Sósíalismi eða villimennska – Rosa Luxemburg á orðið

Rosa Luxemburg Pistill

Í tilefni af því að 101 ár er liðið frá andláti Rosu Luxemburg er hér birt glefsa úr bæklingi Spartakista frá árinu 1918:

 

Stofnun sósíalískrar samfélagsgerðar er máttugasta verk sem hefur nokkru sinni fallið í hlut stéttar og byltingar í mannkynssögunni. Þetta verk krefst algjörrar umbreytingar ríkisins og umbyltingar efnahagslegra og félagslegra stoða samfélagsins.

Þessa umbyltingu og umbreytingu getur engin skrifstofa, nefnd eða þing boðað. Aðeins alþýðan sjálf getur hafið hana og hrint henni í framkvæmd.

Í öllum fyrri byltingum var lítill minnihluti fólksins í fararbroddi, setti markmið þeirra og beindi þeim áfram og alþýðan var aðeins notuð sem verkfæri til að vinna sigur í þágu hagsmuna þeirra, hagsmuna minnihlutans. Sósíalíska byltingin er sú fyrst sem er í þágu meirihlutans og hún nær aðeins fram að ganga fyrir tilstuðlan meirihlutans sem samanstendur af verkafólksinu sjálfu.

Öreigalýðurinn þarf að gera meira en að afmarka skýrt og greinilega markmið og stefnu byltingarinnar. Hann þarf einnig að taka það sjálfur að sér að blása lífi í sósíalismann með verkum sínum, skref fyrir skref.

Kjarni sósíalisks samfélags er sá að almenningur vinnandi fólks verður ekki lengur undirokaður mannfjöldi heldur gerir stjórnmálalífið og efnahagslífið að sínu eigin lífi og beinir því lífi í átt að meðvitund, frelsi og sjálfstæði.

Frá hæsta tindi ríkisins niður í smæsta prestakallið þarf öreigalýðurinn því að leysa af hólmi þær stofnanir sem erfast frá drottnun borgarastéttarinnar – málstofurnar, þingin og bæjarráðin – með eigin stéttarstofnunum – með verkamannaráðum og hermannaráðum. Hann verður að fylla allar stöður, hafa yfirumsjón með öllum verkum, mæla allar þarfir almennings út frá staðli eigin stéttarhagsmuna og markmiðum sósíalismans. Það er aðeins með stöðugum, lifandi og gagnkvæmum tengslum milli alþýðunnar og stofnunum þeirra, verkamanna- og hermannaráðum, sem verk almennings geta blásið ríkinu sósíalískan anda í brjóst.

Á sama hátt er aðeins hægt að koma efnahagslegu umbyltingunni í kring ef ferlinu er hrint í framvæmd með fjöldaaðgerðum öreigalýðsins. Eintómar yfirlýsingar æðstu byltingaryfirvalda um opinberar aðgerðir eru út af fyrir sig holar setningar. Það er enginn nema verkalýðurinn sem getur með verkum sínum gert orðið að holdi. Verkafólkið getur náð yfirráðum yfir framleiðslunni og raunverulegum völdum með því að berjast linnulaust gegn auðvaldinu, maður á mann, í hverri vinnustofu, með beinum þrýstingi almennings, með verkföllum og sköpun eigin varanlegra fulltrúastofnana.

Af þeim líflausu vélum sem auðvaldið úthlutaði sess verkamannanna í framleiðslunni ætti öreigalýðurinn að læra að umbreyta sér í frjálsa og sjálfstæða verkstjóra þessa ferlis. Þeir þurfa að öðlast ábyrgðartilfinninguna sem tilheyrir þeim virku meðlimum heildarinnar sem á óskorað tilkall til allra félagslegra gæða. Þeir þurfa að þróa með sér iðni án svipu kapítalismans, hámarks framleiðni án þrælapískara, aga án undirokunar, reglusemi án yfirvalds. Hin háleitasta hugsjónarmennska í þágu heildarinnar, hinn strangasti sjálfsagi og hinn sannasti samfélagshugur alþýðunnar eru siðferðisstoðir sósíalísks samfélags, rétt eins og heimska, sjálfhverfa og spilling eru siðferðisstoðir kapítalísks samfélags.

Allar þessar sósíalísku samfélagsdyggðir, ásamt þeirri þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að beina sósíalískum framkvæmdum í réttar áttir getur verkalýðurinn aðeins öðlast fyrir tilstilli eigin verka, eigin reynslu.

Sósíalískt samfélag verður aðeins að veruleika fyrir tilstilli linnulausa og óþreytandi baráttu verkalýðsins í fremstu víglínu, alls staðar þar sem verkafólk og auðvald, samfélagsöfl alþýðunnar og borgarastéttarinnar sjá í augnhvítur hvort annars. Frelsun verkalýðsins þarf verkalýðurinn að koma í kring sjálfur.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram