Er frístundakortið að hjálpa þeim sem það á að hjálpa?
Pistill
18.11.2020
Yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar með frístundakortinu er að tryggja að börn geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Ég var enn í grunnskóla þegar frístundakortið kom til sögunnar og ég man ekki eftir því. Mér finnst líklegt að við mæðgur höfum hugsað að þetta myndi hvað sem er ekki dekka neitt að fullu og því engin ástæða til þess að taka þátt í einhverju ef þú átt ekki fyrir öllu námskeiðinu. Það kostar oft að fá aðgang að peningum og þetta er eitt dæmið um það. Það er talað um að frístundakortið eigi að veita börnum aðgang að því að stunda frístundir eða íþróttir sem þau hafa áhuga á. Sú leið sem nú er farin, að veita börnum/foreldrum styrk upp að 50.000 krónur á ári er ekki að virka til þess að tryggja að öll börn og ungmenni geti æft það sem þau vilja.
Endurskoðun á regluverki um frístundakortið var til umræðu á borgarstjórnarfundi í gær og við ræddum um skýrslu þar sem þessi mál voru tekin til skoðunar. Í henni voru lagðar fram niðurstöður könnunar sem var send til foreldra/forráðamanna allra grunnskólabarna í Reykjavík og svörun var um 40%. 16% nýttu frístundakortið á frístundaheimili því annars hefðu þau ekki efni á því að hafa börnin á frístundaheimili og 9% nýttu kortið á frístundaheimili þar sem þau höfðu ekki efni á að setja barnið í annað frístundastarf.
Í fyrsta lagi þá ætti frístundaheimili borgarinnar að vera gjaldfrjáls. Það er í raun búið að markaðsvæða þátttöku í frístundastarfi, þar sem meira fjármagn veitir aðgang að fjölþættari þjónustu og meira framboði. Foreldrar sem hafa einungis þessar 50.000 krónur þurfa að hugsa innan þess ramma og það nær skammt. Ef barn er að æfa íþrótt og er í tónlistarskóla þá geta gjöldin verið rúmlega 200.000 krónur á ári. Ef markmiðið er að tryggja að öll börn og ungmenni geti tekið þátt í því sem þau vilja óháð efnahag, þurfum við þá ekki að tryggja að kostnaðurinn við þátttökuna verði sem minnstur? Væri ekki betra að efla þau félög sem halda úti skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi? Nú er ég ekki með svörin og lausnirnar á hreinu en viljum við ekki efla tónlistarskólana og íþróttafélögin og aðra sem veita mikilvæga þjónustu á sviði tómstunda svo að kostnaður fyrir þátttöku sé ekki hindrun?
Inneignarkerfi sem byggir á því að þú getir valið hvert þú ferð með þitt (takmarkaða) fjármagn er ekki að fara að tryggja að öll börn geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag. Slíkt tekur ekki tillit til undirliggjandi þátta líkt og fátæktar, skorts, staðreyndarinnar um að börn séu svöng og ófær um að fara að brenna hitaeiningum hlaupandi um á æfingum. Að gefa öllum börnum smá inneign til að taka þátt í frístundum tekur heldur ekki tillit til væntinga barna. Væntingar sem þau hafa skrúfað niður og leyfa sér að ekki að verða spennt fyrir hlutum opinberlega, þar sem þau vita að þau geta ekki tekið þátt í námskeiði sem kostar of mikið og segjast því ekki hafa áhuga á neinu, þó að innst inni þau vilji bara fara á þetta á dansnámskeið með öllum skemmtilegu hip-hop lögunum. Ég man ekki eftir frístundakortinu en ég man eftir því að hafa viljað taka þátt og hafa neitað mér um hluti. Það er sennilega ekki heilbrigt að börn læri að neita sér um hluti. Tryggjum að öll börn geti tekið þátt.
Skoðum þetta hinum megin frá og hverfum frá nýfrjálshyggju-ávísanakerfi um að allir hafi val til að velja það besta fyrir börnin sín (þó að valið sé raunverulega ekki til staðar). Eflum tómstundastarf, það á ekki að vera svona dýrt að vera krakki. Skipuleggjum frístundir sem öflugar félagslegar stofnanir og hverfum út úr þessari markaðshugsun.