Sólveig Anna: „Við munum komast að því að við sjálf getum breytt því sem þarf að breyta“
Frétt
15.02.2021
Í kjölfar könnunar Vörðu um aðstæður íslensks vinnuafls í faraldrinum í síðustu viku skrifaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í Kjarnann um að átakanlegar niðurstöðurnar kæmu engum á óvart, enda bein afleiðing af grimmd valdastéttarinnar gagnvart launafólki. Í köunnuninni kemur fram að fjórðungur vinnuaflsins á frekar erfitt eða erfitt með ná endum saman og að hátt í 30% kvenna eru í þeirri stöðu. Þess utan eiga rúmlega 50% þeirra sem eru án vinnu erfitt með að mæta mánaðarlegum útgjöldum sínum og margir þeirra treysta á mataraðstoð hjálparsamtaka. Næstum 35% af aðfluttu fólki á erfitt með að borga allt sem borga þarf og er enn líklegra til að þurfa að treysta á mataraðstoð.
Sólveig bendir líka á þær afleiðingar sem fram kemur að þetta ástand hafi á heilsu fólks. Að það ljóstri upp þeirri samfélagslegu skömm að hópur fólks hefur ekki efni á að leita sér læknishjálpar. „Einnig kemur fram,“ skrifar Sólveig, „að hópur okkar sem vinnum vinnuna tökum okkur ekki sumarfrí, heldur seljum aðgang að vinnuaflinu okkar þegar við ættum að hvílast og njóta lífsins. Ég vissi að svona væri þetta, ég var sjálf í þessari stöðu, en ég upplifi sorg við að sjá að öll hin mikla barátta þeirra sem á undan okkur fóru til að tryggja að rétturinn til hvíldar og endurheimtar væri réttur allra, hefur eftir áralangar árásir nýfrjálshyggjunnar á vinnandi fólk hrörnað með svo ömurlegum afleiðingum. Allt of stór hluti okkar lifir við fáránlegar efnahagslegar aðstæður. Ekkert má útaf bera. Og svoleiðis hefur þetta verið svona um langt skeið; ástandið var til skammar löngu áður en faraldurinn setti hér lífið úr skorðum.“
Sólveig bendir á að áður en faraldurinn skall á var þegar orðið ljóst að væntingar ómenntaðra kvenna um ævilengd hafa styst árlega síðan 2014 og að sú staðreynd hafi haft lítil sem engin áhrif í samfélagslegri umræðu. „Aðflutt verkafólk hefur frá 2015 þurft að þola vinnumarkað þar sem launaþjófnaður hefur aukist ár frá ári, en stjórnvöld og talsmenn atvinnurekenda standa markvisst í vegi fyrir því að hægt sé að uppræta þá skömm. Svo mætti lengi telja, hér er ónefnd sú skömm sem gróðavæddur húsnæðismarkaður er í samfélagi okkar, en 5000 – 7000 manneskjur búa við óboðlegar aðstæður í iðnaðarhúsnæði, sem er verðlagt eins og lúxus-varningur.“
„Þessir erfiðleikar, orsakaðir af kerfislægu óréttlæti, hafa gert það að verkum að við sem tilheyrum stétt verka- og láglaunafólks höfum á síðustu árum aftur og aftur spurt okkur sjálf og hvert annað: Hversu mikla stéttskiptingu ætlum við að sætta okkur við? Hversu tilbúin erum við til að axla allar þær byrðar sem fólkið sem lifir hinu góða lífi setur á okkar axlir? Og við höfum ítrekað svarað hátt og snjallt: Það er fyrir löngu komið miklu meira en nóg. Þess vegna höfum við tekið marga slagi. Verka- og láglaunafólk hefur leitt baráttu launafólks fyrir efnahagslegu réttlæti á þessu landi.“
Hún bendir á að félagsfólk Eflingar hefur ítrekað lagt niður störf til að knýja á um hærri laun, betri aðstæður og virðingu, stigið fram og sagt frá sínum högum og sagt frá þeim afleiðingum sem samræmd láglaunastefna arðræningja Íslands hefur á líf þess og tilveru. „Við höfum sýnt hugrekki og einbeittan baráttuvilja. Og fyrst og síðast djúpa og innilega löngun til að taka baráttuna í eigin hendur, til að taka slaginn á eigin forsendum. Til að vera ekki lengur undirseld skipunum frá þeim sem telja sig þess umkomin að segja okkur fyrir verkum. Barátta okkar hefur snúist um efnahagslegt réttlæti en hún hefur líka snúist um okkar eigið sjálfsforræði.“
Sú þolraun sem stór hluti verka- og láglaunafólks gengur nú í gegnum er sú, að mati Sólveigar, að vera látinn þjást í fátækt. Að þau sem ábyrgðina beri gangi enn lengra inn í ímyndarstjórnmál þar sem sjálfsdýrkunin hafi tekið yfir, þar sem að draumurinn um jöfnuð á milli fólks sé löngu dáinn, þar sem meira máli skipti að segja frá því hver hefur gengið á fjöll, hver er hættur að fara á fyllerí, hver hefur komið til flestra útlanda, hver er mesti meginstraums-femínistinn heldur en að standa afdráttarlaust með fórnarlömbum hins stéttskipta þjóðfélags og nota völdin til að gera líf þeirra betra. Þetta segir hún staðreynd sem ekki sé hægt að afneita.
Hvað varðar niðurstöður rannsóknar Vörðu er Sólveig ekki vongóð um að brugðist verði við henni með árangursríkum aðgerðum:
„Hin pólitíska valdastétt mun láta eins og rannsóknin hafi ekki verið gerð, því get ég lofað ykkur. Í þeim þjóðernis-rómantíska fasa ídentity-stjórnmálanna sem hún hefur nú gengið inn í er nákvæmlega ekkert ólíklegra en að boðið verði upp á hið svokallaða samtal um aðstæður þeirra sem strita til að komast af, þeirra sem lenda í matarúthlutunar-biðröðum hjálparsamtaka þegar atvinnuleysið skellur á, þeirra sem hafa ekki efni á að fara til læknis, þeirra sem þjást andlega vegna þess ískalda skugga sem fjárhagsáhyggjurnar eru. Hin efnahagslega valdastétt mun aftur á móti skoða niðurstöðurnar, en ekki í þeim tilgangi að læra af þeim og endurmeta afstöðu sína til tilveru vinnuaflsins.
Forspá Sólveigar gengur enn lengra: „Ég lofa því að nú eru reiknimeistarar Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að halda því fram að þau sem svöruðu könnuninni séu bara að ljúga en það hafa verið viðbrögð milljón-króna fólksins þar við bókstaflega öllum þeim staðreyndum sem Efling hefur sett fram í baráttu félagsins fyrir efnahagslegu réttlæti fyrir félagsfólk. Og þegar lyga-tóninn hefur verið gefin frá SA og Viðskiptaráði verður hann endurómaður í fjölmiðlum auðvaldsins.“
Hún fullyrðir að það sé undir launafólki og málsvörum þess komið hvað verði gert í málunum.
„Við getum gert það sem ætlast er til af stjórum þessa lands; kinkað döpur kolli, „voðalega er þetta sorglegt“, og beðið eftir því að einhver geri eitthvað, beðið þangað til við drepumst eftir því að einhverjum þóknist að gera eitthvað. Eða við getum látið þessar niðurstöður gera það sem þær eiga að gera; getum látið þær næra andúð okkar og ógeð á þeirri fólskulegu og viðbjóðslegu stéttskiptingu sem fengið hefur að grafa um sig í þessu vellauðuga og fámenna samfélagi, þessu „velferðarsamfélagi“, þessu „upplýsta og menntaða jafnréttissamfélagi; getum leyft þeim að næra reiði okkar yfir þeirri ógeðslegu vanvirðingu sem okkur er sýnd aftur og aftur og aftur; verka- og láglaunafólk á að vinna og halda kjafti, borga skatta og halda kjafti, verða atvinnulaust og halda kjafti, velkjast um á gróðavæddum húsnæðismarkaði og halda kjafti, sjá börnin sín verða ódýrt vinnuafl og halda kjafti, og svo framvegis og svo framvegis; getum leyft niðurstöðum rannsóknarinnar að næra baráttuanda okkar og uppreisnaranda, getum leyft þeim að verða vopn í þeim slag sem við ætlum okkur að taka aftur og aftur, þangað til að við sjálf höfum öðlast þau völd sem við þurfum til að breyta þessu helsjúka rugli sem fær að viðgangast hér; milljarðarnir streyma úr ríkissjóði, milljarðarnir sem þangað eru komnir vegna vinnu okkar streyma til íslenskra milljarðamæringa sem hafa arðrænt okkur, á meðan við sjálf eigum að sætta okkur við að éta brauðmola úr lófum þeirra sem telja sig þess umkomin að stjórna tilveru okkar.“
Hún hvetur verka- og láglaunafólk til að hugleiða stöðu sína og það hvernig á því standi að fólkið sem knýi áfram hagvöxtinn með vinnuafli sínu og ómissandi starfsfólk í umönnunarstörfum hafi það samt svona slæmt. „Hvernig gerðist það að engin atvinnustjórnmála-manneskja telur að hún þurfi að ávarpa okkur, fjölskyldur okkar, félaga okkar? Hvernig gerðist það að hagsmunir okkar, sem ættu að vera í fyrirrúmi, eru svo aftarlega á hagsmunagæslu-forgangslista valdhafa að það kemur aldrei að okkur? Hvernig gerðist það að við erum dæmd til að axla þyngstu byrðarnar, í uppsveiflum og kreppum, á meðan hin ríku halda áfram að verða ríkari? Og ætlum við að láta þetta rugl halda áfram að viðgangast?“
Enn hvetur hún verka- og láglaunafólk til að hugleiða stöðu sína. „Við höfum svitnað fyrir hagvöxtinn. Við höfum haldið grunnkerfum samfélagsins gangandi með vinnu okkar. Við erum þau sem þjáumst í atvinnuleysinu. Við erum þau sem eigum að komast af á fjárhæðum sem ekki er hægt að komast af á. Við erum þau sem eigum á hættu að missa heilsuna vegna þeirra efnahagslegu aðstæðna sem okkur er gert að lifa við. Nú þegar að handagangurinn í öskju fulltrúalýðræðisins verður meiri og meiri í aðdraganda kosninga, hvet ég okkur til hugleiða stöðu okkar og valdaleysi, hlusta, hugsa og meta stöðuna. Og ég vona af öllu hjarta að fulltrúar úr okkar hópi, fulltrúar okkar sem vinnum vinnuna, sem þekkjum skortsins glímutök, ákveði að sækjast eftir völdum á þessu landi sem við byggjum, svo að raddir okkar og kröfur fái að heyrast hátt og snjallt, svo hátt og snjallt að þær yfirgnæfi innantómt þusið í þeim sem munu ekki gera neitt til að bæta kjör okkar og okkar fólks.“
Hún lýkur pistli sínum með þeim orðum að tímarnir hafi verið erfiðir lengi og að launafólki hafi verið gert að sætta sig við hið óásættanlega. „Okkur hefur verið talin trú um að ekkert annað sé í boði. En ef við stöndum saman og rísum upp, sameinuð, munum við komast að því að ekkert er fjær sannleikanum. Við munum komast að því að við sjálf getum breytt því sem þarf að breyta, svo að verka- og láglaunafólk verði ekki áfram valdalaus viðföng atvinnustjórnmálanna, ekki lengur þolendur efnahagsleg óréttlætis, heldur stoltir gerendur í því að móta samfélag sem byggir á réttlæti og sanngirni. Varla ætlum við að þola það að næsta könnun sem gerð verður um stöðu vinnuaflsins afhjúpi samskonar andstyggð og þá sem nú er öllum ljós?“