Lýðræði, vald og auðvald

Hjalti Hrafn Hafþórsson Pistill

Eftir bankahrunið og búsáhaldabyltinguna varð gífurleg lýðræðisvakning hér á landi. Fólkið á götunni hafði skyndilega uppgötvað að það var ekki algerlega máttlaust gagnvart yfirvaldinu. Með samtakamætti og þrýstingi mátti hafa raunveruleg áhrif. Í kjölfarið varð sprenging í allskonar grasrótarstarfi. Það spruttu upp virk félög út um allt sem skipulögðu baráttu fyrir hinum og þessum málefnum, mótmæli, baráttufundir, þjóðfundir og kröfugöngur voru á tímabili næstum því vikulegir viðburðir. Þessi virkni í grasrótarstarfi, þessi raunverulega ástríða og þátttaka venjulegs fólks í að skipuleggja og berjast fyrir málefnum sem skiptu þau máli, entist í nokkur ár. Eða fram að Alþingiskosningunum 2013 þegar öll samtök virtust umbreytast yfir í stjórnmálaflokka og buðu sig fram. Í kjölfarið brann fólk út, setti sig upp á móti hvort öðru eða einfaldlega hætti. Ég var virkur í mörgum samtökum á þessum tíma og ég sá umbreytinguna þegar samtök fóru að huga að framboði, ég man hvernig stemningin og samstaðan í grasrótarstarfinu byrjaði að einkennast af átökum og spennu. Spurningin sem ég leitar á mig þegar ég horfi um öxl er: af hverju taldi fólk að það gæti haft mest áhrif til góðs, unnið hugsjónum sínum framgang og breytt samfélaginu til hins betra, með því að bjóða sig fram til Alþingis?

Ég held að þarna liggi til grundvallar mikill misskilningur á því hvað vald er og hvar það liggur í samfélaginu. Háværasta krafa búsáhaldabyltingarinnar var að fá kosningar en í raun breytti það litlu að kjósa nýja flokka í stjórn. Af því að raunverulega valdið og undirliggjandi vandamálið bak við bankahrunið var ekki nema að litlu leiti ríkisstjórnin. Raunverulega vandamálið var og er kapítalismi. Alþingi er aðeins hluti af því valdakerfi sem landinu er stjórnað af og það er gagngert hannað til þess að styðja við og viðhalda hinum hluta valdsins, auðvaldinu eða kapítalismanum, þar sem raunverulega mikilvægar ákvarðanir um líf og velferð okkar allra eru teknar án þess að nokkur almennur borgari hafi lýðræðislega aðkomu þar að. Kapitalísk fyrirtæki eru í eðli sínu einræðisstofnanir og þau hafa aðferðir til þess að beina allri lýðræðislegri virkni út á hið flokkspólitíska svið þar sem hún hefur takmörkuð áhrif. Við kjósum jú aðeins á fjögura ára fresti eða svo og þar að auki hefur auðvaldsstéttin aðferðir til að aga og leiðbeina hinu pólitíska ferli svo að það fari ekki alveg úr böndunum. Ég reikna með að eitthvað því um líkt hafi gerst þegar stjórnlagaráði varð það á að samþykkja nýja stjórnarskrá með auðlindaákvæði. Skyndilega vildu báðir flokkarnir sem höfðu frumkvæði að stjórnlagaráðinu helst gleyma því að ný stjórnarkrá hafi nokkru sinni verið á dagskrá.

Þegar Panamaskjölin voru birt braust aftur út bylgja mótmæla og krafan var sú sama. Fólk vildi kosningar. Sjálfur stóð ég á Austurvelli með skilti sem á stóð: “Ríkisstjórnin er aðeins hluti af vandanum. Hinn hlutinn heitir KAPÍTALISMI”. Málið er ekki leyst með því að kjósa nýja flokka inn í ríkisstjórn. Það leysir ekki vandamálið sem skattaskjól eru. Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson voru einfaldlega að gera það sama og allir meðlimir auðvaldsstéttarinnar, og allir sem stunda alþjóðleg viðskipti. Koma peningunum sínum á stað þar sem þeir þurfa ekki að greiða einhvern hluta af honum til samfélagsins sem þeir eru á einhvern hátt að arðræna. Auðvitað voru þeir afhjúpaðir sem skúrkar og ættu ekki að gegna valdastöðu í umboði almennings, en það er yfirborðseinkenni á mikið djúpstæðara vandamáli. Grundvallar drifkraftur kapítalismans er að hámarka arð kapítalista (þeirra sem leggja til kapítal, öðru nafni fjárfesta eða hluthafa) og ef það er hægt að komast hjá því að borga skatta með siðlausum en löglegum leiðum þá verður það gert svo lengi sem við höfum kerfi sem gengur út á að þjóna hagsmunum kapítalismans og nánast enga lýðræðislega aðkomu almennings sem hefur hag af því að þeir borgi skatta.

Ef það er hægt að hámarka arð með ólöglegum leiðum þá er það auðvitað líka gert. Við fengum góða staðfestingu á því í Samherjaskjölunum. Það er engin spilling of lágkúruleg að það megi ekki nota hana ef það hámarkar gróða fyrirtækisins og arð kapítalistanna. Þriðji heimurinn er jú einusinni aðeins til svo að vestrænir kapítalistar geti arðrænt auðlindir svæðisins. Það hefur verið tilfellið frá nýlendutímanum og því ástandi hefur verið viðhaldið með ofbeldi og spillingu af vestrænum þjóðríkjum alla tíð síðan. Samkvæmt innri rökvísi kapítalismans þá er engin ástæða fyrir Samherja að hegða sér á nokkurn hátt öðruvísi en öll önnur alþjóðleg stórfyrirtæki: hámarka gróðann sama hvað. Jafnvel þó að siðleysið og spillingin komist upp þá eru jú nánast engar afleiðingar fyrir þá sem tóku þátt í því og það eru nánast engar leiðir til þess að draga fólk til ábyrgðar fyrir glæpi sína. Alþingi, ráðuneyti og dómstólar standa máttlaust hjá.

Ef við viljum raunverulegar breytingar þá gerast þær ekki í gegnum Alþingiskosningar. Það getur hjálpað svolítið að hafa rétta fólkið inni á þingi en allt ríkið sem slíkt er byggt upp í kringum hið eiginlega vald, kapítalismann, svo enginn inni á Alþingi getur gert mikilvægar breytingar á því. Það er hægt að hnika til sköttum að einhverju leiti en það er ekki hægt að breyta neinu sem raunverulega færir vald frá auðvaldsstéttinni og til fólksins. Ekki nema það komi til annarskonar vald til að styðja við þá breytingu.

Orkunni sem var veitt í ný framboð til Alþingis árið 2013 hefði verið betur varið í að halda áfram að skipuleggja og byggja upp grasrótarstarf. Í virkum félagsamtökum og þrýstihópum felst mjög mikilvægt og raunverulegt vald. Enn mikilvægara væri að byggja upp raunverulegt efnahagslegt lýðræði. Hluti af því verkefni er virk verkalýðshreyfing sem er skipulögð frá grasrótinni og upp, en verkalýðshreyfingin getur agað og haft aðhald með kapítalismanum með aðferðum sem aldrei verða í boði fyrir stjórnvöld. Reyndar hefur það verið helsta hlutverk stjórnvalda að kæfa niður og takmarka verkalýðshreyfinguna með öllum ráðum í þágu kapítalistanna. Umfram aðhald og ögun á kapítalismanum þá þurfum við líka aðra valkosti. Lýðræðisleg fyrirtæki í sameiginlegu eignarhaldi og lýðræðislegum rekstri starfsmanna eru raunverulegur valkostur sem þarf að kynna og halda á loft. Þegar fólk sér sér fært að skapa og taka þátt í hagkerfi lýðræðislegra fyrirtækja til hliðar við hið eiginlega kapítalíska hagkerfi þá fer að hrikta í stoðum kerfisins. Það sama má segja um lýðræðislega þátttöku í fjárhagsáætlanagerð og á öðrum sviðum efnahagslífsins.

Það er ekki lögmál að kapítalísk einræðisfyrirtæki þurfi að ráða hér lögum og lofum en raunverulegt vald til þess að breyta því þarf að byggja upp úr grasrótinni. Það fæst ekki með því að reyna að komast á toppinn á pýramídanum og þaðan lyfta grunninum og breyta lögun byggingarinnar. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hefur hagsmuna að gæta í því að hafa aukna lýðræðislega aðkomu að efnahagslífinu, þetta er fólk sem er hægt að sameina og skipuleggja og í því felast raunverulegir möguleikar á að takast á við grundvallar vandamál kerfisins, ekki aðeins yfirborðseinkenni spillingar, græðgi og siðleysis.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram