Hvíti maðurinn og egóið

Símon Vestarr Pistill

Í pistli sem kom út í Stundinni á laugardaginn segir Bragi Páll Sigurðarson að „í þessu samfélagi hönnuðu fyrir hvíta, gagnkynhneigða, ófatlaða, sæmilega stæða karla, ætti að vera rými fyrir alla hina að hafa jafnháværar raddir.“

Nákvæmlega.

Erfitt er að sjá fyrir sér nokkra einustu gildu ástæðu fyrir því að vera ósammála neinu sem hann setur fram þarna. Í athugasemdum við eina deilingu greinarinnar sá ég þó viðamikið litróf varnarviðbragða hvítra, gagnkynhneigðra og ófatlaðra karla sem telja síður en svo að samfélagið sé hannað fyrir þá og líta engan veginn á sig sem forréttindafólk. Hið fyrsta sem kemur upp í huga minn við lestur slíkra athugasemda er að viðkomandi væri hollara að lesa það sem greinarhöfundur er að segja en að leggja honum það í munn sem hann sagði aldrei. Þó verð ég að játa að ég hnýt um orðin „sæmilega stæðir“.

Fátækt og egó

Bragi Páll talar um að hafa vissulega upplifað blankheit en segir að öryggisnet það sem fjölskylda hans bauð upp á hafi gert það að verkum að hann upplifði aldrei raunverulega fátækt eins og sumir sem hann vissi til að hefðu þurft að velja á milli þess að kaupa mat eða lyf. Hér finnst mér vera eini ljóðurinn á annars mjög fínum pistli. Það er nefnilega ekki beint ljóst hvar línan liggur, að mati Braga Páls, á milli þess að tilheyra fjárhagslegum forréttindahópi og að vera fátækur. Þarf maður að vera í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á milli matar og lyfja til að teljast fátækur eða er nóg að maður nái endum saman með því að neita sér um allt annað en nauðþurftir eins og mat, lyf og húsaskjól? Og þýðir þetta að það séu „forréttindi“ að vera ekki fátækur? Er ekkert þar á milli?

Stéttarvinkillinn er nefnilega örlítið loðinn hjá Braga Páli og ekki að undra. Fjórir áratugir undir hugmyndafræðilegri einokun auðræðisaflanna hafa ekki beint ýtt undir færni okkar til að orða skýra sýn á þessa hluti. Fyrir hrun þótti ósmekklegt að tala um elítu, þökk sé aldalangri baráttu hugmyndafræðistofnana vestrænna samfélaga gegn gildum sósíalismans, og enn í dag eigna sumir slík popúlísk orð öfgahægrinu (og raunar popúlismann allan). En nú er öldin önnur. Almenningur er ekki lengur meðvitundarlaus um þá staðreynd að þeir sem eiga framleiðslutækin eiga annarra hagsmuna að gæta en við hin. Að ítök peningaaflanna eru svo mikil að vart er hægt að kalla samfélagsskipan okkar lýðræðislega.

Við erum orðin svo vön því að nota orð eins og fátækt sem gildisdóma að við höfum núorðið ekki nema óljósa hugmynd um hvað þau þýða. Þau eiga að vísa til þess skorts sem sumir líða á meðan aðrir veltast um í vellystingum og þess vegna finnst mér það vera mistök að reyna að sundurgreina mismunandi stig fátæktar og metast um það hver sé „raunverulega fátækur“. Í raun eru ekki nema tvær stéttir í samfélaginu út frá efnahagslegu sjónarhorni; eignastéttin og hinir eignalausu. Þeir sem eiga framleiðslutækin og þeir sem eiga þau ekki. Hinir „sæmilega stæðu“ í röðum launafólks eru náttúrulegir bandamenn þeirra sem ekki geta látið enda ná saman um mánaðamót og orðið „miðstétt“ er alltof oft notað til þess að etja háskólamenntuðu verkafólki gegn öðru verkafólki eða öfugt.

Ég skil það að Bragi Páll vilji ekki flokka sig sem fátækan, ekki einu sinni á þeim tíma sem hann var að eigin sögn ófær um að standa á eigin fótum fjárhagslega. Af því að viðkvæðið væri: „Gáðu að forréttindum þínum! Fullt af fólki hefur það mun verra en þú!“ Meðlimir eignastéttarinnar reyna oft einmitt að gengisfella málflutning um neyð launafólks á Íslandi með tali um það að fólk í öðrum heimsálfum hafi það svo skítt að verkafólk á Íslandi á 21. öldinni ætti ekkert að vera að kvarta. Svo ekki sé minnst á Íslendinga fyrr á öldum.

Málið fer þannig að snúast um egóbarning. Launamanni á Íslandi, sem er alfarið upp á vinnuveitanda sinn kominn varðandi öll lífsgæði sín, gremst það að vera sagður njóta forréttinda vegna þess að hann hefur oft þurft að basla í lífinu. Hann óttast það að orðið forréttindi útmáli hann sem einhvern aðalstitt með silfurskeið í kjaftinum, kavíar á kantinum og kaleik af kampavíni á hvítu marmaraborði. Við eigum það nefnilega til að líta á forréttindi sem annað-hvort-eða spursmál í stað þess að líta á þau sem róf.

Þessi egóþráhyggja er einmitt ástæðan fyrir því að hægrafólk notar ekki niðrandi orð um þá sem berjast fyrir jafnrétti heldur talar um þá sem „réttlætisriddara“ og „góða fólkið“. Þeir nota kaldhæðnislegt hrós til að gera lítið úr jafnréttissinnum af því að þeir halda að eini hvatinn til þess að reyna að koma í kring framförum í heiminum sé tilhugsunin um að geta klappað sjálfum sér á bakið, vitandi að maður sé betri manneskja en hlustendur Útvarps Sögu.

Gott væri ef við gætum komist út úr þessum fasa. Typpamælingarkeppnir egósins skila okkur engu nema úlfúð og aðgerðarleysi.

Hvað eru forréttindi?

Eina svarið við ítökum elítunnar er samstaða, sem færir mig aftur að grein Braga Páls. Mikilvægasta spurningin, sem mér finnst fáir leggja sig fram við að svara þegar umræði um forréttindi er annars vegar, er þessi; hvað þýðir það að njóta forréttinda? Ef við göngumst við klassískri skilgreiningu þess orðs þá þýðir það að njóta einhvers sem aðrir njóta ekki; réttinda, sannmælis, peninga o.fl.. Orðið framkallar í huganum Marie Antoinette í Versalahöllinni, ekki starfsmann á bensínstöðvarplani í Kópavogi. Við eigum það til að nota orðið forréttindi sem samheiti yfir auðæfi eða einhverja himinháa samfélagsstöðu. Þess vegna leggst orðið illa í suma. Af því að þeir gefa sér ekki tíma til að íhuga þá merkingu sem Bragi Páll leggur í orðið.

Þau forréttindi sem hann er að tala um gera menn í fæstum tilfellum að sólkonungum en eru óneitanlega plús í lífi manneskju. Rannsóknir sýna að sá undirflokkur mannkyns sem við Bragi Páll tilheyrum nýtur meiri virðingar og áhrifa í samfélaginu en aðrir, burtséð frá vitsmunum, innræti eða fyrri afrekum, og hver sá sem telur það réttlátt ætti að láta læknismenntaðan einstakling rannsaka í sér heilabúið.

Pungarnir sem þarf að sparka í

Lokaorð pistilsins hljóma svona:

„Ef við sem samfélag viljum að kærleikur, sanngirni og mannleg reisn sé hluti af innihaldsefnunum, þá þarf að sparka í nokkra hvíta, gagnkynhneigða, ófatlaða, ríka punga.“

Hér tekur hann fram að pungarnir sem sparka þarf í séu ríkir og virðist því þeirrar skoðunar að framfarir náist ekki nema með því að takast á við auðvaldið. Því er ég hjartanlega sammála. En ókosturinn við þetta annars mjög skemmtilega niðurlag er að það skilur eftir glufu sem auðstéttin skríður ítrekað inn um. Þó svo að áhrifin liggi vissulega að miklum meirihluta til hjá hvítum, ófötluðum og gagnkynhneigðum einstaklingum af karlkyni þá er það ekki einhlítt. Spörk Braga Páls í þágu réttlætis munu nefnilega væntanlega ekki hlífa þeim meðlimum eignastéttarinnar sem falla utan þessara skilgreininga.

Barack Obama er ekki hvítur en gerði ekki mikið til að takmarka völd auðmanna og vopnaframleiðenda. Wolfgang Scäuble er lamaður en kæfði í fæðingu allar tilraunir Grikklands til mannsæmandi samninga við Evrópusambandið. Margaret Thatcher var ekki karlmaður en lagði velferðarkerfi Bretlands í rúst ásamt iðnaði Norður-Englendinga og framdi stríðsglæpi við Falklands-eyjar. Mér dettur ekki í hug neinn samkynhneigður ráðamaður sem hefur gert sig sekan um eitthvað á þessum skala en væntanlega fullyrðir enginn að mannvonska og valdagræðgi í embætti einskorðist við þá sem eru gagnkynhneigðir.

Forréttindi og valdníðsla fara auðvitað oft saman en eru flóknara mengi en svo að hægt sé að velja sér einhvern einsleitan hóp til að sparka í. Lífsreynsla minnihlutahópa auðgar innsæi þeirra gagnvart vandamálum samfélagsins en auðvaldið er kameljón.

Bæði skilningur og samstaða

Mér finnst heilbrigt að gangast við því að hafa það betra en aðrir. Það er fyrsta skrefið í átt til jafnréttis. En mér finnst líka rétt að hafa í huga að á meðan eignastéttin ræður svona miklu í samfélaginu er þörf á samstöðu almennings þvert á allar þær línur sem aðskilja fólk. Ég treysti því að við getum gert bæði í einu. Að við getum verið meðvituð um þau forréttindi sem okkar hópur hefur án þess að láta þá meðvitund koma í veg fyrir samstöðu okkar með öðrum hópum í baráttunni gegn auðræðinu. Það þýðir að ekki ber að taka pistlum sem þessum frá Braga Páli sem árás á sig, kyn sitt, kynheigð, kynþátt eða lífsreynslu heldur að láta slíkar áminningar hvetja sig til að auðsýna samkennd.

Þetta er ekki ásökun frá góða fólkinu.

Þetta er ákall kærleikans.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram