Viljandi rangsleitni er ekki fúsk

Símon Vestarr Pistill

Árið var 2016 og enginn bar andlitsgrímur nema skurðlæknar og masó-gimp. Hamverjinn og Spokklæknirinn Óttarr Proppé var á þingi sem fulltrúi flokks sem kenndi sig við framtíð bjarta og í pontu lastaði hann ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks fyrir það, meðal annars, að neita fólki um pólitískt hæli á Íslandi út frá tækniatriðum, greiða öryrkjum bætur undir framfærsluviðmiðum og hlera síma þingmanna. Þetta kallaði hann „fúsk“.

Ég hnaut um þetta orð af því að mig minnti að þeir væru kallaðir „fúskarar“ sem klúðruðu verkum vegna vankunnáttu eða óvandvirkni. Birgitta Jóns henti þessu orði aftur framan í Óttarr þegar hann var kominn í stjórnarmyndunarviðræður við Bjarna Benediktsson í ársbyrjun 2017. Enginn var nefnilega þá búinn að gleyma því að nafn Bjarna birtist í Panama-skjölunum. Stjórnin átti ekki eftir að endast út árið og var það vegna „fúsksins“ sem fólst í því að gefa tveimur dæmdum barnaníðingum uppreist æru og reyna svo að fela það. „Fúsks“ sem Sigríður Á. Andersen tilkynnti Bjarna Benediktssyni um að faðir hans hefði skrifað upp á.

(Ömurlegt má teljast, en samt kannski fyrirsjáanlegt fyrir fámenna eyþjóð, að leikendurnir í spillingarförsum okkar skyldu svona oft vera þeir sömu.)

Nú þegar efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti að áðurnefnd Sigríður hefði ekki skipað dómara á lögmætan hátt heyrði ég þessu orði aftur fleygt; að Sigríður ætti að segja af sér þingmennsku, sem og aðrir sem gerðu sig seka um „fúsk“. Fjarri veri það mér að mæla því í mót að Sigríður Á. Andersen segi af sér, en ég get ekki skrifað upp á þessa orðræðu að þarna sé um að ræða „fúsk“. Þarna er hvorki vankunnátta né óvandvirkni á ferðinni.

Sigríður vissi alveg hvað hún var að gera. Vörn hennar þegar hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið stjórnsýslulög var ekki einu sinni á þann veg að hún hefði gert heiðarleg mistök heldur að hún væri hreinlega ekki sammála æðsta dómsstigi landsins um að hún hefði gert neitt rangt. Hún sendi hæstarétti einfaldlega tóninn. Það vantaði bara að hún léti flúra á sig ódauðleg orð Tupacs Shakur: Only god can judge me!

Nei, Sigríður gerðist ekki sek um „fúsk“ heldur spillingu.

Þetta kann að hljóma eins og orðhengilsháttur en aðgreiningin er mikilvæg. Það skiptir máli að við skiljum að vankunnáttu og slóðaskap annars vegar og viljandi samviskuleysi og meðvitaða siðblinduverknaði hins vegar. Ég er ekki að kalla eftir einhverjum ad hominem árásum á útverði auðræðisins (þótt þær séu stundum dálítið skemmtilegar) heldur raunsæi varðandi eðli kerfisins sem fólk eins og Sigríður Á. Andersen stendur vörð um.

Við skulum ekki ljúga því að sjálfum okkur að það sé fyrir einhverja slysni eða slælega stjórnunarhætti sem óréttlætið grasserar eins og sýking í svöðusári. Við þurfum ekki „færari“ einstaklinga í alþingisbrúna eða „betri“ kapítalista í atvinnulífið. Að búast við því að samfélagsskipan sem byggð er á einstaklingshyggju muni, með réttum framámanneskjum, geta af sér mannúð og réttlæti er eins og að búast við því að skógarþröstur skríði út úr tarantúlu-eggi ef vindáttin er að vestan og klukkan er orðin meira en hálfátta.

Það var ekki fyrr en við skipbrot kapítalismans árið 2008 sem það tókst að fá fólk til að átta sig á því að viðmið nýfrjálshyggjunnar væru hugmyndafræði en ekki raunvísindi. Það eitt dugði ekki til að koma fylgismönnum hennar frá völdum, og ekki að undra. Kapítalisminn er ekki stjórnmálaflokkur sem hægt er að losna við með kosningum. Hann er trog sem auðræðisflokkarnir á þingi, eignastéttin úti í samfélaginu og ýmsir milligönguaðilar bogra yfir á hnjánum til að gúffa í sig megninu af þeim verðmætum sem samfélagið í heild skapar.

Hið auðvelda í stöðunni er að rúlla með – eins og kaninn orðar það: Go along to get along. Það var líka hið auðvelda í stöðunni í þrælaskipulaginu og í þriðja ríkinu. Þess vegna er hollt að muna þau orð Martins Luther King að ranglæti gegn einu okkar á einum stað er ranglæti gegn okkur öllum, alls staðar. Vandamálið er ekki að fólk eins og Sigríður Á. Andersen sé fúskarar og ekki einu sinni að innræti þeirra sé eitthvað rotið.

Vandamálið er að það eina sem þarf að gera til að kapítalisminn rúlli fram af þverhnípi með okkur í aftursætinu er að hver og einn sitji áfram brosandi í bílnum eins og við séum á leiðinni í ísbúðina. Kerfi sem framleiðir 67 prósent af matvælum fyrir lífverur og 33 prósent fyrir ruslatunnur er á sjálfstýringu. Dómsmálaráðherrar sem halda að þeir séu yfir stjórnsýslulög hafnir eru einkenni dýpri kvilla; eitraðrar einstaklingshyggju sem hefur af okkur sálina, sér í lagi þeim sem sitja á valdastóli.

Bylting gegn þessu fyrirkomulagi snýst um að valdefla okkur öll til að leita æðri sannleika innra með okkur, líka fólk eins og fráfarna ráðherra sem eru þessa stundina haldnir uppblásnum hugmyndum um eigið ágæti og hyggjuvit. Kapítalisminn er ekkert hollur fyrir Sigríði frekar en okkur hin eða lífríki jarðar. Hættum þessu rugli og þroskumst upp úr honum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram