Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá
Pistill
09.02.2021
Kæri lesandi, við stöndum á tímamótum í mannkynssögunni. Tækniframfarir hafa skotið okkur inn í nýja öld þar sem tækni og gervigreind fækka nú ört störfum. Það þarf ekki að leita lengra í sögu Íslands heldur en 1990 þar sem meirihluti íslensku þjóðarinar starfaði við sjávarútveg. Vissulega hefur störfum fjölgað hér í öðrum greinum og höfum við verið heppin með það að ferðamannaiðnaðurinn hefur bætt við fjölda starfa, en í núverandi umhverfi þá er lítið um atvinnu og við sjáum hvaða störf þarf að vinna til þess að halda uppi okkar samfélagi. En það er efni í aðra grein.
Stjórnmálamenn og konur velta því fyrir sér hvernig er best að renna sterkum stoðum undir samfélagið. Enn og aftur sannast það að fyrirtækin ganga fyrir, frekar en við sem búum í þessu landi.
Vinnuaflið sem að hefur byggt upp þetta samfélag er enn og aftur skilið eftir í óvissu, brauðfótunum er skellt undir okkur almenning og neyðin fer vaxandi. Það sem heldur okkur gangandi er okkar gamla góða mottó; „Þetta reddast!“
Við sjáum grunnstoðir samfélagsins, heilbrigðiskerfið okkar, kikna undan álagi, starfsfólkið fuðrar upp vegna gríðarlegs álags og fréttir um ný afbrigði veirunnar valda ótta. Það er líka efni í heila grein í viðbót en í stuttu máli þá er enn óvissa og hún er ekki góð. Geðheilbrigði Íslendinga hefur líklegast aldrei verið verra. Geðheilbrigðiskerfið er svelt og geðlæknum hefur fækkað gríðarlega. Björgunarnetið okkar er rifið og tætt, og við finnum öll fyrir því.
Sjálfsbjargarviðleitnin hefur tekið við sér á þeim stöðum þar sem staðan er verst. Í Bandaríkjunum hefur hópur fólks tekið sig saman og fjárfest í fyrirtækjum sem stórir fjárfestingarsjóðir höfðu tekið skortstöðu gegn á. Fjárfestarnir þurftu að fá yfir 3 milljarða dollara innspýtingu vegna þess að hópur fólks keyrði hlutaféð upp, Wallstreet gengið titrar af ótta, því hinn almenni borgari fann leið til þess að kreista fjármagn úr þessum sjóðum og hvað gerist? Fjármagnseigendur þvinga sölumiðla til þess að banna kaup á hlutabréfum í fyrirtækjunum. Markaðurinn var og er ekki frjáls, en nóg um það.
Við stöndum á tímamótum. Fækkandi störf valda því að minna kemur inn í ríkiskassann. Tekjuskattur er jú bundin í mannanna verk, þó svo framleiðni hafi í sumum tilfellum tvöfaldast, jafnvel þrefaldast síðustu 30 árin. Einkavæðingin hefur leitt af sér að innviðauppbygging kostar meiri peninga. Við sjáum það öll ef við horfum á vegakerfið okkar; dýrari vegir sem standast ekki kröfur um öryggi, verra heilbrigðiskerfi sem er farið að kosta fólk sem virkilega þarf að nota það, ekki bara fjármagn heldur einnig heilsuna. Það þarf ekki að leita lengra en skimun á krabbameini og þann skandall að sýni úr einstaklingum með legháls krabbamein liggja í kössum óhreyfð. Það þarf engan sérfræðing til þess að sjá það að nú þarf að hugsa til framtíðar.
Það kostar allt peninga en hvar er hægt að sækja þá? Auðlindir í þjóðareign er ein leið. Að kalla inn kvótann og að ríkið leigi hann út. Þeir sem að hafa hagnast á sjálfvirknivæðingunni og þriðju iðnbyltingunni raka inn gróðann: Er ekki komin tími á að skattleggja framleiðni en ekki störf? Það er hugmynd sem að menn eins og Elon Musk, og Bill Gates hafa talað fyrir. Já við stöndum á tímamótum kæri lesandi, þingmenn okkar virðast vera of uppteknir í því að bjarga fjármagnseigendum, við sitjum enn eftir í súpunni. Í næsta mánuði dettur fjöldinn allur af fólki af atvinnuleysis bótum. Ríkið hefur ekki enn brugðist við þessu. Og því er óhætt að segja að það eru erfiðir tímar frammundan fyrir almenning í þessu landi.