Páskahugvekja frá reykvískum rauðliða

Símon Pistill

„Sko setningin er svona: Ég hata ég elska þig, ég elska ég hata þig, ég elska að hata þig, ég elska að elska þig ég hata að hata þig – þetta er flókið mál.“

Svona lýsti leikstjórinn Egill Heiðar Anton Pálsson „ástinni“ sem er viðfangsefni uppfærslu hans á leikritinu „Hver er hræddur við Virginiu Woolf?“ í Borgarleikhúsinu í ársbyrjun 2016. Þeim sem hafa séð verkið kemur örugglega ekki á óvart þegar ég segist hafa farið heim af því með óbragð í munninum. Að horfa á eiginmann og eiginkonu beita hvort annað andlegu ofbeldi í návist yngra pars í tvo til þrjá klukkutíma opinberar ýmislegt um sálarlíf þeirra, baksögu og lífsviðhorf en segir engum neitt um „ást“. Þess vegna skellti ég upp úr þegar ég heyrði út undan mér ummæli sálfræðings þess efnis að fólk sem væri farið að tala við hvort annað eins og hjónin í leikritinu ætti að halda hvort í sína áttina.

Eins og að segja: „Sá sem stendur undir hrapandi píanói ætti að færa sig aðeins.“

Þetta rifjaðist enn upp fyrir mér þegar Malcolm & Marie kom út á Netflix. Samhengið er annað og leikendurnir eru aðeins tveir en umfjöllunarefnið er nokkurn veginn hið sama: „ást“ sem er svo „flókið mál“ að fólk hangir saman þrátt fyrir að vera farið að rífa hvort annað niður.

Gubb.

En þessi pistill snýst ekki um beyglaðar hugmyndir menningar okkar um rómantík heldur það sem hrjáir ofangreindar sögupersónur og alltof mörg okkar. Afstöðu sem er sannkallað sambandskrabbamein, ekki bara í ástarsamböndum heldur einnig í samfélagsumræðunni:

Fyrirlitning.

Þegar elskendur byrja að fyrirlíta hvor annan þá liggur leiðin aðeins niður á við. Hið sama á við um fólk almennt. Ég hef alltaf haft ímugust á blaðri um að „kurteisi“ vanti í pólitíska orðræðu og þeirri efristéttarfirru að engin þörf sé á heitum tilfinningum þegar rætt er um efnahagsmál. Pólitík snýst um það hver fær hvað og það hlýtur að teljast ansi óalgeng forréttindastaða að geta verið yfirvegaður yfir því hvað verður um innviði og fjárhagslegt öryggisnet þjóðarinnar. En fyrirlitning hjálpar engum.

Til dæmis er það nokkuð þunnildislegur skilningur á fyndni að segja að valdatíð nýfráfarins Bandaríkjaforseta hafi verið fjögurra ára óslitinn brandari. Hversu lengi nennir maður að hæðast að illa gefnum og illa innrættum manndrýsli sem hefur ekkert af viti fram að færa og sýnir aldrei minnsta vott af samkennd? Slíkt háð getur aldrei byggt á neinu öðru en botnlausri fyrirlitningu og sú tilfinning er ætandi. Ég er viss um að fleiri en ég fengu slíkt ógeð á alþjóðlegum fréttaflutningi á þessum árum að þeir gátu vart séð bandarískan fána án þess að fá klígju.

Það sem eftir stendur er samt fyrirlitningin. Þegar talað er um fylkingarnar sem tröllríða netumræðunni sem „góða fólkið“ og „hrædda fólkið“ er fyrirlitningin á báða bóga svo þykk að vart er hægt að anda henni að sér án þess að fá hóstakast. Það þarf engan rannsóknarblaðamann til að komast að því hvora fylkinguna ég samsama mig frekar við – eða hvor mér finnst sekari í þessum efnum – en það er helst tvennt sem gerist þegar umræðan fer að snúast svona hart um manngildi fremur en málefni:

Orðalagið verður egóistískt og röksemdirnar forheimskast fyrir vikið.

Öll bjartsýni fer líka út um gluggann.

Hvaða máli skiptir bjartsýni? Engu ef við erum innvígðir og innmúraðir meðlimir í klúbbi mannhatursins. Ef við lítum svo á að fólk sé fífl, að syndin sé í blóðrásinni og að mannkyninu sé ekki við bjargandi þá er engin ástæða til að vonast til neins, trúa á neitt eða berjast fyrir neinu. Svoleiðis níhilismi er ekki hugmyndafræði eða aðgerðagrundvöllur nema fyrir þá sem vilja samfélag á borð við þriðja ríkið, Óseaníu Orwells eða rafhlöðuakrana í Matrixinu.

Sem manneskjur missum við aldrei sjónar á því nema tímabundið að við elskum fólk, sama hversu heimskuleg, rætin eða mannfjandsamleg athugasemd berst okkur frá varðhundum auðvalds og/eða alræðis. Kannski er listinn yfir þá sem maður lítur á sem ástvini eða fjölskyldumeðlimi ekki langur en innst inni vitum við að allir elska með sömu ástinni, syrgja með sömu sorginni og hverfa á endanum aftur til sömu jarðarinnar. Notum því þessa ævafornu upprisuhátíð til að minna okkur á að eini drifkrafturinn í lífinu sem er einhvers virði er kærleikurinn.

Hann er botnlaus auðlind.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram