin valkostur sé annar til en núverandi samfélagsgerð eða upp-plástrað hræið af því.
Almannagæði voru mun þróaðri og hagfeldari fjöldanum í þeirri samfélagsgerð sem var við lýði fyrir nýfrjálshyggju. Ég er að tala um tímabilið frá síðari heimstyrjöld og fram undir 1980. Þangað getum við sótt margar fyrirmyndir, betrumbætt og aðlagað þær að okkar þörfum og hugmyndum um réttlátara samfélag.
Það þarf líka að leiða saman snjalla fræðimenn úr öllum þeim greinum sem fjalla um samfélagið og fólk úr öllum áttum til að takast á við endurbætur á samfélaginu sem heild og hafna rörsýn meiginstraums stjórnmálamanna og hagfræðinga á takmarkaða þætti mannlegrar tilvistar og á topp samfélagspýramídans.