Tillaga um að kanna umfang harkhagkerfisins í Reykjavík
Frétt
12.06.2020
Á næsta borgarstjórnarfundi, 16. júní n.k. verður lagð fram eftirfarandi tillaga:
Lagt er til að Reykjavíkurborg feli mannauðs- og starfsumhverfissviði að stofna til samtals við háskólasamfélagið um að vinna sameiginlega að því að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík. Markmiðið verði annarsvegar að leitast við að draga upp mynd af fjölda þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins í Reykjavík og innan hvaða geira þau starfi. Hinsvegar verði leitast við að fá innsýn í stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins út frá atvinnuöryggi, tekjuöryggi og starfsánægju. Þá er einnig lagt til að Reykjavíkurborg sem vinnuveitandi, kanni hversu margir starfi hjá borginni sjálfri í verkefnum sem teljast innan harkhagkerfisins sem hefur einnig verið nefnt „gigghagkerfið“. Reykjavíkurborg kanni þar einnig hversu margir hafi starfað það sem af er ári og við hvaða verkefni, þar sem spurningar um atvinnu- og tekjuöryggi og starfsánægju verði einnig hafðar að leiðarljósi. Markmiðið með þessu er að draga upp mynd af víðfemi harkhagkerfisins innan Reykjavíkur og leggja fram tillögur til úrbóta varðandi atvinnuumhverfið þar sem þörf þykir á. Harkhagkerfið einkennist af því að fólk tekur að sér stök verkefni í stað þess að vera fastráðið. Slíkt getur haft í för með sér ótryggar aðstæður fyrir marga sem starfa innan harkhagkerfisins. Það er mikilvægt að fá þessar raddir fram við framtíðarstefnumótun, þar sem gildandi atvinnustefna Reykjavíkurborgar er frá árinu 2012 og tekur ekki á þessum þáttum. Ef áhugi er fyrir hendi innan háskólasamfélagsins til að fara í þessa samvinnu er lagt til að mannauðs- og starfsumhverfissvið komi með hugmyndir að samstarfi inn á borð borgarinnar, þær verði kostnaðarmetnar og loks framkvæmdar.
Greinargerð:
Reykjavík er höfuðborg landsins og í senn fjölmennasta sveitarfélag landins. Umrædd tillaga er í raun tvíþætt og felur í sér að Reykjavíkurborg sem vinnuveitandi skoði fjölda þeirra sem hafa verið ráðnir inn til borgarinnar á forsendum gigghagkerfisins svokallaða. Hinsvegar felur tillagan í sér að Reykjavíkurborg óski eftir samstarfi við háskólasamfélagið til að greina stöðuna um víðfemi gigghagkerfisins eða harkhagkerfisins eins og það er kallað, innan Reykjavíkur í heild sinni. Líkt og launþegahreyfingin ASÍ hefur bent á í nýlegri stefnu sinni sem ber heitið Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll, þá hefur harkhagkerfið ekki náð álíka fótfestu og víða erlendis en það hefur þó færst í aukana að fólk sé í ótryggum íhlaupastörfum.
Atvinnustefna Reykjavíkur var samþykkt 5. júní 2012 og var það einnig í fyrsta skipti sem slík stefna var sett fram af hálfu borgarinnar og ber hún heitið, Atvinnustefna Reykjavíkur – Skapandi borg. Stefnan tekur ekki á þeim þáttum sem ofangreind tillaga fjallar um og við framtíðarstefnumótun er nauðsynlegt að hafa þær upplýsingar til staðar. Innan Reykjavíkurborgar er til að mynda starfræk Afleysingastofa sem er auglýst á þann veg að einstaklingum gefst kostur á að skilgreina sjálfir sinn vinnutíma og vinna á þeim tíma sem þeir óski eftir. Fyrst um sinn var um störf á leikskólum Reykjavíkurborgar að ræða en nú hefur fleiri starfsstöðum verið bætt við og þeir sem sækja um starf í gegnum Afleysingastofu geta einnig t.a.m. sótt um í heimaþjónustu og íbúðakjörnum. Þó að margir líti á þetta vinnufyrirkomulag með jákvæðum augum, þar sem það opni á sveigjanleika, þá hefur það víða verið gagnrýnt, sérstaklega erlendis þar sem að fólkið sem sækir um starf er ekki fastráðið og getur ekki fullvissað sig um að fá alla þá tíma sem sóst er eftir í starfi. Slíkt getur skapað mikið óöryggi fyrir þann sem sækist eftir ákveðnum starfstímum.
Samfélagið gengur nú í gegnum miklar breytingar í kjölfar kórónufaraldursins. Margar nýjungar í atvinnumálum hafa verið kynntar og settar fram. Á sama tíma er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir áskorunum og standa þarf vörð um réttindi launafólks og annarra tekjuhópa þegar miklar breytingar eiga sér stað á sviði tækni- og atvinnumála. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg sé leiðandi í því að kalla eftir rannsóknum á sviði vinnumarkaðsmála, þar sem slíkt kemur borginni við á mörgum sviðum.