Fullveldi?
Pistill
01.12.2020
Ég skil bara eiginlega ekki orðið. Ég fletti því upp svona að gamni, það gerði litið fyrir mig. Eftir því sem ég kemst næst merkir það að ráða yfir sér sjálfur, eða þjóð sem ræður sér sjálf. Sko það er þarna sem ég ruglast. Þjóð og ríki eru ekki það sama. En semsagt þjóð sem ræður sér sjálf. Þjóð er væntanlega stór hópur fólks sem hefur búið á sama stað lengi og komið sér upp sérstöðu í menningu og listum og jafnvel matarmenningu o.sv.frv. Hópur fólks sem ræður yfir sér sjálft. Ég skal útskýra í hverju ég ruglast.
Eg hef núna starfað rúmlega eina starfsævi samkvæmt Tryggingastofnun, og starfað við margt. Vann við uppskipun á höfninni sem strákur. Þá mætti maður að morgni dags niður á höfn og beið eftir verkstjóranum, þegar hann mætti leit hann yfir hópinn og valdi þá úr sem fengu vinnu þann daginn. Hinir fóru heim. Það fór ekki mikið fyrir sjálfræðinu þar. Pabbi vinar míns vann við höfnina alla sína ævi, og dó í vinnuslysi þar fullorðinn maður. Vinur minn átti mörg systkini og það var ekki alltaf til matur, þegar það var kjöt á borðum slógust bræðurnir um kjötbitanna. Vinur minn náði eitt sin að stinga nokkrum kjötbitum í vasann og stakk þeim undir koddann fyrir nóttina til þess að eiga daginn eftir. Um nóttina vaknaði hann upp við að rotta var að draga kjötbita undan koddanum hjá honum. Þessi reynsla fylgdi honum alla ævi. Seinna þegar ég hitti hann þar sem hann var að bóna bílinn hjá borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins, þá spurði ég hann hvort hann væri klikkaður. Hann með fortíð úr fátækt og erfiðleikum að þjóna þeim sem höfðu grætt á ógæfu hans. Hann leit á mig og útskýrði í rólegheitunum að borgarstjórinn hefði lofað fjölskyldunni verkamannabústað ef þau kysu hann öll. Hann gat ekki annað sagði hann, þá rifjaðist upp fyrir mér sagan af rottunni. Fjölskyldan fékk sinn verkamannabústað og flokkurinn atkvæðin. Sjálfstæði þjóðar.
Ég var farandverkamaður víða um land, þar var hægt að reka fólk ef verkstjórinn fór öfugu megin frammúr. Ekki hafði ég mikið sjálfræði þar.
Ég var sjómaður á netabátum í nokkur ár. Þar var það útgerðin, skipstjórinn og hafið sem réðu för. Fiskverð var ákveðið milli báts og vinnslu þannig að báturinn fékk lágmarks verð fyrir fiskinn til þess að halda hlutnum niðri þannig að það þyrfti ekki að borga sjómönnunum of mikið. Eigandi bátsins fékk síðan mismuninn á verði til báts og eðlilegu fiskverði greitt framhjá. Sjálfur hafði ég ekki neitt að segja um neitt nema hvort ég mætti eða hætti.
Þannig svona nokkurn veginn er mín reynsla af því að vera hluti af sjálfstæðri þjóð.
Seinna á ævinni starfaði ég hjá stóru fyrirtæki í mínu fagi. Einn daginn kom formaður verkalýðsfélagsins til mín og spurði hvort ég væri til í að vera í samninganefnd þegar það kæmi að kjarasamningum. Ég svaraði því til að það væru margir þarna sem væru búnir að vinna lengur en ég og væru betur inní flestum málum. Hann sagði þá að hann væri búinn að reyna í 20 ár að fá einhvern til þess en þeir fáu sem þyrðu gæfust upp og hættu ef allt væri ekki í sátt.
Ég ákvað að taka þetta að mér. Talaði við nánast alla starfsmenn og yfirmenn og reyndi að átta mig á hvað fólk vildi, setti síðan upp kröfugerð sem byggði á því hvað fólk hafi sagt. Bar það síðan undir fund með starfsmönnum, það var einróma samþykkt. Það var góð stemmning í fyrirtækinu og allir mjög áhugasamir. Síðan kom að samningafundum. Þá var fyrirtækið ekki til í að samþykkja neitt, þeir bara hölluðu sér aftur í stólunum og brostu, biðu bara eftir því sem alltaf gerðist. Að þeir fengju sitt fram hávaðalaust.
Þegar þarna var komið ákváðum við að leita eftir verkfallsheimild, sem var samþykkt. Síðan var boðað verkfall. Þarna var hugur í mönnum og konum, það voru þó einstaka með skot og glósur.
Síðan kom verkfall, það fyrsta í sögu þessa fyrirtækis, ég var í undanþágunefnd og hafði um það að segja hverjir væru að vinna og hversu margir. Þegar þarna var komið var fólk farið að skipta sér í hópa, margir farnir að fjarlægja sig málinu. Það sem gerðist síðan hefði ég aldrei trúað. Hópur manna sem ég hafði litið á sem góða vinnufélaga og suma sem vini, snerust gegn mér persónulega með einkennilegri hegðun. Hættu að heilsa mér og ef yfirmenn voru nálægt voru þeir grimmir og orðljótir. Alltíeinu var hluti starfsfólksins orðinn einskonar rakkar þeirra sem höfðu völdin, ekki af því að þeir voru beðnir um það, heldur vegna þess að þeir HÉLDU að yfir mennirnir vildu það. Það fólk sem studdi mig og baráttuna þurfti að fara í felur með það til þess að halda vinnunni.
Talandi um þjóð sem ræður sér sjálf. Sumir segja kannski: þú getur kosið í kosningum og haft þannig áhrif.
Málið er eiginlega einsog í fyrirtækinu. Fyrir kosningar er stemmning og hugur í fólki. Stjórnmálamennirnir slá um sig með skynsamlegum áætlunum. Eftir kosningar skiptast þeir uppí þá sem ráða og rakkana sem fylgja þeim, og svo hina sem vilja vel en eru einir án stuðnings.
Vald spillir og Ísland er gjörspillt. Mér sýnist að þegar það er talað um fullveldi Íslands, þá er verið að tala um rétt fárra til þess að drottna yfir okkur hinum. Þeir setja lögin, þeir skipa dómstólana, þeir ákveða hvernig verðmætunum er skipt. Þeir ákveða hvaða börn þurfa að vakna við að rottan dragi síðast kjötbitann undan koddanum.