Sósíalískir femínistar – Stefnuyfirlýsing

Sósíalískir femínistar Frétt

Sósíalískir femínistar eru fólk sem hafnar kapítalísku samfélagsskipulagi og stjórnarfari og krefst mannúðlegra kerfis byggðu á hugmyndafræði sósíalisma þar sem mannréttindi, mannhelgi, jafnrétti og systkinalag er haft að leiðarljósi.
Kapítalisminn eða auðvaldsskipulagið sem við búum við í dag þar sem arðurinn af eignum og atvinnutækjum, fasteignum og fjármagni, jafnvel auðlindum okkar rennur til fárra útvalinna með vaxandi ójöfnuði á öllum vígstöðvum er óásættanlegur.

Við neitum að láta jaðarsetja okkur á grundvelli kyns, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, húðlitar, getu, líkamlegs eða andlegs atgerfis, holdarfars, tungumálakunnáttu, menntunar, ríkisfangs, trúar, uppruna, menningar eða annarra eiginleika sem skapa okkur sérstöðu innan mannlegs samfélags og við neitum að láta etja okkur saman. Við viljum frelsi til að fagna þessum einkennum án þess að þau séu nýtt sem ástæða til að skerða mannréttindi okkar eða almenn lífsgæði.

 • Við krefjumst þess að allt fólk búi við efnahagslegt öryggi og réttlæti.
 • Við krefjumst afnáms láglaunastefnunnar og að verðmætamat á störfum samfélagsins sé endurmetið þannig að hefðbundin kvennastörf og ósýnileg vinna skili sér í viðunandi lífsviðurværi til jafns við önnur störf.
 • Við krefjumst þess að allt fólk búi við húsnæðisöryggi.
 •  Við krefjumst þess að engin manneskja þurfi að búa við skort á heilsusamlegum mat eða drykkjarvatni.
 • Við krefjumst þess að allt fólk búi við frið og jafnrétti og að engin manneskja þurfi að þola ofbeldi eða ofsóknir.
 • Við krefjumst þess að allt fólk hafi raunverulegt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu þar sem úrlausnir miðast að þörfum þess.
 • Við krefjumst þess að allt fólk geti búið við líkamlegt og andlegt heilbrigði og hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
 • Við krefjumst þess að allt fólk hafi raunverulegt aðgengi að menntun og að öll mismunun til náms sé afnumin á öllum námsstigum.
 • Við krefjumst þess að raddir jaðarsettra hópa samfélagsins heyrist og að á þær sé hlustað.
 • Við krefjumst þess að allt fólk eigi þess kost að geta tekið virkan þátt í samfélaginu og hljóti viðeigandi aðstoð til að gera þá þátttöku mögulega.
 • Við krefjumst þess að sjálfsákvörðunarréttur fólks yfir eigin líkama sé virtur, fólk hafi óskorðaðan rétt til þungunarrofs, stjórn á frjósemi sinni og fullt vald yfir eigin kynfrelsi.
 • Við krefjumst þess að engin manneskja neyðist til þess að selja aðgang að líkama sínum til þess að komast af og að engin manneskja geti nýtt sér neyð annarrar sér til framdráttar.
 • Við krefjumst þess að réttur barna sé raunverulega virtur óháð stöðu foreldra þeirra og fjölskyldugerð.
 • Við krefjumst þess að baráttan gegn mansali og þrælkun sé tekin alvarlega og að fórnarlömb slíkra glæpa njóti sérstakrar verndar og fái viðunandi aðstoð hér á landi.
 • Við krefjumst þess að Ísland taki upp sósíalískt stjórnarfar og hætti þátttöku sinni í kapítalískum stofnunum og hernaði.
 • Við krefjumst þess að unnið sé markvisst að náttúruvernd og gegn þeirri eyðileggingu og loftslagshamförum sem kapítalismi og nýfrjálshyggja hafa í för með sér.
 • Við krefjumst þess að þjóðir vinni saman að úrlausnum í friðar- og loftslagsmálum og að mismunun á grundvelli ríkisfangs verði afnumin.
 • Við krefjumst þess að fólki sé ekki refsað eða mismunað fyrir að passa ekki í fyrirfram ákveðna ramma kerfisins og samfélagsins. Það skiptir máli að ólíkar sjálfsmyndir allra fái notið sín, svo sem sjálfsmyndir transkvenna sem og alls trans- og kynsegin fólks. Þá sé fólki ekki refsað fyrir að vilja ekki eignast börn eða lifa í hefðbundnu parasambandi eða velja að vera einhleypt með eða án barna.
 • Við krefjumst þess að fæðingarorlof verði skilgreint sem réttur barnsins en ekki tengt við áunnin réttindi foreldra á vinnumarkaði. Upphæð skal miðast við viðunandi framfærslu fjölskyldunnar og tryggja það að barn þurfi ekki að hefja líf sitt í fátækt.
 • Við krefjumst þess að allri upplýsingaskyldu sé sinnt sem skyldi til dæmis í formi þýðinga og í auðlesnu máli fyrir þá sem það þurfi svo enginn verði af réttindum sínum af óþörfu.
 • Við krefjumst brauðs OG rósa fyrir allt fólk!

Við viljum samfélag byggt á samvinnu og höfnum því að vera skipuð í það hlutverk að vera í samkeppni hvert við annað um brauðmolana af borði auðvaldsins. Systkini okkar í baráttunni er fólk um allan heim sem á það sameiginlegt að búa við efnahagslegt og félagslegt óréttlæti; fólk sem tilheyrir lægri stéttum þess samfélags sem það býr í, fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum, fólk sem er útskúfað og/eða sætir ofsóknum, fólk sem má þola kerfisbundið óréttlæti, fólk sem býr við fötlun, fátækt og skort á nauðsynjum, fólk sem ber skarðan hlut frá borði misskiptra gæða. Öreigar allra landa sem vilja sameinast um viðunandi lífsgæði fyrir allt fólk á jörðinni.

Konur börðust fyrir því að umönnunarstörf yrðu færð út af heimilunum svo þær hefðu val um að mennta sig og gætu notið sambærilegra tækifæra og sjálfstæðis á við karla. Þær sáu ekki fyrir þann halla og ójöfnuð sem myndaðist milli faglærðra og ófaglærðra annars vegar og hins vegar hvernig ákveðnar starfsstéttir misstu verðgildi sitt við það að verða svokallaðar „kvennastéttir”. Þá hafi ein fyrirvinna dugað heimilum hér áður fyrr en í samkeppnissamfélagi okkar daga er slíkt útilokað ásamt því vali foreldra að annar aðilinn vinni heima við að sinna börnum og heimili. Þannig má segja að áherslan innan kvennabaráttunnar hafi fylgt nýfrjálshyggjunni og einstaklingshyggjunni með þeim afleiðingum að heilu kvennastéttirnar voru skildar eftir illa launaðar og útkeyrðar á vígvellinum. Þannig hafa fátækar konur aðeins orðið enn fátækari og nám kvenna er jafnvel að missa verðgildi sitt. Umönnunarstörfin, sem rótgróin hefð er fyrir að sinnt sé af fátækum konum í lægri stéttum, njóta takmarkaðrar virðingar og hafa orðið fyrir barðinu á láglaunastefnu sem oftast er leidd af hinu opinbera. Þessi störf hreinlega bera uppi samfélagið og finnst okkur tími til kominn að þau séu virt og viðurkennd og að fólkið sem sinnir þeim megi lifa af þeim til að framfleyta fjölskyldum sínum. Sú vanvirðing sem þessum störfum er sýnd er arfleifð megnrar kvenfyrirlitningar kapítalísks hagkerfis og bitnar nú á hverjum þeim sem inna þau af hendi.

Stofnanir samfélagsins og öll þjónusta við fólk er til lítils ef það er ekki aðgengilegt fólkinu í landinu. Efnahagsleg misskipting veldur útilokun og jaðarsetningu og hindrar aðgengi fólks að hvers kyns þjónustu sem það þarf á að halda. Öll gjaldtaka í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu getur bókstaflega kostað fólk lífið og er því óásættanleg. Sósíalískir femínistar krefjast því gjaldfrjálsrar þjónustu í öllum kerfum.

Börn eru viðkvæmasti hópur samfélagsins en jafnframt hinn mikilvægasti. Ásamt því að vera okkar siðferðilega skylda er það einnig hagur okkar til framtíðar að búa vel að börnum og tryggja velferð þeirra í hvívetna. Til að skapa börnum sem besta framtíð er mikilvægt að taka menntakerfið til gagngerrar endurskoðunar. Við þurfum lausnamiðað nám þar sem börn fá að blómstra á eigin forsendum í samvinnu við hvert annað. Menntun og námsefni þarf að endurspegla það samfélag sem við viljum búa í og búa börn undir lífið framundan ekki síður en til frekara náms. Skólinn þarf einnig að vera raunverulega stéttlaus og án aðgreiningar, þar sem þjónusta við börn er aðgengileg og á þeirra forsendum en ekki forsendum atvinnulífsins. Börnum þarf að tryggja rödd í samfélaginu og að á þau sé hlustað. Einnig er það óboðlegt að þau búi við fátækt og valdaleysi, ofbeldi eða vanrækslu. Því þarf að tryggja að barnafjölskyldur búi við viðunandi fjárhagsaðstæður.Velferðar-, heilbrigðis-, umönnunar- og skólakerfið okkar verður að veita almennilega vernd gegn kynferðisofbeldi og hvers kyns vanrækslu barna.

Við viljum lifa í sátt við náttúruna og lífríki jarðarinnar, enda er slík sátt og virðing fyrir umhverfi okkar lykillinn að lífvænlegri framtíð komandi kynslóða. Kapítalismi og nýfrjálshyggja eru sökudólgar þeirra umhverfisógna sem við búum við í dag en framleiðsluaðferðir kapítalismans bera ábyrgð á þeirri hamfarahlýnun sem nú á sér stað. Við mótmælum því að ábyrgðin á níðingsskap gagnvart náttúrunni sé skellt á einstaklinga á meðan stórfyrirtæki fría sig ábyrgð. Hnattvæðing kapítalismans hefur flutt framleiðslu sína á svæði þar sem laun eru lág, níðst er á fólki, sérstaklega konum og börnum, verkalýðsfélög bönnuð, reglugerðir um starfsöryggi og umhverfisvernd eru veikar og heilu þjóðarbrotin misnotuð og hlunnfarin. Umhverfisvernd og vistvænir lifnaðarhættir eru því órjúfanlegur hluti baráttu okkar.

Friður er lykillinn að því að allt fólk búi við mannréttindi og er hvers kyns hernaðarbrölt beinlínis brot á þeim. Stríð valda hörmungum fyrir saklaust fólk og bitnar oft á konum og börnum á meðan ávinningur er einungis í þágu þeirra sem fóðra ofbeldið og blóði drifna vasa auðvaldsins. Hernaður veldur því að fólk neyðist til að yfirgefa heimkynni sín og er einn stærsti sökudólgurinn í hinum svokallaða „flóttamannavanda” ásamt eyðileggingu náttúrunnar og yfirtöku auðvaldsins á náttúruauðlindum. Þátttaka okkar í hernaðarbandalögum og alheimskapítalisma gerir okkur samsek. Ef auðvaldið og herir þess virða ekki landamæri er ekki hægt að ætlast til að fátækt fólk lúti takmörkum þeirra. Við erum öll ábyrg fyrir því að bjóða fólk velkomið sem þarf að yfirgefa heimkynni sín til að tryggja eigið öryggi og framtíð fyrir fjölskyldur sínar.

Sósíalískir femínistar hafna öllum tilburðum nýfrjálshyggjunnar til að eigna sér kvennabaráttuna undir formerkjum einstaklingshyggju. Þó leyfum við okkur að fagna sigrum einstaklinga úr minnihlutahópum sem hljóta brautargengi innan kapítalismans. Þeir sigrar tengjast stéttabaráttunni óhjákvæmilega eins og við skilgreinum hana með tilliti til allra sinna innri þátta svo sem kyns, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, húðlitar, getu, líkamlegs eða andlegs atgerfis, menntunar, trúar, uppruna, og fleira sem áður hefur verið upp talið. Þeir sigrar hafa þó haft takmarkaða þýðingu fyrir þær kerfisbreytingar sem við sækjumst eftir því sigur á forsendum kapítalismans, sem í eðli sínu er kúgandi kerfi, er ekki fullnaðarsigur í okkar augum heldur einungis hvatning til að halda áfram baráttu okkar fyrir endalokum hans. Jafnrétti verður ekki náð innan kapítalísks skipulags og allar málamiðlanir eru ófullnægjandi.

Valdastrúktúr sem ýtir undir ofbeldi gegn konum hefur í gegnum árin orðið beinlínis að stríði gegn þeim. Alltof stórt hlutfall kvenna hefur upplifað ofbeldi og jafnvel fallið í því stríði. Ákveðnir samfélagshópar búa einnig við raunverulega ógn, verða fyrir ofbeldi, hótunum og hatursorðræðu og fá síður réttláta meðferð í samfélaginu innan löggæslu og réttarkerfa heimsins. Innan okkar raða, og með samstöðu, rúmast mannréttinda- og stéttabarátta allra þessara hópa. Það er til að mynda transfólk, kynsegin og hinsegin fólk, fólk af erlendum uppruna, hörundsdökkt fólk, fatlað fólk, múslimar, fólk í fátækt og fleiri jaðarsettir hópar. Sú ógn er ólíðandi í öllum þeim myndum sem hún birtist og er það skýlaus krafa okkar að allt fólk hafi rétt á að lifa í frelsi frá ofbeldi. Þá skal enginn sæta ofsóknum eða hatursorðræðu, rasisma eða kvenfyrirlitningu af nokkru tagi. Engin manneskja á að þurfa að búa við ofbeldi á eigin heimili og er húsnæðisöryggi ásamt félagslegu og fjárhagslegu sjálfstæði lykillinn að því. Engin manneskja á að þurfa að sætta sig við að vera annarri manneskju háð um lífsnauðsynjar eða umönnun. Sósíalískir femínistar fordæma einnig ofbeldi af hálfu ríkis og stofnana gagnvart fólki sem þarf á hjálp að halda.

Stéttabaráttan þarf að ná yfir margþætta mismunun og vera háð á breiðum grundvelli þar sem ólíkir hópar fólks taka höndum saman. Sósíalískur femínismi er barátta í þágu allra hópa samfélagsins sem hafa orðið undirskipaðir í þjóðskipulagi kapítalismans þar sem hinn sterki og freki hefur yfirhöndina. Samfélag sem hampar hinum sterka en smánar hinn veika getur aldrei orðið gott samfélag. Allt fólk er mikilvægt og á að hafa rými, rödd og tilgang í samfélaginu.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram