Hagsmunir okkar eru ekki samræmanlegir hagsmunum valdastéttarinnar!

Laufey Líndal Ólafsdóttir Pistill

Nú hafa rúmlega 43.000 einstaklingar á Íslandi (þ.á.m. ég) skrifað undir lista til stuðnings þeirri kröfu að Alþingi viðurkenni og virði niðurstöður þjóðaratkvæðisgreiðslu og geri breytingar á Stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs, sem unnar voru upp úr lýðræðislegu ferli sem þjóðin hafði aðkomu að.

Nú er búið að safna þessum undirskriftum og er gott fólk búið að leggja allt sitt til og standa sig eins og hetjur í þeirri herferð. Ég er þeim afar þakklát fyrir það. Nú er hinsvegar boltinn hjá okkur, að halda baráttunni áfram. Við vitum náttúrlega öll að þessi listi einn og sér verður ekki til þess að hagsmunagæslufólk auðlindaarðræningjanna láti segjast. Næsta skref er því að losna við þessa hagsmunagæslu úr þinginu.

Það allra mikilvægasta er náttúrlega að hætta að kjósa hagsmunaaðila valdastéttarinnar á þing og hætta að falla fyrir óþolandi hræðsluáróðri, strámönnum, lýðskrumi og ódýrum gylliboðum sem þetta lið togar fram eins og kanínu úr hatti fyrir hverjar kosningar.

Að auki má vekja athygli á hundsun þeirra á lýðræðislegum ferlum og básúna þessu erlendis, að við búum við einræði og frændhygli en ekki lýðræði. Gagnkvæm samstaða almennings erlendis með almenningi á Íslandi skiptir nefnilega máli í víðara samhengi. Við eigum þjáningarsystkini um allan heim sem verða fyrir barðinu á sama kerfinu og við búum við og við eigum að standa saman þvert á landamæri.

Með öðrum orðum: Það er í raun bara tvennt í boði: Að standa upp og berjast eða sitja kyrr og þjást. Rísum upp hvert og eitt og vinnum fyrir okkur sjálf. Hættum að bíða eftir að einhver annar hendi í okkur brauðmolum og bökum okkar eigin köku. Þetta má gera í sameiningu með öðru fólki sem okkur hugnast að starfa með. Gerum okkur sýnileg í baráttunni fyrir réttlæti í félaga- og almannasamtökum, stjórnmálaflokkum (þeim sem raunverulega eru samsettir af venjulegu strögglandi fólki), grasrótarstarfi og bara öllu sem okkur dettur í hug. Við getum myndað breiða fylkingu með ólíkum hópum, samstöðu gegn þessum fáu einstaklingum sem öllu fá að ráða með völdum sem við gefum þeim.

Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta og þeir hagsmunir eru ekki samræmanlegir hagsmunum valdastéttarinnar.

Við viljum nýja stjórnarskrá, nýtt valdakerfi, nýtt hagkerfi og bara nýtt líf þar sem við öll skiptum máli.Allt vald til fólksins!

Ps. Var jarðskjálfinn mér að kenna? Kannski….ég var alla vega að klára að skrifa þetta þegar hann kom og velti svo fyrir mér hvort „mómentið“ sé farið en ég held að mómentið sé einmitt núna. Hristum jörðina með aktivisma!

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram