Hvernig byggjum við góða borg?

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var afgreidd nú á dögunum. Þar setjum við línurnar til næstu fimm ára. Í fjárhagsáætlunargerð er mikilvægt að skoða hvernig eigi að koma með fjármagn inn í borgarsjóð, svo að áætlunin gangi upp til langtíma. Á síðustu áratugum hefur skattbyrðinni verði létt af fyrirtækjum og fjármagnseigendum og hún færð yfir á lág- og millitekjuhópa. Við getum ekki ætlast til þess að hinir tekjulægstu í samfélaginu beri kostnaðinn af því að félagslegri uppbyggingu sé mætt.

Höfnum brauðmolakenningunni

Aðstöðugjöld á fyrirtæki (prósentuhlutfall af veltu fyrirtækja), sem voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna, voru lögð niður árið 1993. Sósíalistar í borginni telja mikilvægt að leggja þau gjöld aftur á.  Það er eðlilegt að fyrirtæki greiði í sameiginlega sjóði, fyrir þá innviði sem rekstur þeirra byggir á. Hugmyndir um að lægri skattinnheimta til fyrirtækja og fjármagnseigenda, trítli sér í brauðmolum til hinna verst settu hafa ekki skilað sér. Enda er ljóst að nýfrjálshyggjan gengur ekki upp. Við vitum að það bitnar alltaf á einhverju og einhverjum að greiða fyrir skattalækkanir, annað hvort með hærri gjaldtöku á almenningi eða lakari þjónustuveitingu hins opinbera.

Útsvarið okkar á að nýta til þess að greiða fyrir uppbyggingu samfélagslegra gæða en ekki til að veita atvinnurekendum afslætti af sínum gjöldum. Það er mikilvægt að fara í þessa söguskoðun, ræða hvernig þetta varð að veruleika og afleiðingar þess. 15 milljarðar hefðu skilað sér inn í borgarsjóð, hefði aðstöðugjald ekki verið lagt af. Þetta er grófleg áætlun miðað við tölur síðasta árs. Vissulega hafa aðstæður í samfélaginu breyst, miðað við síðasta ár en staðreyndin er sú að við höfum ekki verið að sækja fjármagnið til þeirra sem eru aflögufærir.

Við erum flest sammála um að eðlilegt sé að íbúar greiði hluta af tekjum sínum til samfélagsins. Slíkt nýtist til uppbyggingar nauðsynlegra þátta sem við nýtum öll, líkt og skóla, stíga, íþróttamannvirki, bókasöfn og snjómokstur. Ríkt fólk sem fær eingöngu fjármagnstekjur, þarf ekki að greiða neitt til sveitarfélagsins sem það býr í. Hvað á það að þýða? 

Eflum félagsþjónustu 

Sveitarfélögin standa frammi fyrir því að þurfa að mæta mikilvægum verkefnum án nægilegs fjármagns. Því er mikilvægt að ríkið bæti upp fyrir félagsþjónustu sveitarfélaga á tímum kórónuveirunnar og þá mikilvæga nærþjónustu sem hún veitir. Í mars á þessu ári, lögðum við sósíalistar fram tillögu um slíkt. (Hér má lesa um þá tillögu). Viðbragð hins opinbera gagnvart faraldrinum og efnahagslegum afleiðingum hans á ekki síst að vera innan nærsamfélagsins og þar með á vettvangi sveitarfélaganna.  Talandi um nærsamfélagið, þá er mikilvægt að sveitarfélögin fái hluta af áfengisgjaldi fyrir nauðsynlega þjónustu við þá sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda. Á sínum tíma var vel tekið undir tillögu sósíalista um slíkt og samþykkt að vinna með hana. Ástæða þess að ég tel þetta allt upp er vegna þess að við verðum að tryggja tekjustofna sem eru í samræmi við það samfélag sem við búum í. Og því við eigum ekki að sætta okkur við það að sumir greiði til samfélagsins en aðrir ekki, að sérreglur gildi um ríkt fólk.

Nýfjálshyggjan hefur löngu afsannað sig. Hún virkar ekki. Búin. Ónýt. Ætti að vera löngu grafin. Það er ekkert sniðugt við hana. Samt sem áður er verið að reyna að halda hugmyndafræði hennar á lofti í borgarstjórn, innan úr Ráðhúsi Reykjavíkur, með útvistun og hugmyndum um að „einfalda, skýra og skerpa verkferla“. Hugmyndir um að hagræða, færa valdið fjær borgarbúum eins og með niðurlagningu umboðsmanns borgarbúa. Núna heitir það einhverju nafni sem ég man ekki einu sinni hvað er því það er svo óaðgengilegt. Aukið framlag til Afleysingarstofu til að viðhalda því að fólk sé ekki í föstu ráðningarsambandi. Borgin undirbýr flatar skattalækkanir á atvinnulíf sem skila sér í minni tekjum til borgarinnar, án þess að staða allra fyrirtækjanna liggi fyrir. 

Bregðumst við neyð

Viðbrögð borgarinnar við COVID, sem bitnar misjafnlega á fólki, eru ólík eftir því hver á í hlut. Borgin brást ekki við þegar félaga- og hjáparsamtök rekin af sjálfboðaliðum, þurftu að loka tímabundið vegna COVID. Margir í borginni treysta á samtök til að fá mat. Horfði borgin þá í augu við þá staðreynd að hér er fjöldi fólks sem getur ekki borðað út mánuðinn nema að bíða í biðröð eftir mat? – Nei borgin brást ekki við. Engin viðbraðgsáætlun. Eiga áæætlanir okkar ekki að ná til allra í borginni og taka sérstaklega utan um fólkið í verstu stöðunni? Til að byrja með ætti enginn að þurfa að vera í þeirri stöðu að leita til samtaka eftir mat. (Hér má lesa um tillögu sósíalista sem lögð var fram í mars á þessu ári til að bregðast við lokun samtaka sem sjá um matarúthlutanir.)

Hvað ætlum við að gera ef þetta gerist aftur? Er okkur bara alveg sama? Við erum sennilega með viðbragðsáætlanir um allt annað milli himins og jarðar en þegar kemur að þeim sem geta ekki leitað neitt annað er eins og skilaboðin séu að þetta komi okkur ekki við, sé ekki okkar hlutverk, ekki okkar ábyrgð. Fátækt fólk sem á ekki fyrir mat á greinilega ekki skilið að fá  áætlun um hvernig þörfum þeirra verður mætt ef lokað verður fyrir matarúthlutanir hjálparsamtaka á tímum heimsfaraldurs. Ég held að plönturnar í Ráðhúsinu fái meiri umhyggju en verst setta fólkið í borginni.

Meirihlutinn talar mikið um aðgerðir gegn sárafátækt, á einum stað í gögnum með fjárhagsáætlun, stendur: „Vinnum gegn sárri fátækt með markvissum og valdeflandi hætti.“ Hér vil ég nefna að það er ekkert markvisst við það að greiða fólki tekjur sem duga ekki til framfærslu. Ég sat í stýrihópnum sem mótaði aðgerðir gegn sárafátækt en meirihlutinn vísar mikið í þær aðgerðir sem þau telji að muni vinna gegn sárafátækt í borginni. Í hópnum var margt gott lagt til en eftir stendur að ekki á að hækka fjárhagsaðstoðina svo hún dugi til.

Við sósíalistar lögðum því til að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hækki úr rúmum 207.000 krónum fyrir skatt, upp í upphæð grunnlauna. Það er oft talað um fjárhagsaðstoð sem neyðaraðstoð. Neyð kallar á afdráttarlaus viðbrögð til að bregðast við vandanum. Það gerum við ekki með skammarlega lágum upphæðum til framfærslu. Við lögðum líka til að allir sem fái nú fjárhagsaðstoð, fái desemberuppbót. Hingað til hefur það bara náð til þeirra sem hafa fengið fulla fjárhagsaðstoð undangengna þrjá mánuði samfellt.

Skólastarf á að mati okkar sósíalista að vera gjaldfrjálst og því lögðum við fram tillögu um að gera allt skólastarf á vegum borgarinnar gjaldfrjálst með öllu, þ.m.t. frístundaheimilin og máltíðir. Þetta byggir á því að ekkert barn á að vera svangt í skólanum og líka á því að skólastarf á að vera fyrir öll börn. Aðstæður barna og ungmenna eru misjafnar og gjaldtaka á ekki heima innan veggja skólanna. Kostnaðurinn er 3.467.000 þ.kr. á ári. 

Við sósíalistar lögðum einnig fram að nýju tillögu um niðurfellingu leigu í einn mánuð, hjá leigjendum Félagsbústaða á krepputímum. Slíkt myndi kosta borgina 318 milljónir. Þetta er aðgerð til að mæta leigjendum hjá borginni sem eru með þeim tekjulægstu. Peningar til þeirra sem hafa lítið skila sér oftar en ekki strax aftur út í hagkerfið og örvar það. Tekjulágt fólk er ekki líklegt til þess að sofa með peninginn undir koddanum þegar það þarf nauðsynlega á vörum og þjónustu á að halda en hefur beðið með að kaupa það sem þarf. 

„Ég þarf nýja þvottavél. Ég þarf líka að fara til tannlæknis“

Þegar leigjendur Félagsbústaða voru spurðir að því hvað niðurfelling leigu í einn mánuð myndi þýða fyrir þau er ljóst að leigjendur þurfa á fjármagninu á að halda: 

 „Þvottavélin var að gefa sig í gær, það fossaði úr henni vatn. Hún er búin. Ég er þakklát fyrir alla þvottana sem hún hefur þvegið en ég þarf nýja þvottavél. Ég þarf líka að fara til tannlæknis, tölvan það er langt síðan hún gaf sig, sérðu hvað er búið að safnast upp, langt síðan það er búið að safnast upp. Ég hefði kannski geta skrapað einhverju saman og keypt eitthvað af þessu en ákvað frekar að vera ekki of strekkt á því. Þú ferð ekki út í búð um leið og hlutirnir bresta. Þetta val, hefurðu eitthvað val? Á Bland er þvottavél gefins, er kannski smá biluð, maður veit aldrei. Svo sagan á bak við þetta, pantar kannski sendibíl á tíu þúsund, svo er kannski eitthvað að vélinni. Stundum hugsar maður, nú langar mig bara í nýja þvottavél, þannig að kannski myndi stór hluti fara í nýja þvottavél, eða ég myndi kaupa notaða og fara til tannlæknis. Það er sko alveg úrval, ég þyrfti ekki að hugsa málið lengi. Þvottavél er ekki beint eitthvað sem maður getur beðið með. Maður þarf að þvo.“

Skólagjöld og skólabækur fyrir dóttur sína er það sem annar leigjandinn myndi gera við auka pening, hún myndi einnig kaupa strætókort fyrir báðar stelpurnar sínar og fara sjálf til tannlæknis. Þriðji leigjandinn myndi láta gera við bílinn sinn og ef eitthvað væri eftir, þá myndi viðkomandi kannski kaupa notaða uppþvottavél og bætir við að það sé kannski lúxus en það væri gaman að þurfa ekki að vaska upp endalaust. Fjórði leigjandinn myndi nýta peninginn í að borga inn á höfuðstól tannréttinga hjá dóttur sinni. 

Nýja potta og pönnu fyrir spanhelluborð er það sem fimmti leigjandinn myndi geta keypt og greinir frá því að vera í nýrri íbúð, í nýrri blokk. Gamla settið sem hún átti virki ekki fyrir span. Hún myndi mögulega kaupa lyfin sín sem hún þurfi á að halda, eiga fyrir klósett pappír, kaupa gardínu fyrir stóru gluggana og hafa nóg til að versla í matinn. Einnig myndi hún mögulega geta borgað læknis tíma þá og þegar, í stað þess að hlaða fleiri innheimtum á bankareikning og geta átt sér mögulega á því að koma sér út úr netgíró vítahring. 

Tannlæknaferð er það sem sjötti leigjandinn myndi gera við auka peninginn og bætir við:  „sem er þess eðlis að það verður dýrt, þess vegna hef ég dregið það allt of lengi“. Sjöundi leigjandinn myndi borga reikninga ef leiga yrði felld niður í einn mánuð og vonar að þetta verði samþykkt hjá borginni þar sem „fjàrhags vandi er að sliga marga, aukning á kvíða og þunglyndi. Verst fer þetta með börnin, það er ekki hægt að fela àhyggjur fyrir þeim.“ Dæmisaga áttunda leigjandans sýnir fram á mikla nægjusemi: „Myndi borga reikninga, aðallega uppsafnaða lækna reikninga, leysa út lyfin mín sem eru búin að vera á bið í 3 vikur, og kaupa stóran poka af kartöflum og hrísgrjónum sem geymast vel, ef það væri afgangur gæti ég splæst í 4 stór kubba kerti fyrir jólin sem mig er búið að langa í lengi og fást í bónus 200 kr. stk., er frekar nægjusöm“.

Ljóst er að fólk er oft að bíða með hluti sem eru oft taldir sjálfsagðir. Þetta á ekki að vera svona. Þessi tillaga myndi koma til móts við fólk sem þarf á peningum á að halda. 

Góð borg byggir á réttindamiðaðri nálgun

Í strætókerfinu geta einstaklingar keypt afsláttarkort sem ná yfir ákveðin tímabil, slíkt á ekki við um notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks, sem greiða nú 240 kr. fyrir hverja ferð. Um 213 einstaklingar í Reykjavík greiða meira en 100.000 krónur á ári í akstursþjónustu fatlaðs fólks. Samgöngukostnaður margra er því mjög hár. Við lögðum því til að notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks geti keypt árskort á 23.200 kr., á sama verði og er fyrir öryrkja og eldri borgara. Það myndi kosta borgina 35 milljónir á ári. 

NPA samningar (notendastýrð persónuleg aðstoð) eru réttindi sem fólk á ekki að þurfa að bíða eftir til lengdar. Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir því að fjölga NPA samningum í samræmi við fjármálaáætlun ríkisins. Fjöldi samþykktra umsókna á bið á árinu 2020 eru 19 talsins. Við sósíalistar lögðum til að Reykjavíkurborg leggi út fyrir öllum kostnaði vegna þeirra sem eiga rétt á þjónustunni og eru á bið svo að enginn þurfi að bíða eftir samningnum sem viðkomandi á rétt á. Borgin rukki síðan ríkið um það sem henni bera að greiða vegna NPA samninga. 

Síðast en ekki síst lögðum við fram tillögu um fjárfestingu gegn húsnæðiskreppu. Yfir 900 manneskjur eru á bið eftir húsnæði sé litið til félagslegs leiguhúsnæðis, húsnæðis fyrir fatlað fólk, heimilislausa einstaklinga og þjónustuíbúðir aldaðra. Miklu fleiri þegar við teljum börnin með. Samkvæmt grófri áætlun myndi það kosta um 21,5 milljarð að vinna gegn biðlistum, fyrir lok kjörtímabilsins. Raunveruleg fjárútlát borginarinnar yrðu lægri þar sem hver íbúð mun skila borginni leigutekjum sem nýta má í afborgun vaxta af lántöku vegna húsnæðisuppbyggingar. 

Góð borg nær utan um grunnþarfir allra íbúa. Nú eru margir í sárri húsnæðisþörf. Fjárfesting í þágu húsnæðisuppbyggingar ætti að vera efst á forgangslista borgarinnar. 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram