Íslandssagan er saga byltinga

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Á Austurvelli minnist stjórnmálafólkið Jóns Sigurðssonar og Bjarna frá Vogi, manna af sínu tagi og sem yfirstéttin er vön að eigna framfarir, sem þeir áttu veika aðkomu að. Þótt yfirstéttin hafi gert Jón að tákngervi sjálfstæðisbaráttunnar gerði hún fæst af hugmyndum hans að sínum, um hvernig samfélag hér mætti þróast; hún lét sér nægja að völdin yrði flutt frá danskri yfirstétt til íslenskrar yfirstéttar. Þar með lauk sjálfstæðisbaráttu yfirstéttarinnar.

Sjálfstæðisbarátta almennings stendur hins vegar enn, nær aftur fyrir sjálfstæðisbaráttu yfirstéttarinnar og mun ná langt inn í framtíðina. Í dag kristallast hún í uppreisninni á Berglín, þar sem sjómenn, öll áhöfnin, hafnar kúgun útgerðarinnar sem getur nú ákveðið sjálf á hvaða verði hún kaupir fiskinn og þar með hver hlutur sjómannsins er. Þessi uppreisn dregur fram að þrátt fyrir ýmsar framfarir getur réttur almennings dregist saman. Við upphaf hlutaskipta var aflanum skipt í fjörunni; útgerðin, eigandi bátsins, fékk þá þrjá fiska en sjómennirnir einn og svo áfram í þeim hlutföllum þar til búið var að skipta aflanum. Sjómenn ættu að krefjast þess að taka upp þetta gamla fyrirkomulag að nýju, mynda síðan með sér samvinnufélag sem seldi afla sjómanna á réttu verði.

Yfirvöld á Íslandi hafa aldrei staðið með fólki eins og áhöfninni á Berglín. Allar framfarir sem hér hafa orðið hafa orðið til vegna baráttu lýðsins. Það er ekki fyrr en sú barátta er orðin öflug og sterk að yfirvöld gefa eftir. Þannig náði almenningur kosningarétti til sín og viðurkenningu á verkalýðsfélögum sem baráttutæki launafólks; eftirlaunum, örorku- og atvinnuleysisbótum, gjaldfrjálst skóla- og heilbrigðiskerfi, laun í veikindum, sumarleyfi og mörgu öðru sem í dag þykir sjálfsagt en yfirvöld héldu frá fólki og ekki fékkst nema með skipulagðri baráttu hinna fátækari og valdalausu. Það er fólkið sem hafa mótað það Ísland sem okkur þykir vænt um. Það Ísland sem okkur hryllir við er Ísland auðvaldsins og stjórnvalda sem þjóna því.

Það er því þreytt tugga og í raun andlýðræðisleg að bjóða okkur upp á hvern 17. júní, hvern 1. desember og hvern gamlárs- og nýársdag, við hvert tilefni sem yfirvöld finna hjá sér þörf til að tala yfir lýðnum; að það séu yfirvöld og auðvaldið sem færi lýðnum framfarir en ekki lýðurinn sjálfur. Þið ættuð að hætta því.

Ég segi þið, því þið eruð ekki við. Og við deilum ekki kjörum með ykkur. Þið talið um Ísland sem land jafnra tækifæra vegna þess að þið hafið náð að krafla ykkur upp innan kapítalismans, annað hvort auðgast eða komist í efnahagslegt skjól með því að þjóna þeim vel sem hafa auðgast. Það sem þið lítið á sem frumkvæði ykkar og atorku er aðeins birtingarmynd misskiptingar auðs og valda. Ykkur kann að finnast það réttlátt, alla vega meðan þið fljótið ofan á; en okkur finnst það ekki. Við viljum réttlæti fyrir alla, öll dýrin í skóginum. Ekki aðeins rándýrin sem lifa á hinum.

Saga þeirra sem komast í kúgunarstöðu er önnur en þeirra sem eru kúgaðir. Kúgararnir stikla yfir söguna á nöfnum þeirra sem þeir samsama sig við; embættismanna og höfðingja fyrri tíða og skálda og hugsuða sem hömpuðu þeim. Stiklurnar í sögu hinna kúguðu eru byltingar sem náð hafa að knýja fram breytingar; byltingin í sveitunum sem gat af sér kaupfélög, kvenfélög, lestrarfélög, bindindisfélög, ungmennafélög og önnur félagsmótandi hreyfingar á seinni hluta þar síðustu aldar; lýðræðisbyltingin sem barðist fyrir kosningarétti kvenna og eignalausra karla og leiddi til þess að alþýðustjórnmál gátu orðið til; verkalýðsbyltingarinnar sem færði okkur ekki bara hærri laun og aukin réttindi á vinnumarkaði heldur skóla- og heilbrigðiskerfi, almannatryggingar, félagslegt húsnæði og það öryggisnet sem við búum að í dag; ungmenna- og mannúðarbyltingu sjöunda áratugarins sem braut af sér félagslegt aðhald og krafðist þess að hver mætti haga lífinu sínu eftir eigin löngunum og þrám; kvennabyltingin sem krafðist jafnréttis, réttinda og réttlætis ekki aðeins fyrir konur, heldur líka börn og fjölskyldur; mannréttindabyltingar samkynhneigðra, fatlaðra, öryrkja, áfengissjúklinga, leigjenda, skuldara, innflytjenda, fólks með geðraskanir, fátækra, transfólks, barna, þeldökkra og annarra jaðarsettra hópa og forsmáðra sem ekki sér enn fyrir endann á; búsáhaldabyltingarinnar sem sannaði fyrir almenningi og stjórnvöldum að endanlegt vald liggur hjá lýðnum en ekki yfirvöldum (þótt lýðurinn hafi ekki enn áttað sig á til hvers hann ætlar að nota þetta vald sitt) og þeirra byltinga sem nú er að skjóta rótum við upphaf kórónakreppu. Og sem uppreisnin á Berglín er hluti af. Megi þær verða sem flestar og öflugastar.

Þetta er Íslandssaga fjöldans, hina fátækari og valdalausari, saga 99 prósentanna sem hingað til hefur verið gert að lifa innan sögu 1 prósents hinna auðugustu og valdamestu; þaðan sem lýðurinn er ávarpaður á hátíðarstundum yfirstéttarinnar.
Saga skiptir máli. Sjálfstæðisbarátta alþýðunnar lauk ekki þegar íslensk yfirstétt tók við af danskri. Þorskastríðunum lauk ekki þegar erlendar stórútgerðum var ýtt út úr landhelginni. Markmið alþýðunnar með stuðningi við sjálfstæðisbaráttu og þorskastríð var ekki að auka völd og áhrif yfirstéttar og auðvalds; markmiðið var að skapa aðstæður svo alþýða manna gæti byggt hér upp öflugt og réttlátt samfélag. Þessari baráttu er ekki lokið; hvorki sjálfstæðisbaráttunni né þorskastríðunum.

Þess vegna stendur almenningur með áhöfninni á Berglín í dag og finnst sem hún hafi gefið öllu fólki von. Eða næstum öllum; uppreisnin skapar ugg meðal 1 prósent landsmanna sem óttast um auð sinn og völd. Og yfirstéttin mun beita sjómennina á Berglín kúgun og þöggun. Hún mun halda því fram að allar framfarir á Íslandi hafi orðið til í sátt og aðeins þegar „við“ stóðum saman og á þá við þegar við beygðum ykkur undir vald ykkar. Það er erindi allra ávarpa yfirstéttarinnar; að okkur beri ætíð að styðja stjórnvöld en aldrei berjast gegn þeim. Þetta er lygi. Hér hafa engar framfarir orðið nema með skipulagðri baráttu almennings gegn stjórnvöldum. Um það er Íslandssagan. Megi næstu kaflar hennar verða góðir.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2020/06/17/ekki_lent_i_sambaerilegu_a_16_ara_sjomannsferli/?fbclid=IwAR3mo6bFBco19GVpUs3yc5smy6ZtLwgJTmOCIDIBQpl52MyGoeEv0Erl8Fo

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram