Þegar græðgin ein er eftir

Ingi Bæringss Pistill

Árið 1977 bjó ég í kommúnu á Norðurlöndum. Við vorum fimm sem bjuggum þar, ég var sá eini sem var ekki háskólamenntaður. Við vorum öll í verkamannavinnu. Það sem við áttum sameiginlegt voru hugsjónir, um betri heim, jafnrétti karla og kvenna, byltingu mennta- og heilbrigðiskerfis, byltingu hugarfarsins. Við bjuggum í tvöhundruð ára gömlu húsi og reglurnar voru skýrar, það gerðu allir jafnt, við skiptumst á að elda og það mátti ekki eyða meira en 50 kr í mat þannig að þó einhver ætti meiri pening en annar þá gat hann ekki slegið um sig. Orð og gjörðir fóru saman. Kvennabaráttan var á fullu og við vissum að hvorugt kynið hafði valið sér hlutverk og bæði kynin voru föst í hugarfari sem við höfðum ekki valið sjálf. Við börðumst með konum og stofnuðum karlahreyfingu. Við börðumst með fólki í herteknum húsum, verkföllum og tókum þátt í götubardögum við lögreglu sem var beytt óspart á þessum árum. Við héldum tónleika í strætisvögnum og ferðuðumst stundum nokkra hringi og spiluðum fyrir alla sem komu inn.

Við sungum baráttusöngva allstaðar að úr heiminum og við táruðumst yfir óréttlæti heimsins. Hugsjónir. Meira og stærra en við, sem við vildum fórna öllu fyrir. Í verksmiðjunni vann ég með manni sem hafði verið lektor í háskólanum í borginni. Hann hætti því og fór að vinna með okkur.

Menn vissu nefnilega að til þess að geta sett sig í spor einhvers verður maður að deila kjörum með honum. Hugsjónir. (Hann varð seinna þekktur stríðsfréttaritari í Afghanistan)

Árið 1982 ferðaðist ég um Spán með hljómsveit í baráttu fyrir sósíalista, sem unnu sigur á Franco-liðinu. Hugsjónir.

Einhverstaðar á leiðinni breyttist þetta, ég týndist í lífsbaráttunni. Ekkert komst að nema bjarga sér. Ég fór að trúa því að peningar væru verðmæti í sjálfu sér og hugarfarið breyttist. Ég varð allt sem ég barðist á móti. Mér fannst rétt að fólk sem ætti peninga fengi peninga fyrir að eiga peninga (ávöxtun, hagnaður) og reyndi að verða einn af þeim. Ég missti sjónar á því að það getur enginn verið sérfræðingur í mér nema ég, fór að trúa á forræðishyggjuna, aðskilnað og sérfræðingana. Varð einn af þeim. Hugarfarið var breytt, hagur minn númer eitt. Hugsjónir? Týndar, gleymdar. Það er nefnilega þannig að til þess að vilja fórna öllu þarf maður að eiga ekkert. Gildra auðhyggjunnar er að leyfa fólki að eiga nóg til þess að það vilji ekki fórna öllu. Græðgin.

Það var ekki fyrr en í hruninu sem ég vaknaði upp við það að það var ekkert eftir nema ágirndin, gremjan yfir að missa allt, sem ég þó áður hefði fórnað án þess að depla auga.

Ég áttaði mig smátt og smátt á því að hugarfar mitt var smitað af græðgi, vildi meira og því meira sem ég aflaði, því fastar hélt ég í það. Það fylgir nefnilega þessu hugarfari að hamingjan komi að utan, kona, peningar, ferðalög…. tóm.

Þegar ég horfi á þetta úr fjarska þá kviknar eldur

Við þurfum byltingu hugarfarsins.

Við þurfum að hætta að berjast á móti einhverju og fara að berjast fyrir okkar hugsjónum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram