Tillaga um könnun á fyrirtækjasamsetningu, harkhagkerfinu og starfsupplifun í Reykjavíkurborg

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Þessi tillaga sósíalista verður lögð fram fyrir næsta borgarstjórafund, þriðjudaginn 2. júní:

Verðmætamat ýmissa starfa hefur mikið verið í samfélagsumræðunni upp á síðkastið og í því samhengi er mikilvægt að draga fram raddir starfsfólks úr ólíkum greinum. Því er lagt til að Reykjavíkurborg í samvinnu við háskólasamfélagið, kanni hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis. Þá er einnig lagt til að könnunin skoði hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera. Þegar verkefni eru af skornum skammti, sökum efnahagsþrenginga, geta margir sem eru hluti af harkhagkerfinu (e. gig economy) oft ekki sótt í úrræði stjórnvalda til að mæta tekjutapi. Könnunin leitist því einnig við að draga upp mynd af fjölda starfandi innan harkhagkerfisins í Reykjavík. Þá verði fyrirtækjasamsetning borgarinnar einnig könnuð út frá því hversu margir starfa hjá örfyrirtækjum, smáfyrirtækjum, meðalstórum fyrirtækjum og stórfyrirtækjum í borginni. Lagt er til að spurningar um starfsaðstæður og starfsöryggi verði skoðaðar út frá stærð fyrirtækja en slíkt getur haft mótandi áhrif á starfsupplifun. Borgarstjórn samþykkir að könnunin byggi á úrtaki fjölda starfandi í borginni. Fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar verði falin nánari framkvæmd tillögunnar. Markmiðið er að fá innsýn inn í fyrirtækjasamsetningu borgarinnar, starfsupplifun þeirra sem starfa innan ólíkra geira og fyrirtækja í Reykjavíkurborg og raddir þeirra sem falla á milli kerfa.

Greinargerð:
Samfélagið gengur nú í gegnum miklar breytingar í kjölfar kórónufaraldursins og mikil umræða hefur átt sér stað um hvaða störf teljist mikilvæg og ómissandi fyrir samfélagið. Á sama tíma hafa kjaraviðræður og umræður í kringum slíkt sýnt okkur að störfin er mishátt metin innan samfélagsins. Reykjavíkurborg er höfuðborg Íslands og fjölmennasta sveitarfélagið og hér starfa margir innan ólíkra geira, t.a.m. á heilbrigðisstofnunum, á sviðum samgöngumála-, lista- og menningarmála, við kennslu og vinna við ummönnun og þrif. Þar að auki eru margir hluti af harkharkerfinu ýmist á sviði lista eða í íhlaupastörfum og búa við lítil réttindi.
Efnahagsþrengingar leiða í ljós að ekki allir sitja við sama borð og því er mikilvægt að kanna hvernig starfsfólk metur tekju- og starfsöryggi sitt á þeim tímum sem við búum nú við. Lagt er til að það verði skoðað út frá því hvort að einstalingur starfi hjá fyrirtæki eða ekki og þá út frá stærð fyrirtækisins. Hér er lagt til að notast verði við stærðarflokkun sem Hagstofa Íslands styðst við í ör-, smá-, meðalstór- og stórfyrirtæki. Í undirbúningsvinnu könnunarinnar er talið æskilegt að leita til verkalýðsfélaganna til að fá innsýn í stöðu þekkingar varðandi harkhagkerfið og þær spurningar sem umræðir í umræddri könnun.
Borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum er ætlað að safna tölulegum gögnum og staðreyndum um þróun aðstæðna hjá einstaklingum, fjölskyldum og atvinnulífi á vettvangi Reykjavíkurborgar næstu mánuði og misseri til að leggja grunn að frekari tillögugerð og aðgerðum sem verður ýmist beint til borgarráðs, fagráða Reykjavíkurborgar, ríkisins eða til sameiginlegs vettvangs sveitarfélaga eða annarra aðila. Tillagan um borgarvaktina var samþykkt á fundi borgarráðs þann 26. mars síðastliðinn og var liður í aðgerðarpakka vegna fyrstu aðgerðar Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna Covid-19.
Borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum er m.a. ætlað að fylgjast með lykilþáttum og áhrifum stöðunnar á atvinnulíf, samfélag og lífskjör í samráði við hagsmunaaðila. Umrædd tillaga fellur vel að þessum markmiðum og mikilvægt er að safna upplýsingum frá þeim sem starfa hér í borginni svo meta megi næstu skref varðandi þá umgjörð sem Reykjavíkurborg veitir á sviði atvinnumála og þjónustu við starfandi einstaklinga á þeim tímum sem við göngum í gegnum sem samfélag. Hér er um að ræða könnun sem kallar á vinnuframlag og er því atvinnuskapandi og slíkt er jákvætt á tímum sem þessum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram