Stefnuyfirlýsing stéttahóps sósíalista

Katrín Baldursdóttir Frétt

Mannsæmandi líf fyrir alla er höfuðinntak í stefnu Stéttahóps sósíalista. Útrýming fátæktar meðal hinna vinnandi stétta, öryrkja, eftirlaunafólks, innflytjenda, einyrkja, bænda og eigenda smærri fyrirtækja sem og gott húsnæði og aðstæður til að lifa góðu og heilbrigðu lífi er grunnforsenda velfarnaðar í þjóðfélaginu. Við viljum lýðræðisvæða vinnustaðina og annað það sem ákvarðar lífsafkomu fólks. Við viljum að fólk eigi stóran þátt í að ákvarða hvernig aðstæður það býr við, hvaða reglur og viðmið skuli gilda og hvernig kökunni er skipt á milli manna. Breyta þarf lögum þannig að öllu ofbeldi á vinnustöðum og annars staðar verði útrýmt. Eftirfarandi eru helstu stefnupunktar:

 • Aukinn jöfnuður á milli stétta.
 • Aukin valdefling almennings og lýðræðisvæðing.
 • Aukin völd verkalýðshreyfingarinnar.
 • Aukin réttindi launafólks með nýjum lögum.
 • Aukin völd hagsmunasamtaka örkyrkja, leigjenda, neytenda og eftirlaunafólks.
 • Aukin áhersla á stofnun samvinnufélaga í eigu starfsfólks.
 • Aukin áhersla á að komið verði í veg fyrir svokallað Starfsgetumat öryrkja.
 • Aukin áhersla á almenna velferð með gjaldfrjálsu velferðarkerfi í víðum skilningi.
 • Aukin völd til smáútgerðarinnar og afnám kvótakerfisins í núverandi mynd.
 • Aukinn réttur byggðanna í landinu
 • Aukin völd til bænda og afnám sterkrar stöðu milliliða í landbúnaði.
 • Aukin réttindi eftirlaunafólks á vinnumarkaði og hjá stéttarfélögum.
 • Aukin áhersla á útrýmingu launaþjófnaðar, mannsals og hvers kyns ofbeldis.
 • Aukinn þungi settur í að tryggja keðjuábyrgð atvinnurekenda á vinnumarkaði.
 • Aukin áhersla á andstöðuna við Salek/Gænbók

Nú vofir yfir sú hætta að stjórnvöld ætli sér að koma bakdyramegin inn með Salek í formi Grænbókar. Stéttahópur sósíalista hafnar alfarið Salek eða hvaða nafni sem það nefnist. Ástæðan er sú að með því kerfi mun samningsréttur launafólks og verkalýðsfélaga verða stórkostlega skertur og örfáum fært óeðlilega mikið vald til að fjalla um breytingar á kjörum launafólks. Salek stendur fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga þar sem nefnd skipuð sérfræðingum tekur ákvarðanir um launahækkanir, og eða hvað mikið svigrúm er til kjarabóta. Þetta á allt að gera í huggulegum samræðum við atvinnurekendur. Salek er einhliða tól til að halda lægri- og meðallaunum í skefjum. Salek leggur á láglaunafólk að bera ábyrgð á stöðugleika. Mikil andstaða hefur komið fram við Salek en nú virðist ríkisstjórnin vera að reyna að troða því aftur inn með nýju nafni eða Grænbók.

Stéttahópur sósíalista hafnar líka alfarið Starfsgetumati. Stjórnvöld eru hins vegar mjög spennt fyrir því. Það beinist að öryrkjum og markmiðið er að meta hversu mikið þeir geta starfað á vinnumarkaði og skerða bæturnar sem því nemur. En starfsgetumat á Íslandi er úlfur í sauðagæru þegar farið ofan í saumana á málinu. Hvers vegna? Í fyrsta lagi vegna þessa að íslenskur vinnumarkaður er langt frá því tilbúinn fyrir breytingu af þessu tagi og í öðru lagi vegna þess að fótunum verður kippt undan öryrkjum ef veikindi taka sig upp aftur. Ef þeir svo missa vinnuna þá bíður ekkert annað en atvinnuleysisbætur. Síðan verða þeir að stóla á aðstoð sveitarfélaganna ef þeir fá ekki aftur vinnu eða geta ekki unnið vegna veikinda.

Aukin völd til almennings og lýðræðisvæðing fyrirtækja er algjör grundvöllur fyrir því að hægt sé að ná því markmiði að allir geti lifað mannsæmandi og góðu lífi á Íslandi. Stefna Sósíalistaflokks Íslands fjallar um þetta og þar segir: “Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðir stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.” Og í stefnunni stendur líka: “Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið
og handbendi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu. Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því.” Þetta lýsir vel stefnumiðum Stéttahóps sósíalista.

Auka þarf stórlega vald verkalýðshreyfingarinnar. Forsendurnar sem vald hennar byggir á eru eldgömul og úrelt lög frá 1938. Það viðgengst að verkalýðshreyfingin er ekki höfð með í ráðum þegar teknar eru mikilvægar efnahagslegar ákvarðanir sem varða kjör launafólks. Öryrkjar og eftirlaunafólk er líka haft útundan en þetta fólk hefur langflest verið á vinnumarkaði og margt útbrunnið eftir mikið vinnuálag. Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin sé fulltrúi 200 þúsund manna sem eru á vinnumarkaði hefur hún verið of þrælslunduð gagnvart Samtökum atvinnurekenda og stjórnvöldum. Vísir að endurreisn hefur þó farið fram með beittari áherslum, en ennþá er staða verkalýðshreyfingarinnar alltof veik. Það telur stéttahópur sósíalista algjörlega óviðunandi. Eins og staðan er núna geta hinar vinnandi stéttir lítið gert á milli kjarasamninga, eru fangar í friðarskyldu, sem gengur út á að launafólk geti nánast ekkert aðhafst þó aðstæður á vinnumarkaði og í þjóðfélaginu kalli á aðgerðir. Verkföll eru bönnuð og vinnustöðvanir. Sú grunnhugsun ríkir í þjóðfélaginu, líka innan verkalýðshreyfingarinnar, að eðlilegt sé að staða atvinnurekenda á vinnumarkaði sé mun sterkari en launafólks. Birtingarmynd slíkra viðhorfa endurspeglast í því þjóðskipulagi sem við lifum í þar sem atvinnurekendur hafa tögl og hagldir. Þessu verður að breyta.

Að mati Stéttahóps sósíalista nýtir verkalýðshreyfingin alls ekki nægilega vel mátt sinn og megin til að sækja sér þau völd sem duga til að bæta hag launafólks, öryrja og eftirlaunafólks. Verkalýðshreyfingin á Íslandi er fjárhagslega vel stæð fjöldahreyfing launafólks með sterkt skipulag og hæft starfsfólk og hefur þær bjargir sem þarf til að tryggja völd sín á þann hátt að engin lög séu sett, engin frumvörp samþykkt eða reglugerðir eða neitt það ákveðið sem varðar líf og afkomu hinna vinnandi stétta án þess að verkalýðshreyfingin móti þær ákvarðanir. Engin önnur fjöldahreyfing á Íslandi býr yfir sterkari björgum en verkalýðshreyfingin.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram