Frían aðgang í strætó fyrir þau sem fá fjárhagsaðstoð
Tilkynning
15.03.2021
Lagt er til að þeim sem hafa fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar til framfærslu standi til boða að fá frítt í strætó. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, getur numið allt að 212.694 krónum á mánuði fyrir skatt. Upphæðin er breytileg eftir búsetuformi, þar sem hún lækkar ef viðkomandi rekur ekki eigið heimili. Þar er t.a.m. átt við þá einstaklinga sem búa með öðrum, leigja húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hafa ekki aðgang að húsnæði. Í þeim tilfellum er grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar 179.206 krónur. Þegar litið er til upphæða fjárhagsaðstoðar er ljóst að erfitt er að láta heildarmyndina ganga upp með tilliti til framfærslukostnaðar.
Fjárhagsðastoð til framfærslu er veitt þeim sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Til að létta undir með þeim sem hafa ekki í annað að leita er lagt til að boðið verði upp á gjaldfrjálst í strætó þar sem samgöngukostnaður getur verið hár þegar einstaklingar hafa lítið á milli handanna. Sósíalistaflokkur Íslands í borgarstjórn hefur áður lagt til að upphæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð en slíkt hefur ekki hlotið brautargengi og því er lagt til að stuðningurinn komi til tekjulágra borgarbúa með þessum hætti. Mikilvægt er að fólk geti auðveldlega komist á milli staða og að efnahagslegar þrengingar standi ekki í vegi fyrir slíku.
Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig ætlast er til þess að fólk framfleyti sér á þeim upphæðum sem fjárhagsaðstoðin miðast við. Möguleikar fólks til þess að taka fullan þátt í samfélaginu skerðast um leið og fjármagnið er af skornum skammti. Þegar tekjurnar duga ekki fyrir þeim þáttum sem teljast til grunnþátta í framfærslu bitnar það á einhverju þar sem fólk neyðist til að neita sér um hluti. Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem borgarbúar hafa ekki nægar tekjur til að mæta öllum helstu útgjaldaliðum.
Fyrri tillögur borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um hækkun á upphæð fjárhagsaðstoðar hafa ekki verið samþykktar og því er lagt til að þau sem hafa tekjur sínar frá fjárhagsaðstoð borgarinnar standi til boða að sækja um gjaldfrjálsa strætómiða og/eða strætókort.
Mánaðarkort í strætó kostar nú 13.330 krónur sem er stór biti af þeirri upphæð sem fjárhagsaðstoðin nemur. Þegar fólk hefur ekki tök á því að komast leiða sinna, getur slíkt leitt til félagslegrar einangrunar. Ef einstaklingur hefur ekki efni á því að leggja út fyrir mánaðarkorti eða öðrum tímabilskortum og greiðir stakt verð í strætó, þá kostar ferðin 490 krónur. Ef ekki er hægt að komast til baka á skiptimiðanum þá getur ferðin kostað tæpar 1.000 krónur. Skiljanlega hefur fólk með lítið á milli handanna ekki ávallt færi á að leggja út fyrir því. Það getur myndað mikið álag að þurfa að lifa á lágum fjárhæðum og því er mikilvægt að efnahagsleg staða standi ekki í vegi fyrir að fólk geti ferðast auðveldlega um borgina og á milli staða.