Sósíalísk fjárhagsáætlun
Pistill
08.12.2020
Fjárhagsáætlun snýst um að áætla hvernig við sjáum fram á að koma inn með fjármagn og deila því þannig að það nýtist borgarbúum sem best. Í Reykjavík stendur til að ljúka þeirri vinnu 15. desember næstkomandi. Útsvar er stærsti tekjustofn Reykjavíkurborgar en það er sá hluti sem við greiðum í skatt og fer til sveitarfélaga.
Þar sem útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur má sjá að grunnur fjárhagsáætlunar byggir á röngum forsendum. Borgarsjóður myndi standa sterkar ef fjármagnseigendur hefðu greitt til samfélagsins síðustu ár. Ef útsvar hefði verið lagt á fjármagnstekjur árið 2019 þá hefði borgarsjóður geta fengið aukalega um 6 milljarða.
Við sósíalistar lögðum fram tillögu sem snéri að því að Reykjavíkurborg myndi hefja viðræður um slíkt við hin sveitarfélögin og samþykkt var að vinna með þá tillögu fyrir meira en ári síðan. Lítið hefur heyrst um framvindu þeirrar tillögu. Það er nauðsynlegt að hinir efnameiri greiði líka til samfélagsins, sér í lagi á tímum sem þessum. En af því að sömu reglur gilda ekki fyrir ríkt fólk eins og um aðra í samfélaginu, þá birtist gjaldtakan annarsstaðar. Við erum að rukka börn fyrir að borða í skólanum og foreldrar þurfa að nýta frístundastyrk svo börnin þeirra geti dvalið á frístundaheimilum.
Gjaldtaka fyrir grunnþjónustu
Gjaldtaka á sér stað fyrir þætti sem ættu að vera hluti af grunnþjónustu. Sorphirðugjald tekur gríðarlegum hækkunum á milli ára. Það er rukkað fyrir að taka sorp út af heimilum fólks, þar sem talað er um að „sá sem mengi greiði“. Ég er hjartanlega sammála því en tel að við þurfum að beina sjónum að þeim sem menga mest, þeim fyrirtækjum sem bera ábyrgð og þeim sem sjá um að framleiða og koma varningi frá sér í mengunarvaldandi umbúðum. Mun gjaldtakan fyrirbyggja vandann sem við erum að reyna að koma í veg fyrir? Hvað telst eðlilegt að taka gjald fyrir? Ætti sorphirðugjald heimila að vera innifalið í útsvarinu? Munum við á endanum taka gjald fyrir hvert símtal í þjónustuverið? Þar sem sá sem notar þjónustuna greiðir fyrir hana?
Útvistun á opinberri þjónustu leiðir til þess að þættir sem teljast ættu til grunnþjónustu hafa verið aðskildir frá rekstrinum okkar. Fólk með fötlun þarf að greiða margfalt hærra verð í almenningssamgöngur. Akstursþjónustu fatlaðs fólks hefur verið útvistað. Almenningssamgöngur okkar, sem eiga að vera fyrir okkur öll gera greinilega ekki ráð fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Um 213 einstaklingar hér í borginni okkar, greiða yfir 100 þúsund krónur í almenningssamgöngur á ári og hafa ekki kost á að kaupa afsláttarkort líkt og á við um aðra notendur Strætó bs. (Sjá nánar hér). Afsláttarkort sem myndi lækka samgöngukostnaðinn gríðarlega. Það kostar greinilega að vera með fötlun. Ef jafnréttismat yrði framkvæmt á kostnaði sem fatlað fólk greiðir árlega vegna almenningssamgöngukostnaðar og kostnaðar sem notendur Strætó bs. greiða hver yrði niðurstaðan? Ég er viss um að hún kæmi ekki vel út. Það ætti ekki að vera dýrara að nota almenningssamgöngur ef einstaklingur er með fötlun. Kerfin okkar eiga að gera ráð fyrir margbreytileika.
Dýrt að vera fátækur
„Reykjavíkurborg hefur frá upphafi faraldursins lagt sig fram um að verja viðkvæma hópa …“ Þetta stendur í inngangsorðum borgarstjóra með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Ef markmið borgarinnar snýr að því að verja viðkvæma hópa, hvernig væri þá að hætta að styðjast við innheimtufyrirtæki til að innheimta vanskil? Það er bæði siðferðislega rangt að láta hagnaðardrifin fyrirtæki fá skuldir borgarbúa inn á sitt borð og það á tímum þeirrar miklu ójafnaðarkreppu sem nú ríkir. Reykjavíkurborg talar um mikilvægi þess að skapa störf á tímum covid. Þá væri hagur í því að setja mikla áherslu á ógreiddu-reikninga-málin (ég vil ekki skrifa orðið „innheimtumál“ það er svo harðneskjulegt) á sviði borgarinnar til að tryggja að fólk sem hefur ekki náð að greiða reikninga fái góða þjónustu beint hjá Reykjavíkurborg í stað þess að þurfa að eiga við Momentum, Motus eða Gjaldheimtuna.
Fjárstýringardeild Reykjavíkurborgar hefur farið í útboð á þáttum sem tengjast innheimtu. Líkt og kemur fram í greinargerð með fjárhagsáætlun og framtíðarsýn stendur „Meginmarkmiðið með því að fara í útboð á fjármálaþjónustu er að tryggja örugga, tímanlega og skilvirka þjónustu, lágmarka kostnað borgarbúa og borgarsjóðs vegna fjármálaþjónustu og bæta upplýsingagjöf til borgarbúa og borgarsjóðs.“
Ef Reykjavíkurborg myndi raunverulega vilja lækka kostnað borgarbúa af skuldum þá gæti hún það.
Það er dýrt að vera fátækur. Það er dýrt að eiga ekki fyrir reikningum. Skuldir eru helst til komnar vegna þess að fólk á ekki fyrir reikningum. Kostnaður vegna innheimtu er vegna þess að það er dýrt að vera fátækur. Það er vandinn. Af hverju er það? – Því að ráðstöfunartekjur duga ekki til. Af því að fólk sem á ekki pening þarf einhvernveginn að redda sér. Með smálánum sem bera háa vexti. Nú eru jólin að koma og margir kvíða þeim. Við eigum ekki að auka á þann vanda með stressandi símtölum og bréfasendingum frá innheimtufyrirtækjum.
Meirihlutinn talar mikið um að enginn verði skilinn eftir í sinni framtíðarsýn varðandi umhverfislega, samfélagslega og efnahagslega sjálfbærni sem eiga að vera leiðarljósin út úr krísunni. Það er ekkert sjálfbært við það að halda fólki í fátækt.
Reykjavíkurborg verður að tryggja að tekjur frá þeim dugi til framfærslu, með því að hækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar frá 207.709 krónum á mánuði fyrir skatt, upp í eitthvað sem raunverulega dugar til að nærast eðlilega alla daga mánaðarins og greiða fyrir það sem við höfum skilgreint sem aðrar nauðsynja grunnþarfir í því samfélagi sem við búum í. Hvað annað getur Reykjavíkurborg gert? – Hún getur veitt öllum sem fá tekjur fjárhagsaðstoðar, desemberuppbót, ekki bara þeim sem hafa fengið fulla fjárhagsaðstoð síðustu þrjá mánuði samfellt.
Ef það á ekki að skilja neinn eftir, þá þurfum við að tryggja raunverulegar aðgerðir sem taka mið af veruleika fólks. Það er ekki sjálfbært að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 500 til ársins 2022 þegar á þeim biðlista eru nú 578. Hvað á fólk að gera þangað til? Af hverju ná áætlanir aldrei utan um alla þá sem þurfa á stuðningi á að halda? Væri ekki heiðarlegast af okkur stjórnmálafólki að setja fram húsnæðisáætlun um hversu lengi fólk þurfi að „chrasha“ á sófanum hjá vini því það hefur ekki efni á að leigja og við erum ekki að standa okkur í því að bjóða upp á húsnæði sem hentar? Af hverju gera húsnæðisáætlanir aldrei ráð fyrir öllum sem þurfa húsnæði? Á fjárhagsáætlun ekki að ná utan um alla borgarbúa?
Frístundakort íþrótta- og tómstundasviðs er hugsað sem stuðningur við börn efnaminni heimila. Við vitum þó að 50.000 króna inneign gerir það að verkum að mörg börn geta ekki tekið þátt, þar sem foreldrar/forráðamenn eiga ekki fyrir mismuninum sem heilt námskeið kostar. Það hlýtur því að vera verkefni okkar að tryggja að öll börn geti tekið þátt í því frístundastarfi sem þau hafa áhuga á. Það kostar að fá stuðning, það kostar að leggja út fyrir heilu námskeiðagjaldi. Það kostar að vera fátækur.
Hvar er félagshyggjan?
„Barnið sem virkur þátttakandi“ er fyrri hluti leiðarljóssins sem skóla- og frístundasvið starfar eftir. Þá er nauðsynlegt að börn séu vel nærð. Þess vegna lögðum við sósíalistar til að skólamáltíðir grunnskólabarna yrðu gjaldfrjálsar. Skólinn á ekki að vera þannig að sum börn fá að borða en önnur ekki. Það á ekki að kosta fyrir börn að borða í skólanum. Hvar er félagshyggjan? Á hún ekki að byggja upp góða skóla? Hér starfar meirihluti sem gefur sig út fyrir að innihalda meirihluta af fulltrúum félagshyggjunnar. Eftir stendur sú staðreynd að það kostar að vera barn í skóla. Barn getur farið í gegnum skóladaginn svangt. Það á ekki að vera þannig. Skólinn á að vera öruggt skjól. Barn á ekki að fara í gegnum heilan skóladag svangt, þar er verið að meðtaka upplýsingar, vinna úr þeim og börn eru að að leik með vinum.
„Fyrir öll börn“ var heiti á pistli sem ég fann inni á timarit.is. Ég skoða oft gamlar greinar og dagblöð inni á þeirri vefsíðu þegar ég er að kynna mér hvernig umræðan var í samfélaginu um ákveðin málefni fyrir einhverjum árum. Ég hafði slegið inn í leitargluggann „gjaldfrjálsar skólamáltíðir“ og fann pistil eftir Katrínu Jakobsdóttur frá árinu 2014 sem birtist í Dagblaðinu Vísi, þá orðaði hún þetta svo vel. Hún talaði um mikilvægi þess að bjóða upp á gjaldfrjálsa grunnþjónustu fyrir börn, þar með talið gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Þá kynni einhver að benda á að það væri betra að gefa tekjulágu fólki afslátt og tekjutengja gjöldin fyrir grunnþjónustuna og mæta efnaminni fjölskyldum þannig. Svo skrifaði hún þessi orð sem ég er svo innilega sammála: „Á því er hinsvegar mikill munur að byggja samfélag þar sem efnaminna fólk getur sótt sér sérstaka fátækrastyrki eða bjóða einfaldlega upp á sömu grunnþjónustu fyrir alla óháð tekjum. Síðarnefnda hugmyndafræðin hefur verið undirstaða félagshyggju. Þannig voru grunnskólar byggðir upp á Norðurlöndum; sem almannagæði sem ættu að standa öllum til boða óháð stétt og stöðu.“
Það ætti ekki að vera ágreinigsmál hvort við viljum tryggja öllum börnum mat í skólanum eða ekki. Meirihlutinn var tilbúin til þess að setja flata skattalækkun á atvinnulífið en getur ekki afnumið gjaldtöku á máltíðir skólabarna. Börn hafa engar stöðugar tekjur, þau ættu ekki að greiða gjöld fyrir grunnþjónustu.
En snúum okkur að þeim sem hafa störf og tekjur eða sækjast eftir því. Borgin er einn af stærstu atvinnurekendum landsins. Núll vinnutíma samningar (zero hour contracts) hafa mikið verið til umræðu varðandi réttindi starfsfólks, sérstaklega í Bretlandi. Þar er enginn lágmarksvinnutími tryggður og vinnan gjarnan kynnt sem sveigjanleg og eftirsóknarverð fyrir manneskjuna sem vinnur starfið og getur ráðið sínum tímum. Samkvæmt fjárhagsáætlun mun mannauðs- og starfsumhverfissvið fá auka fjármagn vegna Afleysingastofu. Hún hefur verið tilraunaverkefni frá síðasta ári til að mæta þörf fyrir skammtíma afleysingar í leikskólum og hjá velferðarsviði. Stefnt er að frekari þróun á starfsemi Afleysingastofu, þar sem það verði skoðað með „það að markmiði að útvíkka starfsemina þannig að hún nái til allrar starfsemi borgarinnar“.
Í mínum huga svipar Afleysingarstofa mjög til núll vinnutíma samninga. Kynnt sem spennandi lausn sem henti öllum, þar sem sveigjanleikinn er í fyrirrúmi. En að vita ekki hvað er framundan hljómar ekki mjög traustvekjandi. Starfsfólk ætti ekki að þurfa að velta fyrir sér hvort þau fái næga vinnu þann tíma sem þau ráða sig til afleysinga. Þegar tillaga um útvíkkun á starfsemi Afleysingastofu var lögð fram í upphafi þessa árs kom fram að: „Starfsmenn Afleysingastofu geta skilgreint sinn vinnutíma og vinnustaður reynir að mæta óskum þeirra og koma til móts við starfsmenn með sveigjanleika.“ Þarna hafði ég áhyggjur, og hef ennþá áhyggjur, af því að verið sé að skapa tvö kerfi utan um ráðningar í stað þess að skoða heildarsamhengið og laga það sem má betur fara í þessum málefnum. Kerfi þar sem enginn lágmarksvinnutími er tryggður er ekki stefnan sem við eigum að taka.
Það þarf að vera vakandi fyrir hlutunum í starfsemi borgarinnar sem spannar mörg svið og því vil ég einnig flagga á það sem stendur um Höfuðborgarstofu. Hún heyrir undir menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar og ber ábyrgð á heildarkynningu Reykjavíkur á sviði ferðamála innanlands og utan. Þegar greinargerð með fjárhagsáætluin er lesin kemur fram að Höfuðborgarstofa: „vinnur nú að því að kanna fýsileikann á því að verða public/private áfanga- og markaðsstofa fyrir höfuðborgarsvæðið.“ Ég ítreka mikilvægi þess að borgin fari ekki í samstarf sem hleypi einkaaðilum að borðinu varðandi eignarhald eða rekstur.
Byggjum góðan grunn
Verktakar sjá um nærri helming af akstri fyrir Strætó bs. Þegar ég spurði út í það fyrr á þessu ári hvort eitthvað þak væri á því hversu hátt hlutfall af akstri strætó verktakar megi sjá um, kom fram að svo væri ekki. Það er sláandi að engin viðmið séu til staðar hjá opinberu fyrirtæki um hversu mikið einkaaðilar megi sjá um í grunnþjónustu sveitarfélaga og ég ítreka þá skoðun að við eigum að vera að byggja hana og efla en ekki útvista til annarra aðila.
Markmið borgarinnar er að auka hlutfall þeirra sem ganga, hjóla og nota almenningssamgöngur. Til þess að almenningssamgöngur séu fýsilegur kostur þurfum við betri strætó, betri stoppistöðvar, betri stíga að stoppistöðvum, betri eigendastefnu sem gerir ekki ráð fyrir því að fargjaldatekjur standi undir 40% af almennum rekstrarkostnaði. Ef fleiri eiga að nota strætó, þá þarf að vera hægt að nota hann. Borgar- og bæjaryfirvöld eiga ekki að gera fólki erfitt fyrir. Það á ekki að vera þannig að ef þú rétt svo missir af strætó séu 29 mínútur í þann næsta.
Við vitum hvað þarf að bæta. Nú þarf að framkvæma. Það er enn talsverður tími í Borgarlínu, þangað til þurfum við betri strætó. Ef markmiðið er að fá fólk í almenningssamgöngur í framtíðinni, þá þurfa þær að vera áreiðanlegur kostur núna.
Græn borg verður ekki til nema með því að byggja upp góðar, aðgengilegar vistvænar almenningssamgöngur, ekki í framtíðinni, heldur núna. En það er ekki það eina sem þarf til að skapa græna borg. Ég hefði viljað sjá skýrar áherslur um hvernig Reykjavík ætli að ávarpa það kapítalíska markaðshagkerfi sem við búum við í samhengi við hamfarahlýnun. Græna planið var sett fram samhliða fjárhagsáætlun og er sóknaráætlun borgarinnar um efnahagslega endurreisn í kjölfar kórónufaraldursins og talar um umhverfislega, efnahagslega og félagslega sjálfbærni. Þar er talað um byggingu 1000 nýrra íbúða á ári. Þegar ég las lykiltölur byggingarfulltrúa sá ég þó að útkomuspá fyrir árið 2020 gerði ráð fyrir 700 fullgerðum íbúðum og áætlun fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir sama fjölda. Í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun spurði ég því út í þetta, hvort að þarna væri verið að tala um íbúðarhúsnæði. Og að það væri þá heldur betur ekki í takt við þessar 1.000 íbúðir á ári sem talað væri um í áætlun meirihlutans.
Húsnæði verður að vera fullgert svo hægt sé að búa í því. Það verður líka að byggja íbúðir sem henta þörfum þeirra sem nú eru að bíða eftir húsnæði. Þá er líka mikilvægt að aðgerðir okkar komi þeim ekki illa sem nú þegar leigja húsnæði hjá borginni og við sósíalistar lögðum til óbreytt dvalargjald í búsetuúrræðum á vegum velferðarsviðs. Samkvæmt tillögu að gjaldskrárhækkunum er fyrirhugað að gjaldskrár hækki að jafnaði um 2,4% í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs. Líkt og stendur í gjaldskrá er fyrirhugað að dvalargjald á heimilum fyrir utangarðsmenn hækki frá 31.405 krónum á mánuði í 32.155 krónur. Þetta kann að virka lág upphæð fyrir marga en þessar hækkanir gætu komið íbúum illa sem standa ekki vel fjárhagslega og verið biti fyrir marga, sérstaklega í ljósi stöðunnar í samfélaginu. Því var lagt til að borgin hækki ekki dvalargjald í búsetuúrræðum sem er leigugjald íbúanna. Sú tilllaga var felld.
Í næstu umræðu munum við sósíalistar leggja fram fleiri tillögur sem snúa að leigjendum, framfærslu og húsnæði. Ég bendi á að áhugasamir geta kynnt sér efni og greinagerðir fjárhagsáætlanna hér.
Hér er fjallað um ólík svið borgarinnar og fyrirtæki í eigu borgarinnar og hér má sjá Græna planið.