Víst eru til valkostir
Pistill
07.05.2020
Almannagæði 5
Við erum enn aftur minnt á að samfélagskerfið sem er við lýði í heiminum er ósjálfbært og beinlínis hættulegt framtíð mannkynsins.
Þrátt fyrir það virðist áhugaleysi á lausnum, aðferðum og hugmyndasköpun til að vísa vegin til betra samfélags vera inngróið í stjórnmálastéttina sem nú situr á Alþingi og þar er eini vettvangur almennings til að hafa lýðræðisleg áhrif í landsmálum.
Þegar þetta er skrifað eru alþingismenn að taka við mikilli launahækkun og risavaxinni eingreiðslu á meðan tugþúsundir verða atvinnulausar og fátækasti hluti þjóðarinnar ásamt öryrkjum og stórum hluta aldraðra týnast og finnast ekki lengur í orðræðu stjórnvalda.
Lýðræðislíki væri nær að kalla slíkt kerfi.
Lýðræði í samfélaginu öllu verður ekki að veruleika nema að það komist á í atvinnulífinu. Þar getum við gengið að gömlum og grónum hugmyndum sem farnast hefur vel í fortíðinni auk þess sem mörg dæmi má taka úr samtímanum bæði fullþroskuð fyrirtæki og nýja sprota.
Nýsköpunarafl samvinnuhreyfingarinnar
Myndin sem fylgir greininni sýnir Grófargil eða Kaupfélagsgilið á Akureyri laust fyrir 1970. En þar hóf samvinnufélagið KEA mikla uppbyggingu laust fyrir 1920 og stóð sú uppbyggingarlota sleitulaust fram yfir miðja öldina,
KEA var samvinnufyrirtæki en samvinnurekstur er sjálfstætt samband fólks sem sameinast um að leysa sínar efnahagslegu, samfélagslegu og menningarlegu þarfir með því að reka samvinnufyrirtæki. Hér er tæki sem gefur fólki möguleika á lýðræði á sínum vinnustað.
Það fór um síðir illa fyrir íslensku samvinnuhreyfingunni sem varð félagslegri og fjármálalegri spillingu að bráð en þessi grein er ekki um þá sögu.
Á þessum tíma byggði KEA upp hin fjölbreyttustu fyrirtæki í Gilinu. Þar spruttu upp kjötvinnsla, mjólkursamlag og fullvinnsla mjólkurafurða á fjölbreytta vegu, smjörlíkisgerð, sælgætisgerð og gosdrykkjaverksmiðja, pylsugerð, málningarverksmiðja og sápugerð, böggla- og póstþjónusta fyrir nærsveitir. Þessu fylgdi svo annarstaðar í bænum verksmiðjurekstur með ullar- og leðurvinnslu, bæjarútgerð, umfangsmikill verslunarrekstur og þá er ekki allt upp talið.
Samfélagsbankar og sparisjóðir sáu um að fjármagna þessa uppbyggingu sem er öll – takið eftir – í raunhagkerfinu. Engin spákaupmennska og svo sá stóri kostur samvinnufyrirtækja að auðurinn sem þar er skapaður verður eftir í nærsamfélaginu. Rennur ekki burtu frá þeim sem hafa skapað hann.
Við sjáum fram á erfiða tíma vegna heilsufars- og efnahagskreppu. Þess vegna er hollt að bera okkar tíma saman við uppgangstímann frá 1920 til 1950. Það voru erfiðir tímar en samt var bullandi sókn í gangi, framfarahugur og uppbygging.
Fyrri heimstyrjöldinni var nýlokið og heimskreppan stóra skall á 1929 og seinni heimstyrjöldin 1939-45. Ör þéttbýlismyndun var í landinu og bæirnir þurftu að taka við miklum mannfjölda og veita atvinnu og húsaskjól. Tæknileg vandamál við hina nýju atvinnuvegi voru fólki framandi og það þurfti stöðugt að vera að læra nýjar aðferðir og aðlaga þær að aðstæðum. Verkefnið var risavaxið ekki síður en það sem blasir við okkur nú.
Það væri ömurlegt ef að stjórnvöldum tækist að loka framtíð okkar inn í gömlu kreddunni um rekstur ríkisjóðs í jafnvægi og þjóðnýtingu á skuldum kapítalistanna en einkavæðingu á hagnaði og einkarekstri sem miðast við skammtímahugsun græðgi og afráns, í stað þess að grípa þetta gullna tækifæri til að byggja loksins upp nýja Ísland sem ætlunin var að gera eftir síðasta hrun. Meðal annars með samvinnufélögum um almannagæði sem eru farvegur fyrir réttlátari skiptingu auðs. Raunverulegt grasrótarlýðræði og meira frelsi bæði einstaklingsins og hópsins.
Við eigum fyrirmyndir bæði úr fortíð og samtíma. Við eigum hugmyndakerfi sem leggja fyrst og fremst áherslu á mannúð, lýðræði í samfélaginu, jöfnuð og sanngjarna dreifingu auðsins. Við getum litið aftur til samfélagsins sem reis eftir síðustu heimstyrjöld og byggði upp velferðarkerfið, aðlagað breytt og bætt og forðast mistök sem þar voru gerð.
Valkostir eru til. Það er ekki vandamálið
Vandamálið er kedda núverandi samfélagsgerðar. Varin af sérhagsmunaöflum auðstéttarinnar í atvinnulífinu, fulltrúum þeirra í stjórnmálastéttinni og völduð af lobbýistasamtökum og hugveitum hægri aflanna eins og Viðskiptaráði. Og síðast en ekki síst valdeflingu flokkanna sem ávallt eru tilbúnir til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn drottni yfir ríkisvaldinu. Þeir hafa misst sjónar á hlutverki sínu rúnir sjálfstrausti og sjálfsmynd. Án þeirra væri árangur nýfrjálshyggjusamfélagsins hvergi nærri eins afgerandi eins og hann er.
Þessari samstöðu þarf að sundra.
Mikil arfleifð
Samvinnufélög eiga sér langa sögu. Upphaf þeirra má rekja aftur til 18. aldar en það er um miðja 19. öld sem grunnurinn að samvinnuhreyfingunni er lagður ekki síst með einskonar stefnuyfirlýsingu sem heitir „Rochdale reglurnar“ („Rochdale Principles“ frá 1844) þar sem vefarar á Englandi stofnuðu félag sem átti eftir að vera mjög öflugt. Reglurnar fjölluðu er um hvernig rekstri félaganna, þróun og vexti yrði háttað.
Samvinnurekstur stóð með miklum blóma fram eftir 20 öldinni og þrátt fyrir að þeim fyrirtækjum hafi fækkað mikið eru samvinnufyrirtæki víða rekin með ágætum árangri og samvinnuaðferðin er nú sem áður ljós valkostur við atvinnurekstur sem byggður er á kapítalískum forsendum einkareksturs þar sem höfuðmarkmiðið er að skapa auð fyrir eigendur og hluthafa.
No Boss
Kaliforníufylki hefur lengi verið vagga samvinnureksturs í Bandaríkjum Norður-Ameriku. Áður en að Evrópubúar tóku landið til sinna nytja þá bjuggu þar þjóðirnar Ohlones, Miwoks og Wintuns í smáættbálka-fyrirkomulagi sem byggðist á friðsemd og samvinnu.
Þetta innskot er í þeim tilgangi að undirstrika að þó svo að tímabil nýfrjálshyggjunnar nái nú yfir um 40 ár þá er það fráleitt eina samfélagsgerðinn sem mannkynið hefur skapað eða þá kraftbirting þróunarinnar eins og stundum má fá tilfinningu fyrir þegar drambið og hrokinn verða yfirgengileg.
Saga samvinnufyrirtækja í Kaliforníu nær aftur til miðrar 19. aldar og stafrandi samvinnufyrirtæki í fylkinu eru sum frá því um miðja tuttugustu öldina sem er áhugavert í því ljósi að líftími kapítalískra fyrirtækja verður æ styttri og misnotkun hlutafélagaformsins til að afskrifa tap og losna við skuldir er í raun partur af leikjabók kerfisins.
Dæmi um vel heppnaðan samvinnurekstur í Kaliforníu er NoBAWK samsteypan (borið fram No Boss) við San Francisco flóa. Sambandið var stofnað 1994 af níu samvinnufyrirtækjum en núna eru þar yfir 30 fyrirtæki af fjölbreyttasta tagi svo sem; prentsmiðja, bakarí, lífrænt orkufyrirtæki, listgallerí, rafvirkjar, byggingarfyrirtæki, safabarir, tæknifyrirtæki og svo framvegis.
Perla Baskalands
Mondragon samvinnufyrirtækið er einskonar regnhlíf fyrir fjölmörg samvinnufyrirtæki sem hafa höfuðstöðvar í Baskalandi. Fyrirtækið var stofnað 1956 og er skínandi dæmi um árangur þessa rekstrarforms þó það sé eins og eyja í kapítalíska hafinu.
Um 80.000 manns vinna við samvinnufyrirtækið en félagsmenn eru nokkru færri. Það rekur til dæmis samvinnubanka sem hefur siglt óskaddaður í gegnum allar þær fjölmörgu kreppur og niðursveiflur sem brask-hagkerfið býður reglulega upp á, rekur háskóla og leikskóla fyrir starfsfólk.
Þetta 64 ára stórfyrirtæki hefur ómótmælanlega haft sérstaklega hagfelld áhrif á nærumhverfi sitt hvar sem það hefur starfað. Þó ekki sé annað tekið en sú staðreynd að auðurinn sem fyrirtækið skapar nærir það umhverfi sem það starfar í og að rán í skattaskjól eða í ofurlaun og bónusa til eiganda eða fárra yfirmanna eru einfaldlega andfélagsleg hegðun sem ómögulegt er að framkvæma í samvinnukerfinu.
Samfélagsauður í Preston
Preston á Englandi er ein þeirra borga sem fóru mjög illa út úr hruninu 2008. Þar var framsækinn borgarstjórn sem vildi leita leiða til að snúa þróuninni við og reyna að gefa fólki tækifæri til að bæta aðstæður sínar, skapa atvinnu og valdefla sjálft sig með fyrirtækjalýðræði. Fyrirmynda var leitað til Mondragon og Ohio í Bandaríkjunum þar sem samvinnuverkefni höfðu borið árangur.
Á grunni nýrra laga frá 2012 setur borgin það sem forgangsverkefni að verja opinberu fé til fyrirtækja sem eiga heimilisfestu í borginni og hvetur til stofnunar samvinnufyrirtækja. Verkefnið er kallað „Comunity Wealth Program“ eða „Verkefni um samfélagsauð“ sem væri gott nafn á slíka uppbyggingu hér á Íslandi.
Verkefnið í Peston á Englandi er lýsandi fyrir þá þrjá þætti sem þurfa að vera fyrir hendi til að verkefni um samfélagsauð geti tekist farsællega.
- Þekking á valkostum og vilji til að breyta ekki síst meðal almennings.
- Pólitísk forysta sem hefur kjark og þor að rísa gegn sérhagsmunaöflunum sem berjast hatrammlega gegn því að gæðunum sé dreift á annan hátt en nú.
- Fjármögnun, hvort sem hún er frá hinu opinbera eða frá bönkum eða sjóðum sem eru reiðubúnir að fjárfesta í raunhagkerfinu. Núverandi bankar eru oftast nær ekki tilbúnir til að fjárfesta í raunhagkerfinu. Þess vegna þarf að koma á fót samvinnubönkum eða sparisjóðum.
Ný lög um samvinnufyrirtæki voru sett á Íslandi 1991, árið sem að Davíð Oddsson varð í fyrsta sinn forsætisráðherra, og hamla mjög stofnun samvinnufyrirtækja og fjölbreytileika á því sviði. Hamlandi lög um samvinnubanka og ríkisfjármál eru einnig í gildi þannig að kerfið er mjög meðvitað um að sporna við starfsemi af þessu tagi og nýtingu fjármagns í raunhagkerfinu til að efla aðra valkosti en þá sem fyrir eru.
Í hagkerfi sem kennir sig við frelsi er lagt kapp á að takmarka frelsið.
Það verður áhugavert að sjá hvernig samvinnufyrirtækjunum reiðir af eftir Covid-kreppuna. Hvort þeim gengur betur eða verr að endurreisa sig og hvort að þau þiggi meiri eða minni ríkisstyrki eða stuðning en kapítalisk fyrirtæki.
Niðurlag
Í fimm stuttum greinum hef ég fjallað um það hvernig við getum breytt hugsun okkar um samfélagið með því að líta á framleiðslu vöru og þjónustu sem almannagæði og hvernig við getum skipulagt framleiðsluna á lýðræðislegan hátt og þannig aukið frelsi og vald alls almennings í samfélaginu. Við eigum ekki að vera þjónar fjármálakerfis, stjórnamálakerfis eða atvinnulífs. Öll þessi kerfi eiga að þjóna almenningi. Þannig er raunverulegt lýðræði.
Það lýðræði sem við búum við fullnægir á engan hátt kröfum okkar. Við eyðum stærstum hluta æfi okkar á vinnustaðnum og að þar sé ekki lýðræði er hin fullkomna mótsögn. Samvinnufélög eru tæki til að koma á lýðræði í atvinnulífinu og gefa fólki nýja sýn á vinnuna og vinnunni nýtt félagslegt inntak.
Það eru nægir valkostir en gamla kerfið hefur ótrúlega sterka stöðu meðal stjórnmálastéttarinnar og í krafti sérhagsmuna og auðsins sem þar hefur safnast saman. Máttur fjöldans er nú eins og alltaf áður tækið til að hrinda þessu valdi og skapa nýtt. Nýtt Ísland sem við vorum svikin um eftir kreppuna 2008. Það er í okkar höndum.
Stjórnmál eru ekki áhorfendaíþrótt. Komdu og taktu þátt. Það er eina leiðin til að breyta samfélaginu.