Uppreisnarmenn, hvítliðar og andófstúristar

Símon Vestarr Pistill

„Pönk er enginn trúarsöfnuður!

Pönk þýðir að hugsa sjálfstætt!“

Þegar ég hugsa um uppreisn koma þessi öskur Jello Biafra gjarnan upp í hugann, úr laginu þar sem hann sagði pönkurum með nasistapólitík að fokka sér. Að vera sjálfstæður eða vera hluti af einhverri heild … Þarf maður að velja? Er ekki hægt að gera bæði? Er alveg bókað mál að ef ofboðslega margir taka saman þátt í að gera uppreisn gegn einhverju sé um heilalausa hjarðhegðun að ræða?

Allir þurfa bara að vera með höfuðið rétt skrúfað á og geta svarað þessum spurningum: Hver er málstaðurinn? Og skil ég út á hvað hann gengur?

Uppreisnarseggurinn er heillandi erkitýpa af því að maður hefur á tilfinningunni að hann stefni eitthvert og sé kannski jafnvel til í að taka mann með þangað. Jafnvel þótt ákvörðunarstaðurinn sé enginn annar en „eitthvert annað en hingað“. En ég hef aldrei almennilega skilið þá sem gera uppreisn í þágu einhverrar íhaldssemi eða jafnvel elítisma. Án þess að hirða neitt um hugsjónir. Í mínum huga er það ekki uppreisn heldur tómt reiðirúnk. Vísum enn og aftur í Dauðu Kennedýana:

„Við erum ekki að reyna að vera lögreglan!

Þegar þið apið eftir löggunni þá er það ekki stjórnleysi!“

Þarna er reyndar verið að vísa í þann praxis nasistapönkara að mæta á tónleika til að lenda í slagsmálum og rústa hljómleikasalnum og róstuseggirnir eru hvattir til að „rústa banka“ ef þeir þykjast hafa „raunverulegar hreðjar“. En mér verður ekki bara hugsað til kylfubúinna hitlershoppara á Hlemmi eða í Fellahelli í byrjun níunda áratugarins heldur líka þessara mótmælatúrista sem dúkkað hafa upp á alþjóðavísu í tengslum við fráfarandi Bandaríkjaforsetann með löngu, rauðu slifsin.

Sumir þeirra eru vissulega hættulegir en flestir eru bara vindbelgir sem hafa horft of mikið á fréttir af þjóðfélagshópum sem þeim er illa við; t.d. hörundsdökku fólki, konum með skoðanir og félagshyggjusinnuðum einstaklingum (að ég tali nú ekki um fólk sem hræðir úr þeim líftóruna með því að vera allt þetta þrennt í einu, eins og Nina Turner). Þeir trúa ekki á neitt. Þeir vita bara hvað þeir vilja ekki. Þeir eru hvítliðar.

Svo eru það þeir sem halda enn að nýfrjálshyggja sé uppreisn. Í tímaritsopnu á tíunda áratuginum um fáeina síðhærða karlmenn á Íslandi (sá hárstíll á karlmanni þótti enn efni í blaðaumfjöllun í þá tíð) var stutt viðtal við Eyþór Arnalds undir mynd af honum með sellóinn sinn. Hann var sá eini af viðmælendunum sem fór mikinn á skeleggri ljóðrænu um að hárið á sér táknaði tryggð við algjört frelsi andans.

Ég vissi ekki fyrr en nokkru síðar að Eyþór væri nýfrjálshyggjumaður en í þessu samhengi kemur það ekki á óvart, enda slefa fáir eins sóðalega yfir frelsishugtakinu og postular Ayn Rand. Téð hugtak er þó fullkomlega innantómt í þeirra meðförum eins og ég kom rækilega inn á í pistli fyrir nokkru sem hét „Frelsi til að éta það sem úti frýs“.

Frelsi er áróðursblaður á hægri vængnum. Hol táknmynd. Skilti sem bendir upp í vindinn. Því er ekki að undra að uppreisn fái sömu meðferð á þeim bænum en ég verð að játa að ég græt enn innra með mér við tilhugsunina um þann ofbeldisverknað sem Eyþór framdi á anarkistaþjóðsöngnum Killing In The Name fyrir rétt rúmu ári. Hann hefði ekki getað komið verr fram við hugmyndafræðilega andstæðinga sína – DeLa Roccha, Morello, Commerford og Wilk – nema með því að hægja sér á gröf látins skyldmennis þeirra.

Skýrara dæmi um merkingarsnauða uppreisnarfróun á almannafæri fyrirfinnst vart í Íslandssögunni.

Ég skil vel að uppreisnarandinn geti búið í brjósti sérhvers manns, hvort sem hann er aðgerðarsinni eða áhættufjárfestir. Hitt er annað mál að enginn getur þjónað tveimur herrum. Uppreisn er barátta þess sem minna má sín gegn þeim sem hefur völd. Allir eru auðvitað velkomnir í það partý og við erum með Rage Against The Machine á fóninum, auk Dead Kennedys, Public Enemy og Mána, svo eitthvað sé nefnt. En skilja þarf fylgispektina við kúgarann eftir við innganginn. Eyþór (og aðrir auðvaldsþjónar) þurfa að gera það upp við sig hvort þeir ætla að vera uppreisnarmenn eða spakar undirlægjur.

(Við hvern er Eyþór eiginlega að segja: „Fokkaðu þér! Ég geri ekki það sem þú segir!“? Bjarna Ben? Ég skal trúa að hann meini það þegar hann sýnir mér úrsagnarbréf sitt úr flokknum.)

Einu sinni þótti pínu kúl að vera „uppreisnarmaður án málstaðar“. Eilífðartöffarinn James Dean lék í mynd sem bar beinlínis þessa yfirskrift. En ef maður pælir aðeins í þessu, er „uppreisnarmaður án málstaðar“ ekki bara manneskja með tilgangslausan mótþróa? Óþolandi tuðhæna? Eins og maður sem skammast í starfsfólki úti í búð fyrir að fara eftir sóttvarnarlögum og biðja aðra um að gera það líka? Flestir vaxa upp úr því að bregðast við öllum boðum og beiðnum með geðvonsku og skætingi. Aðrir láta þá tilhneigingu steingervast á miðjum aldri og kalla hana réttlætiskennd. Eða uppreisnargirni

Þeir sem kalla eftir „frelsi“ út um annað munnvikið en hallmæla þeim sem vilja valdefla launafólk gagnvart eignastéttinni út um hitt munnvikið eru sorglegasta tilfellið af gúmmítöffara sem til er.

Uppreisnarmenn án málstaðar.

Hvítliðar.

Leiksoppar.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram