Stjórn með Viðreisn mun engu breyta í grundvallaratriðum

Andri Sigurðsson Pistill

Stjórnmálin á Íslandi eru ekki svo ólík því sem er að gerast í Bandaríkjunum með kjöri Joe Bidens. Stuðningsmenn hans hömruðu á því gegndarlaust að allt sem skipti máli væri að losna við Trump úr embætti. Bókstaflega ekkert annað skipti máli og þar á meðal að setja fram neinar raunverulega lausnir á þeim vandamálum sem samfélagið stendur frami fyrir. Í það minnsta fór lítið sem ekkert fyrir umræðu um málefni. Niðurstaðan er svo Joe Biden, maður sem var búinn að lofa því fyrir fram að breyta engu. Loforð sem hann veitti velstæðum stuðningsmönnum sínum fyrir kosningarnar: „ekkert mun breytast í grundvallaratriðum“.

Á Íslandi eru sömu raddir á lofti. Við veðrum að losna við Sjálfstæðisflokkinn sama hvað er sagt. Gott og vel. En hvað á að koma í staðin? Ef eitthvað er að marka umræðuna undanfarið stefnir allt í stjórn Samfylkingar og Viðreisnar. Einskonar Joe Biden stjórn sem verður hugmyndafræðilega ófær um að breyta neinu sem skiptir máli. Það er þess vegna verkefni vinstrisins á Íslandi næstu mánuði að koma í veg fyrir að Viðreisn geti still sér upp með öll spil á hendi þegar kemur að stjórnarmyndun, í stöðu til að velja hvort flokkurinn fari til hægri eða inn á miðjuna.

Við sem höfum fylgst með skipsbroti nýfrjálshyggjunnar vitum alveg að stórn með Viðreisn mun ekki breyta einu eða neinu fyrir verkafólk á Íslandi. Það er einfaldlega ekki nóg að losna við Sjálfstæðisflokkinn. Það þarf að losna við hugmyndafræðina. Stjórn með Viðreisn yrði alveg jafn vonlaus og núverandi stjórn Katrínar Jakobsdóttur með íhaldinu. Því slík stjórn yrði líka mynduð á grunni málamiðlunar milli hægri og vinstristefnu. Málamiðlun um stöðnun.

Það þarf að útiloka hugmyndafræði hægrisins sem hefur leitt yfir okkur nýfrjálshyggjuna, svelti og niðurskurðarstefnuna. Viðreisn er klofningur úr Sjálfstæðisflokknum og byggir á sömu hugmyndafræði. Þessir flokkar eru bókstaflega á móti því að auka jöfnuð og völd launafólks á kostnað fyrirtækjaeigenda. Því þetta eru flokkar fyrirtækjaeigenda.

Logi Einarsson sagði í Vikulokunum um helgina að hann vildi ríkisstjórn með skýra sýn sem ekki þyrfti að byggja á of miklum málamiðlunum. En Logi sagði Samfylkinguna og Viðreisn líka deila áherslum í mörgum málum. Það er hins vegar augljóst að stjórn með Viðreisn myndi byggja á sömu málamiðlun á milli velferðarstefnu og nýfrjálshyggju og núverandi stjórn. Í sama þætti lýsti Hanna Katrín Friðriksson áherlsum Viðreisnar á næsta kjörtímabili. Hún sagði stöðu ríkissjóðs „ósjálfbæra“ og að verkefni næstu stjórnar verði að sýna „ábyrgð í ríkisfjármálum“.

Sem sagt, það á að skera niður og viðhalda sömu hugmyndafræði á næsta kjörtímabili og láta launa- og verkafólk greiða fyrir kreppuna í stað þess að láta hin ríku borga eða beita gjaldmiðlinum og peningakerfinu. Ríki með sjálfstæðan gjaldmiðil þarf ekki á óttast skuldastöðu ríkisins, sérstaklega ekki á tímum sem þessum. Um allan heim eru ríkisstjórninr af kasta þessum kreddustjórnmálum hægrisins til hliðar. En hægrið á Íslandi hefur látið yfir okkur ganga stanslausan niðurskurð frá hruni og virðsit ekkert hafa lært. Ábyrgð þeirra sem ætla að viðhalda sveltistefnunni er mikil.

Samfylkingin og Píratar verða að ákveða hvort þessir flokkar ætli að mynda stjórn um áframhaldandi stöðnun og nýfrjálshyggju eða félagshyggjustjórn. Besta leiðin til að tryggja félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar er þess vegna að kjósa Sósíalistaflokkinn og toga þannig þessa flokka til vinstri.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram