Auðlindirnar til almennings

Ritstjórn Frétt

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021: Fjórða tilboð til kjósenda lagt fram um hvítasunnu:

SÓSÍALÍSK SKATTASTEFNA III. HLUTI:
AUÐLINDIRNAR TIL ALMENNINGS

Landsmönnum hefur löngum verið ljóst að forsendur þess að hér verði byggt upp öflugt og gott samfélag sé að þeim tækist að nýta auðlindir lands og sjávar. Um þetta snerust þorskastríðin, að ná sjávarauðlindinni af erlendum útgerðarfyrirtækjum svo hún gæti orðið aflvaki nýs samfélags. Um þetta snerist líka uppbygging Landsvirkjunar á sínum tíma og þar áður rafmagnsveitna og hitaveitna. Markmiðið var alltaf að auðlindirnar yrðu grunnur að kröftugu og traustu samfélagi.

Allt fram að nýfrjálshyggjuárunum var auðlindanýtingin samfélagslegt verkefni. Sveitarfélög byggðu upp rafmagns- og hitaveitur og ríkiðvaldið síðar Landsvirkjun. Og ríkisvaldinu var beitt til að ná fiskimiðunum undir íslenska lögsögu. Markmiðin voru samfélagsleg, að færa fjölskyldum og fyrirtækjum rafmagn og hita, að skapa atvinnu til að styrkja samfélagið, útflutningstekjur til að afla gjaldeyris og að treysta byggð um allt land.

Með nýfrjálshyggjunni breytist þetta. Sjávarauðlindin var nánast einkavædd með framkvæmd kvótakerfisins. Niðurstaða þorskastríðanna varð því ekki sú að arðurinn af auðlindum hafsins hríslaðist um samfélagið og yrði undirstaða samfélagsuppbyggingar heldur rann arðurinn til örfárra fjölskyldna sem urðu á skömmum tíma að einskonar erfðastétt auðfólks sem drottnar yfir landinu. Margar sjávarbyggðir misstu kvótann frá sér í braski útgerðarmanna og hafa síðan skroppið saman, sumar eru enn í dag aðeins skugginn af sjálfum sér.

Orkuauðlindirnar voru hlutafélaga-, markaðs- og arðsemisvæddar og opinber orkufyrirtæki einkavædd eða rekstrarformi þeirra breytt og samfélagsleg markmið aflögð svo þau hegða sér í dag nákvæmlega eins og arðsækin einkafyrirtæki.

Auðlindin sem býr í náttúru landsins, sögu og mannlífi varð að peningauppsprettu með fjölgun ferðafólks. En nýting hennar hefur verið taumlaus og að mestu án eftirlits og aðhalds. Sama á við um spillingu náttúru- og loftgæða. Í stað þess að verja þessar auðlindir og náttúrugæði hefur hinum svokallaða markaði verið falið að stjórna nýtingu þeirra. Og sú nýting einkennist annar vegar af ofnýtingu og ágengni á náttúrugæði og hins vegar að arðsæknum rekstri sem hefur það eitt markmið að færa eigendum fyrirtækjanna arðinn af auðlindunum.

Sósíalistar hafna þessari stefnu. Þeir hafa ekki trú á að arðsemiskrafa markaðsfyrirtækja geti stjórnað auðlindanýtingu almennings. Auðlindirnar eru sameign og með þær á að fara í því ljósi. Auðlindirnar eru almannagæði sem hvorki á að selja hæstbjóðandi né nýta fyrst og síðast til að skapa arð fyrir hin fáu. Almannagæði og auðlindir á að nýta sem stoðir undir samfélagið allt, láta nýtingu þeirra þjóna samfélagsheildinni.

Sósíalistar munu leggja fram sérstakt tilboð til kjósenda varðandi auðlindanýtingu, loftslags- og umhverfisvernd; en hér verður ekki hjá því komist að fjalla um auðlindagjöld og nýtingu auðlinda í tengslum við sósíalíska skattastefnu.

III. Auðlindirnar til almennings:
Sjávarauðlindin var einkavædd

Yfirráð yfir auðlindum hafsins eru forsenda þess að hér sér hægt að byggja upp öflugt og traust samfélag. Baráttan fyrir þessum yfirráðum einkenndu fyrstu áratugi fullveldis og síðan lýðveldis, og er landhelgin og fiskveiðilögsagan án vafa stærstu sigrar hins unga lýðveldis. Markmiðið þessarar sjálfstæðisbaráttu var að nýta auðlindir hafsins svo þær gætu orðið aflvaki samfélagslegrar uppbyggingar.

Framan af gekk þetta eftir. Nýting sjávarauðlindarinnar byggði upp samfélög hringinn í kringum landið og var forsenda fyrir hröðum vexti atvinnulífs, uppbyggingu innviða og grunnkerfa samfélagsins; mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfa. Fyrstu áratugi lýðveldistímans var þessi uppbygging leidd af hinu opinbera, ekki bara með forystu um útvíkkun landhelginnar heldur líka með atvinnustefnu sem gat af sér samvinnurekstur, bæjarútgerðir og annan félagslegan rekstur með samfélagsleg markmið. Á uppgangstíma sjávarútvegsins var meirihluti útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja í félagslegum rekstri.

Með tilkomu kvótakerfisins og framkvæmd þess umbreyttist greinin og þar með nýting auðlindanna og ráðstöfun arðsins af þeim. Í dag hefur sjávarauðlindin í reynd verið einkavædd. Hún er fyrst og fremst undir stjórn örfárra ofurauðugra fjölskyldna, sem drottna yfir veiðum, vinnslu og sölustarfi; allt frá óveiddum fiski að sölu afurða í útlöndum.

Þessi valdasamþjöppun hefur snúið draum hins unga lýðveldis upp í martröð. Í stað þess að auðlindin yrði aflvaki öflugs og valddreifðs samfélags siglir það nú inn í alræði ofurríkrar erfðastéttar sem fer sínu fram í krafti auðs og valda meðan almenningur hefur æ minni stjórn yfir þróun samfélagsins. Fjöldi sjávarbyggða hefur misst aðgengi sitt að fiskimiðunum sem byggðu þær upp, þær töpuðu þeim á braskborði stórútgerðarinnar. Arðurinn af auðlindunum hríslast ekki lengur um samfélagið heldur endar í vasa hinna fáu og ofsaríku, sem nýta auð sinn ekki til uppbyggingar samfélagsins heldur til að kaupa upp önnur fyrirtæki, bæði innan sjávarútvegsins og í óskyldum greinum. Í stað þess verða aflvaki fjölbreytts og valddreifðs samfélags fullt af tækifærum og nýsköpun hefur sjávarauðlindin verið nýtt til að byggja upp ofurvald hinna örfáu.

Stærsti sigur hins unga lýðveldis varð á endanum stærsti ósigur þess. Barátta almennings fyrir að losna undan auðlindaráni útlendra útgerða og yfirráðum fjarlægs yfirvalds færði hann á endanum undir ógnarvald örfárra auðkýfinga, sem auðgast hafa stórkostlega á að nýtingu auðlinda sem að nafninu til eru eign almennings.

Meginmarkmið sósíalista er að brjóta niður vald hinna auðugu yfir samfélaginu og endurheimta auðlindir almennings. Markmiðið er ekki að viðhalda óbreyttu ógnarkerfi hinna fáu heldur að færa yfirráðin yfir kvótanum aftur til byggðanna svo þær geti nýtt auðlindirnar til að byggja upp að nýju fjölbreytta atvinnustarfsemi og blómlegt samfélag.

Það er ekki markmið sósíalista að láta sjávarútveginn þróast áfram með sama hætti og hingað til, að greinin samanstandi fyrst og síðast af örfáum risafyrirtækjum sem hafi það eitt markmið að hámarka arðgreiðslur til eigenda sinna. Því var trúað á nýfrjálshyggjuárunum að þetta væri leiðin, að arðsemi fyrirtækja væri eina leiðarljós atvinnuuppbyggingar, það hversu mikið fé eigandinn gæti dregið til sín upp úr rekstrinum. Til að ná þeim árangri var stefnt að sem mestri samþjöppun og skilvirkni, að halda niðri launum starfsfólk og heildarlaunakostnaði með sjálfvirknivæðingu og að ná tökum á allri virðiskeðjunni til að geta stjórnað því hvar hagnaðurinn endaði. Þegar þessum markmiðum var náð tók rekstur félagana að snúast um hvernig komast mátti hjá skattgreiðslum, hvernig lækka mætti hlut sjómanna, hvernig hægt var að hámarka hag eigandans sem mest án nokkurs tillits til þess hvaða afleiðingar það hafði fyrir umhverfi, samfélag, starfsfólk eða viðskiptavini.

Það er almennt viðurkennt um allan heim að þessi stefna, að einblína á arðgreiðsur til eigenda, sé afleitt leiðarljós í fyrirtækjarekstri. Hún leiðir til lakari og veikari fyrirtækja, sem hafa í reynd snúist gegn samfélaginu. Við Íslendingar vitum allt um það. Það nægir að segja eitt orð til að skýra afleiðingar þessarar stefnu: Samherji.

Niðurbrot stórfyrirtækjanna í sjávarútvegi er því ekki bara lýðræðisleg nauðsyn, vörn gegn því að hér byggist upp alræði örfárra auðugra fjölskyldna, heldur er það líka skynsamleg atvinnustefna. Reynslan sýnir að smærri fiskvinnslufyrirtæki sem kaupa fisk á markaði fara betur með hráefnið og fá hærra afurðaverð á erlendum markaði en stórfyrirtækin sem eiga alla virðiskeðjuna og hafa aðlagað hana að því að hámarka arð eigandans. Það er ekki alltaf í hag hans að fá hæsta verð á markaði fyrir afurðina. Það má vel vera að hann auðgist meira af því að búa til ódýrari vöru með lægri launakostnaði. Eða með því að selja sjálfum sér ódýrt úr landi og ná síðan að auka arð sinn  með því að selja áfram á enn hærra verði. 

Niðurbrot stórfyrirtækjanna er því líka klók leið til að hámarka arð samfélagsins af auðlindinni. Hann eykst við valddreifingu, verður meiri þegar klippt er milli veiða og vinnslu og þegar komið verður í veg fyrir að eigendur stórfyrirtækja geti falið hagnaðinn í aflöndum. 

Þróun sjávarútvegs á Íslandi undanfarna áratugi er í raun dæmi um fjármálavæðingu atvinnulífsins. Öll greinin hringsnýst um fjármálagjörninga og ávöxtun á eignum eigenda þeirra en miklu síður um hámarksnýtingu auðlindanna. Í upphafi nýfrjálshyggjunnar var því haldið fram að þetta færi ætíð saman, en því trúir ekki nokkur maður lengur. Reynslan hefur afhjúpað hvert þessi stefna leiðir. Eftir sem áður er þessi sama stefna rekin áfram hérlendis, þótt hún sé hugmyndalega gjaldþrota. Ástæðan er að þetta er stefna sem hámarkar hag hinna ofsaríku og auði þeirra fylgir mikið vald. Eina leiðin til að stöðva þessa helstefnu er því að taka völdin af auðvaldinu, að almenningur nái völdum yfir ríkisvaldinu og setji sjávarútveginum stefnu sem þjónar samfélaginu en ekki aðeins hinum fáu ríku og valdamiklu.

Að þessu sögðu þarf varla að taka fram að sósíalistar styðja ekki þá hugmynd að sjávarútvegurinn verði áfram rekinn með sama sniði, hafi það eitt markmið að hámarka auð örfárra fjölskyldna, en að veiðigjöld verði hækkuð. Þetta er tillaga um að almenningur verði samverkamaður hinna auðugu fjölskyldna, fái greitt fyrir að gefa þeim eftir allt vald yfir auðlindum sínum. Vandi sjávarútvegsins verður ekki leystur með stórútgerðinni því stórútgerðin er vandi sjávarútvegsins.

Tillaga sósíalista gengur út á að innleiða fjölbreytni og valddreifingu að nýju inn í nýtingu fiskimiðanna. Eins og koma mun fram í tilboði sósíalista til kjósenda um auðlindastefnu leggja sósíalistar til frjálsar handfæraveiðar og stuðning við smárekstur, uppbyggingu fiskmarkaða og uppbyggingu innviða sem þjóna smærri aðilum, bæta nýtingu, gæði og verð. En megintillagan er að færa yfirráð yfir kvótanum út í byggðirnar sem þá munu leita ólíkra leiða til að nýta auðlindina sem best fyrir samfélagið.

Sósíalistar eru því að leggja til valddreifðan, opinn, lýðræðislegan og fjölskrúðugan sjávarútveg í stað hins lokaða og ólýðræðislega kerfis stórfyrirtækjanna. Það er vert að íhuga þetta. Óheftur kapítalismi hefur nefnilega ekki fært okkur fjölbreytileika og valddreifingu eins og lofað var, heldur miðstýrt ógnarvald örfárra stórfyrirtækja, kerfi sem kalla má alræði auðvaldsins og sem er ekkert síður hættulegt en annað alræði.

Að því sögðu er rétt að taka fram að í auðlindatilboði sósíalista er gert ráð fyrir auðlindaleigu sem rennur í sameiginlega sjóði. Það gjald verður innheimt við hafnarbakkann, er gjald fyrir notkun á auðlindinni og rennur til samfélagslegrar uppbyggingar. Þótt að það gjald verði lægra en verð á leigukvóta í dag, auðlindagjald sem smáar kvótalausar útgerðir greiða kvótagreifunum, þá mun það skila margfalt meiri fjármunum í sameiginlega sjóði en veiðigjaldið gerir í dag.

III. Auðlindirnar til almennings:
Orkuauðlindirnar voru arðsemisvæddar

Uppbyggingu Hitaveitu Reykjavíkur eru eitt af afrekum Íslendinga. Í stað þess að brenna kol var borað eftir heitu vatni og byggt upp nýtt hitakerfi um allan bæ og síðar í nágrannabyggðum. Þetta var samfélagslegt verkefni sem af stærð, framsýni og getu var langt umfram það sem einkafyrirtæki réðu við. Hitaveitan sparaði gjaldeyri og losaði Reykjavík við óhollustu kolaryks og kolareyks. Uppbygging Hitaveitunnar ætti að vera landsmönnum fyrirmynd um frábæra auðlindanýtingu með samfélagsleg markmið.

Samhliða Hitaveitunni voru byggðar upp vatnsveitur og rafmagnsveitur með sama hætti og sömu markmiðum. Almenningur tók sameiginlega lán og greiddi viðunandi verð fyrir orkuna svo veiturnar stæðu undir lánunum. Framtíðarsýnin var sú að með tíð og tíma væri framkvæmdakostnaðurinn greiddur niður og Reykvíkingar og nærsveitafólk gæti þá búið við ódýra, örugga og umhverfisvæna orku til allrar framtíðar.

Ævintýrið endaði ekki svona vel. Þegar komið var inn á nýfrjálshyggjuárin varð sú stefna ofan á að nýta ætti góða fjárhagsstöðu veitnanna til að fara út í nýjar virkjanir og selja orkuna stóriðjuverum. Forsendan var ekki sú að það vantaði atvinnu heldur höfðu veiturnar þarna breytt um eðli, voru ekki lengur fyrirtæki almennings sem rekin voru með samfélagslegum markmiðum heldur þátttakandi, í raun stórleikari, á kapítalískum orkumarkaði. Og sem slíkur hafði Orkuveitan aðeins eitt markmið; að stækka til að geta búið til meiri hagnað. Þetta var á þeim árum að fyrirtæki sem gat aukið hagnað sinn hlaut að vera á réttri leið. Peningar voru mælikvarði alls.

Við þekkjum öll endinn á þessari sögu. Þetta er harmsaga. Fyrrum krúnudjásn Reykjavíkur, Hitaveitan og Rafmagnsveitan, eru nú skammarblettur á borginni. Höfuðstöðvar fyrirtækisins margar milljarða minnismerki um sjálfbirgingshátt og snobb. Og svimandi skuldir fyrirtækisins eru myllusteinn um háls borgarbúa. Til að bjarga Orkuveitunni frá gjaldþroti eftir Hrun þurftu borgaryfirvöld að snarhækka gjaldskránna. Borgarbúar sem ættu í dag að búa við ofgnótt af ódýrri orku þurftu að borga orkuveituna út úr skuldafangelsi með hærri orkureikningum.

Þessi saga er hér sögð til að lýsa hvernig hugmyndir yfirvalda um orkuauðlindina snarbreyttust á nýfrjálshyggjutímanum. Sósíalistar vilja hverfa aftur til fyrri hugmynda; um að auðlindirnar séu notaðar til að byggja upp gott samfélag en séu ekki settar inn í opinber hlutafélög sem hegða sér eins og þau væru arðsemisdrifin fyrirtæki í eigu kapítalista með gróðann einan að markmiði.

Sósíalistar hafa líka markað þá stefnu að allar orkuauðlindir skuli vera almenningseign og í opinberum rekstri ef frá eru skyldar borholur og smávirkjanir sem fólk byggir til eigin þarfa. Orkukerfið er grunnkerfi samfélagsins og uppbygging þess og rekstur skal vera á samfélagslegum grunni og með samfélagslegum markmiðum.

Meginnýting orkunnar skal fara í að byggja hér upp sterkt samfélag með skýrum samfélagslegum áætlunum. Eins og til dæmis stórfelldri matvælaframleiðslu til að skapa störf, treysta byggðir, spara gjaldeyri, draga úr mengandi flutningum landa á milli og auka lífsgæði. Eins og til dæmis orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýtanlega hreina orku í samgöngum, flutningum, fiskveiðum og öðrum þeim atvinnugreinum sem enn nýta olíu, kol eða gas. Markmið þessa er að draga úr mengun, verjast loftslagsbreytingum, spara gjaldeyri, skapa störf og auka lífsgæði. 

Einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki, sem rekin eru eins og væru þau einkafyrirtæki, ráða ekki við svona verkefni. Helsta nýjungin í orkunýtingu á Íslandi á síðustu árum eru gagnaver sem keyra tölvur með gríðarlegri orku til að grafa eftir Bitcoin og öðrum rafmyntum, starfsemi sem er samfélagslega fullkomlega tilgangslaus og í reynd skaðleg.

Undanfarna áratugi hefur verið rekin orkustefna eins og hér sé orkuskortur. Svo er ekki. Ný orkustefna þarf að taka mið af því að óumflýjanlega munu sum af þeim stóriðjuverum sem hér eru rekin loka innan fárra ára eða áratuga. Orkustefnan þarf að taka mið af þessu. Við þurfum að sækja fé í samninga við stórkaupendur til að greiða niður allan framkvæmdakostnað og nýta síðan orkuna sem aflvaka undir uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra og nýrra samfélagslegra innviða, ekki með því að verðleggja orkuna upp í topp heldur þvert á móti að nýta það að við höfum greitt niður framkvæmdakostnaðinn.

Sósíalistar hafna hugmyndum um auðlindasjóð sem myndi ávaxta arðgreiðslur af Landsvirkjun til seinni tíma nota. Að baki er hugmynd að landsmenn séu eins konar kapítalískir eigendur auðlindarinnar, óvirkir á annan hátt en þann að gera kröfu um sem mestan arð af eign sinni. Almenningur er sameiginlegur eigandi að orkuauðlindunum og þær á að nýta í samfélagsleg verkefni undir stjórn almennings.

III. Auðlindirnar til almennings:
Aðgerðarleysisstefnan bjó til glundroða

Ferðaþjónustan byggir á sameigin landsmanna; náttúru, sögu og menningu. Auk þess nýtir ferðaþjónustan innviði samfélagsins; samgöngur, heilbrigðisþjónustu, löggæslu o.s.frv. Ferðafólk kemur hingað að heimsækja og skoða Ísland, sem er margslungin hugmynd sem aftur er sameign okkar allra. Af þessum sökum er mikilvægt að uppbygging innviða við náttúruperlur og sögustaði séu undir almannastjórn og að ferðaþjónustufyrirtæki innheimti og greiði gjöld vegna álags á almenna innviði samfélagsins. 

Aðgerðarleysisstefna stjórnvalda í anda nýfrjálshyggjunnar á undanförnum árum hefur valdið því að þrátt fyrir knýjandi þörf hefur staðið á uppbyggingu innviða, reglna og eftirlits. Afleiðingin er ekki aðeins mikið álag á náttúruna heldur ofvöxtur og stjórnleysi sem birtist ekki síst í illri meðferð á starfsfólki, launaþjófnaði og kúgun. Ótti stjórnvalda við að sinna skyldum sínum, að móta stefnu og byggja upp traust umhverfi fyrir vaxandi og mikilvæga atvinnugrein, hefur leitt til glundroðauppbyggingar sem hefur skaðað náttúru og samfélag að ósekju.

Til að vinna upp aðgerðarleysi undanfarinna ára þarf opinbert átaksverkefni við uppbyggingu þjónustumiðstöðva við helstu náttúruperlur og menningarminjar. Slíka uppbyggingu má fjármagna með lánsfé sem síðar verður greitt niður með þjónustugjöldum og rekstrartekjum. Til að flýta fyrir slíkri uppbyggingu er mikilvægt að verkefnið sé undir einni stjórn og að umframtekjur frá fjölsóttum stöðum geti runnið til uppbyggingar annars staðar, uppbyggingu sem síðan mun auka aðsókn að þeim stöðum og þar með tekjur heildarinnar. Til að leita fyrirmynda má sækja til Bretlandseyja en þar hefur sjálfseignarstofnun umsjón með öllum helstu náttúru- og söguminjum og hefur staðið fyrir glæsilegri uppbyggingu við þá staði. Þessi uppbygging þarf að standast gæðakröfur, bæði mannvirki og þjónusta öll, fræðsla og veitingar, jafnt sem snyrting og öll aðstoð við ferðafólk. Markmiðið á að vera að byggja upp framúrskarandi þjónustu og ramma utan um ógleymanlega heimsókn innlends og erlends ferðafólks.

Til að standa straum af álagi ferðaþjónustunnar á almenna innviði ber að færa innheimtu virðisaukaskatts af ferðaþjónustu upp í almennt þrep þegar greinin hefur jafnað sig af kórónafaraldrinum. Sú ákvörðun að halda ferðaþjónustunni í lægra þrepi ýtti í reynd undir ofris greinarinnar og styrkingu krónunnar af þess sökum, sem þegar upp var staðið hækkaði verð á þjónustunni meira í erlendri mynt en hækkun virðisaukans hefði gert. 

Þá ber að innheimta gistináttagjald sem færi til sveitarfélaga en þau bera mikinn kostnað af ferðaþjónustunni en hafa litlar tekjur af henni. Slíkt gjald er lagt á um allan heim af þessum ástæðum og okkur er engin vorkunn að taka það kerfi upp. 

Setja ber á komugjöld á ferðafólk og kanna hvort nota megi það til að stýra ferðamannastraumnum, til dæmis með því að hækka það um hásumarið en lækka það niður í málamyndagjald yfir daufasta tímann um veturinn.

Getuleysi stjórnvalda til að stýra uppbyggingu ferðaþjónustunnar hefur skaðað náttúruna, greinina sjálfa, starfsfólkið innan hennar og samfélagið allt. Það er hlutverk stjórnvalda að búa atvinnulífinu skýran ramma og stjórna uppbyggingu innviða til að styðja við og efla starfsemina. Og það er hlutverk stjórnvalda að verja starfsfólk og viðskiptavini fyrir óprúttnum bröskurum. Það er fráleit hugmynd að ferðaþjónustan þroskist best í stjórnleysi. Það er þvert á móti reynsla allra ríkja að atvinnulíf dafnar helst undir skýrri atvinnustefnu þar sem saman fer opinber uppbygging, eftirlit og skattheimta.

Sósíalistar líta á ferðaþjónustuna sem auðlindanýtingu þar sem ríkisvaldið, sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar gegna veigamiklu hlutverki við uppbygginguna. Snúa verður af þeirri braut að greinin vaxi af hendingu eftir útblásnum viðskiptahugmyndum einstakra braskara með skaðlegum afleiðingum. Samfélagsleg markmið um uppbyggingu ferðaþjónustunnar þurfa að vera skýr svo fyrirtækin geti mótað sinn rekstur innan þeirra.

III. Auðlindirnar til almennings:
Skatta, sekta og banna þarf mengunarvalda

Loftslagsváin er ein af afleiðingum ójöfnuðar og valdaójafnvægis í samfélaginu. Hin fáu ríku og valdamiklu hafa ekki þurft að svara neinum heldur komist upp með að brjóta niður samfélag manna, öryggisnet almennings og stofnanir sem ætlað er að styðja jöfnuð og réttlæti. Og þau hafa komist upp með að ganga á náttúrugæði jarðar; menga, sóa, eyða og spilla. 

Frumskilyrði þess að ná tökum á loftslagsvánni er að taka völdin af auðvaldinu, gerandanum. Hann getur aldrei orðið hluti af batanum. Til að ná árangri í loftslagsmálum þarf af beita gjaldtöku, sköttum og sektum á þau fyrirtæki sem menga mest og harðast ganga á sameiginleg gæði. 

Hættan er sú, miðað við núgildandi stefnu í loftslagsmálum, að fjármagns- og fyrirtækjaeigendur muni sækja styrki í ríkissjóð til að fjármagna sjálfsagðar breytingar á rekstri sínum. Afleiðingin verður sú að almenningur mun bera bæði skaðann af menguninni og kostnaðinn við að stöðva hana. 

Það er sjálfsagt mál og nauðsynlegt að verja almannafé til að byggja upp nýjar lausnir og tækni til að vinna gegn loftslagsvánni. En það fé á að renna inn í samfélagsleg verkefni og inn í opinberar rannsóknarstofnanir. Fyrirtækin verða að sjá um sig sjálf. Ef þau breytast ekki verður starfsemi þeirra bönnuð. Eigendur þeirra geta ekki þurrausið sjóði eigin fyrirtækja til að greiða sjálfum sér arð og sótt svo fé í opinbera sjóði til að mæta löngu fyrirsjáanlegum vanda.

Sósíalistar leggja því til stigvaxandi kolefnis- og mengunarskatta til að verja umhverfi og náttúru og umtalsverða opinbera fjárfestingu til að flýta orkuskiptum, efla innlenda matvælaframleiðslu, landgræðslu og skógrækt. 

III. Auðlindirnar til almennings:
Tilboð sósíalista

Fjórða tilboð sósíalista til kjósenda vegna kosninganna í haust um auðlindanýtingu felur í sér að yfirráðum yfir auðlindum almennings verði komið undir félagslega stjórn svo þær nýtist til að byggja upp gott, öruggt og fagurt samfélag. Markmiðið er að brjóta niður vald og yfirráð hinna fáu. Nýting auðlindanna er langtímamarkmið sem þjóna á ekki aðeins samfélaginu í dag heldur byggja upp samfélagið og efla fyrir komandi kynslóðir. Skattar, gjöld og leiga verði notuð til að stýra uppbyggingunni og skýr atvinnustefna skapi fyrirtækjum umgjörð.

Eitt meginstef þessara stefnu er valddreifing og aukin völd byggðanna. Ef þær eiga að standa undir þeim verkefnum þarf að styrkja tekjugrunn og sjálfstæði sveitarfélaganna. Um það snýst fjórði kafli tilboðs sósíalista til kjósenda um sósíalískt skattkerfi, hvernig endurreisa má tekjuöflun sveitarfélaga og tryggja með því aukna valddreifingu og lýðræði í samfélaginu.

Hér má lesa IV. hluta tilboðsins:
Tekjur sveitarfélaga tryggðar

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokks Íslands laugardaginn fyrir hvítasunnu, 22. maí 2021

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram