Endurvakning sjálfstæðisbaráttu almennings

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021:
Fimmta tilboð til kjósenda lagt fram 17. júní:

SJÁLFSTÆÐISBARÁTTA ALMENNINGS ENDURVAKIN

Ekkert er fegurra í sögu okkar en upprisa hinna réttlausu á seinni hluta nítjándu aldar. Hvernig alþýðu manna tókst að brjóta af sér hlekkina og hefja baráttu sína fyrir jöfnuði, réttlæti og mannvirðingu alls fólks.

Áhrif þeirrar upprisu á mótun samfélagsins á fyrri hluta tuttugustu aldar verður hvatning alþýðunnar um langa framtíð. Alþýðufólk, sem var algjörlega réttlaust fyrir 150 árum, án atkvæðaréttar, tjáningar- eða félagafrelsis, án réttar til að ráða því hvar það bjó eða fyrir hvern það starfaði, án tekna og eigna, í reynd réttlausir þrælar; reis upp og byggði upp hreyfingu til að berjast fyrir réttlæti, jöfnuði og mannúð. Þessi barátta gat af sér almennan kosningarétt og stjórnmálahreyfingar sem sinntu hagsmunamálum almennings en ekki aðeins áhugamálum yfirstéttarinnar, hún gat af sér verkalýðsfélög sem leiddi baráttu alþýðunnar fyrir jöfnuði, réttlæti og sómasamlegri framfærslu og hún gat af sér frelsisbaráttu kvenna, barna, fatlaðra, öryrkja, samkynhneigðra og annarra kúgaðra hópa. Á aðeins tveimur, þremur kynslóðum tókst íslensku alþýðufólki að umturna stöðu sinni í samfélaginu, frá því að vera án alls réttar og til þess að hafa alla möguleika á að móta samfélagið að eigin hagsmunum, væntingum og vonum.

En þessari sögu er ekki lokið. Það sést til dæmis á því að hún er ekki sögð með þessum hætti í skólum eða í ræðum valdafólks. Þar er sögð saga höfðingjanna sem eiga að hafa fært lýðnum réttindi og auðfólks sem sagt er hafa fært fólki hagsæld, tækni og framfarir. Og þrátt fyrir marga sigra þá lifir alþýða manna enn innan höfðingjasögunnar og undir kúgun hinna fáu, ríku og valdamiklu. Þrátt fyrir að almenningur hafi öðlast rétt langt umfram það sem þrælar fyrri alda nutu og að lífskjör hafi batnað er enginn fullnaðarsigur unninn. Almenningur býr enn við stéttakúgun óréttláts samfélags, þarf að una því að flest allar ákvarðanir um framtíð og uppbyggingu samfélagsins eru teknar til að þjóna auðvaldinu.

Og það má líka halda því fram að almenningur hafi misst margt af því sem hann barðist fyrir á árum áður. Þá snerist baráttan um að byggja upp lýðræðisvettvanginn sem vald gegn ægivaldi auðsins. Það var leið almennings að réttlæti, að byggja vald á grunni almenns kosningaréttar til mótvægis við ójöfnuð auðsins, sem skekkir allt og brenglar. Á umliðnum áratugum nýfrjálshyggjunnar hefur lýðræðisvettvangurinn verið veiktur og ákvarðanir, eignir, auðlindir og vald flutt út á hinn svokallaða markað, leiksvæði hinna fáu og ríku. Mótun samfélagsins er ekki lengur sameiginlegt verkefni alls almennings heldur á það sem borgar sig fyrir auðvaldið á að ráða framtíð okkar hinna. Framtíðin er ekki þá lengur sameign okkar allra, heldur er verkefni hinna fáu ríku og valdamiklu.

Og það er einmitt þess vegna sem sósíalistar vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttu almennings. Vonin hefur veikst og framtíð réttlætis og jöfnuðar fjarlægst. Það má ekki gerast. Án sterkra drauma um góða framtíð, án vonar um jöfnuð og án baráttu fyrir réttlæti mun samfélagið halda áfram að rakna upp.

Það er því forsenda allra framfara að endurvekja sjálfstæðisbaráttu almennings.

Efnahagslegur grunnur samfélagsins

Fyrir utan aukin lýðréttindi var stærsti sigurinn í sjálfstæðisbaráttu almennings á síðustu öld útfærsla fiskveiðilögsögunnar til að láta afl auðlindanna byggja upp gott samfélag. Í upphafi síðustu aldar var afli íslenskra skipa og báta aðeins 1/3 af þeim fisk sem veiddur var við Íslandsstrendur en í lok aldarinnar var allur fiskur veiddur af íslenskum skipum og bátum. Án baráttunnar fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar hefði íslenskt samfélag ekki náð að þróast úr einu af fátækari svæðum Evrópu í eitt það stöndugasta.

Uppbygging sjávarútvegs samhliða útfærslu landhelginnar einkenndist af virki atvinnustefnu stjórnvalda og félagslegum rekstri. Stóru skrefin voru tekin þegar sósíalistar voru í ríkisstjórn; atvinnuuppbygging á tíma nýsköpunarstjórnarinnar í stríðslok, útfærsla lögsögunnar í 12 mílur í tíð vinstri stjórnarinnar 1956-58 og svo enn frekari útfærsla í 50 mílur og skuttogaravæðingin í tíð vinstri stjórnarinnar 1971-74. Stærsti hluti uppbyggingarinnar var í gegnum samfélagslega rekin fyrirtæki, bæjarútgerðir og samvinnufyrirtæki.

Með þessum aðgerðum byggðust upp samfélög hringinn í kringum landið. Það gerðist síðan með kvótakerfinu og framsali aflaheimilda að auðlindin fór undir yfirráð örfárra útgerðarfyrirtækja sem sneru þessari þróun við, brutu niður þær byggðir sem áður höfðu byggst upp og færðu arðinn, sem áður hafði hríslast um samfélagið, í eigin vasa.

Íslensk alþýða sem hafði barist fyrir útfærslu lögsögunnar og byggt upp sjávarútveg og samfélög um allt land var svipt ávinningnum af baráttu sinni. Fyrst skrefið í endurvakningu sjálfstæðisbaráttu alþýðunnar hlýtur því að verða að endurheimta yfirráð yfir fiskveiðilögsögunni úr höndum útgerðaraðalsins, að heyja fjórða þorskastríðið til að ná auðlindum sjávar undir þjóðina svo þær geti orðið efnahagslegur grunnur undir öflugt og réttlátt samfélag en ekki aðeins fáheyrt ríkidæmi örfárra fjölskyldna.

Hið sama á við um aðrar auðlindir. Orkuna á að nýta í samfélagsleg verkefni sem styrkja og treysta gott samfélag. Þau markmið nást ekki með því að arðsemisvæða orkufyrirtækin og hleypa einkafyrirtækjum að auðlindunum. Auðlindirnar eru sameign þjóðarinnar og þær á að nýta öllum til hagsbóta.

Það verður best gert með því að nota þær til að byggja upp samfélag jöfnuður og réttlætis. Um það snerist sjálfstæðisbarátta alþýðunnar, að byggja upp gott samfélag. Fátækt fólk og valdalítið skynjaði vel að það voru eftirsóknarverðustu verðmætin, að fá að lifa og starfa í samfélagi þar sem allir nutu virðingar og viðurkenningar.

Baráttan fyrir því fór ekki síst fram innan fyrirtækjanna, að eigendur fyrirtækjanna kæmu fram við launafólk sem jafningja en ekki sem þræla eða vinnuhjú. Þá baráttu verður að endurvekja því við byggjum hvorki upp virkt lýðræði né gott atvinnulíf ef fólk þarf að gangast undir alræði fyrirtækjaeigenda um leið og það mætir til vinnu.

Það er hluti að sjálfstæðisbaráttunni að launafólk öðlist meiri réttindi á vinnustað, að starfsfólk setjist í stjórn stærri fyrirtækja, að samvinnufyrirtækjum verði fjölgað og það sé tryggt að fyrirtækin taki mið af hagsmunum starfsfólks, samfélags og umhverfis en ekki aðeins hagsmunum hluthafa. Slíkt er ekki aðeins samfélagslega mikilvægt í sjálfu sér, styrkir lýðræði og jöfnuð, heldur búa slík fyrirtæki yfir meiri seiglu en þau sem aðeins taka mið af arðgreiðslum til hluthafa. Aukið atvinnulýðræði er því efnahagsaðgerð til að styrkja atvinnutækin.

Félagslegur grunnur baráttunnar

Almenningur byggði upp völd sín með samtakamætti og skipulagðri baráttu. Í ljósi jákvæðra afleiðinga þess ætti ríkisvaldið að ýta undir völd og áhrif verkalýðshreyfingarinnar og annara almannasamtaka. Sósíalistar leggja því áherslu á að vinnulöggjöfinni verði breytt svo að völd verkalýðsfélaga aukist og möguleikar launafólks til að knýja á um launahækkanir og önnur réttindi, en ekki síður til að mæta kúgunartilburðum fyrirtækjaeigenda. Til þess þarf verkalýðshreyfingin að geta gripið til ýmissa aðgerða á vinnustöðum í samvinnu við launafólk. Það eflir ekki aðeins baráttuþrek heldur færir baráttuna nær vettvangi og dreifir þannig valdi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Reynslan af skipulagðri verkalýðshreyfingu er góð og hana má flytja yfir á önnur svið, færa lærdóminn af vinnumarkaði yfir á aðra markaði þar sem almenningur stendur veikur gagnvart ægivaldi auðsins. Vinnumarkaðurinn var taminn með því að 0,7% af launatekjum runnu til skipulagðrar baráttu launafólks, til verkalýðsfélaga. Það er gjald sem hefur margborgað sig. Án verkalýðsfélaga hefðu eigendur fyrirtækja öll völd á vinnumarkaði.

Valdaójafnvægi annarra sviða samfélagsins mætti jafna með sambærilegum hætti; að 0,7% af allri húsaleigu rynni til samtaka leigjenda, að 0,7% af öllum vöxtum rynni til samtaka skuldara, að 0,7% af öllum tryggingariðgjöldum rynnu til samtaka tryggingartaka og svo framvegis. Öflug hagsmunabarátta almennings mun ekki aðeins verja fólk gegn okri, svikum og kúgun heldur byggja upp valddreifðara samfélag og fjölbreyttara.

Sama fyrirkomulag má nota varðandi námsfólk, að taka 0,7% af vöxtum af lánunum meðan námslánakerfi eru notuð og síðar sambærilegt hlutfall af námslaunum og leggja í virka hagsmunabaráttu námsfólks. Og byggja með sama hætti upp réttindafélög eftirlaunafólks og öryrkja með því að leggja 0,7% af lífeyri inn í skipulögð samtök þessara hópa. Finna þarf leiðir til að örva skipulagða baráttu innflytjenda, barna, kvenna og annarra með öðrum hætti.

Allt það markverðasta í samfélagi okkar byggðist upp af skipulagðri baráttu almennings á síðustu og þar síðustu öld. Við eigum að læra af þessari sögu og gera meira af því sem vel hefur reynst. Virkt lýðræði byggist upp þar sem hagsmunir hinna veikari ná fram að ganga og það gerist aðeins ef samfélagið ýtir undir skipulagða baráttu almennings.

Lýðræðislegur grunnur samfélagsins

Áratugina eftir að almenningur fékk kosningarétt umbreyttust stjórnmálin frá alræði borgarastéttarinnar yfir í það sem kalla mætti alþýðustjórnmál. Hagsmunamál almennings komust á dagskrá; ódýrt og öruggt húsnæði, gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, menntun fyrir alla, atvinnuöryggi og svo framvegis. En þegar á leið þá tókst auðvaldinu að ná tökum á lýðræðisvettvanginum. Um tíma virtist stefna í að ríkisvaldið yrði framkvæmdaarmur almennings sem alþýðan gat beitt gegn ógnarvaldi auðsins; en með tímanum fór margt í sama far og fyrr. Ríkisvaldinu er í dag beitt til að viðhalda völdum hinna ríku, auka við auð þeirra og færa þeim eignir og fé almennings, ekkert síður en var á árunum fyrir almennan kosningarétt.

Þetta er raunverulegt vandamál sem við verðum að horfast í augu við. Stjórnmálin sem fyrr á árum voru frelsandi fyrir alþýðu manna eru í dag notuð til að draga úr völdum almennings. Fulltrúalýðræðið hefur ekki orðið það sem vonir stóðu til; Alþingi og sveitarstjórnir endurspegla ekki samfélagið og þar vantar fulltrúa þeirra sem harðast verða fyrir barðinu á óréttlæti samfélagsins. Það er því nauðsynlegt að lýðræðisvæða ríkisvaldið og stofnanir þess, ekkert síður en að efla og styrkja samtök almennings.

Til þess eru mörg meðöl.

Eitt er að slembivelja stjórnlagaþing sem endurskoðaði stjórnarskrá lýðveldisins reglulega, hið fyrsta myndi byrja á frumvarpi stjórnlagaráðs frá 2011 sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu að yrði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Með slembivali væri tryggt að stjórnarskráin væri ekki sett af þingheimi eða þröngri elítu heldur endurspeglaði vilja meginþorra fólks. Með þessu væru grunnlögin aðgreind frá átökum daglegra stjórnmála. Reynslan hefur sýnt að Alþingi hefur verið um megn að gera gagngera endurskoðun á stjórnarskrá eða afgreiða frumvarp stjórnlagaráðs. Með því að Alþingi skeri sig frá ferlinu og feli stjórnlagaþingi að afgreiða frumvarp stjórnlagaráðs er hægt að leysa þann hnút sem þetta mál er í bæði auðveldar og fyrr.

Það má færa ýmsar stofnanir frá hinu pólitíska valdi, stofnanir sem heyra fremur undir þjóðina en ríkið. Þetta á til dæmis við um Ríkisútvarpið, þjóðgarða og náttúru- og söguminjar og Tryggingastofnun, svo fáein dæmi séu tekin. Stjórn yfir þessar stofnanir má kjósa beinni kosningu af þjóðinni eða þeim sem stofnunin á að þjóna. Hið sama getur átt við um skóla og menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og fleiri. Gera má tilraunir um sambland kosninga og slembivals þannig að stjórn skólans í hverfinu endurspegli vel samsetningu íbúanna.

Markmið þessara breytinga er að dreifa valdi og færa það sem næst fólki, út í hverfin og sveitirnar, út til hagsmunahópanna og þeirra sem háðastir eru þjónustunni. Og draga með því úr valdi auðvalds og elítu.

Reynslan af rýmkun kosningaréttar á síðustu öld var góð. Ásamt hagsmunabaráttu almennings í skipulögðum verkalýðsfélögum og öðrum almannasamtökum þá var rýmkun kosningaréttar forsenda þess að byggt var upp samfélag sem tók mið af þörfum almennings. Í dag er tveir hópar sem ekki hafa kosningarétt til Alþingis; börn undir 18 ára aldri og innflytjendur án ríkisborgararéttar. Með því að víkka út kosningaréttinn mætti örva stjórnmálin til að horfa til hagsmuna þessara hópa. Og veitir ekki af. Efnahagslega staða barnafjölskyldna hefur dregist aftur úr öðrum aldurshópum og hlutfallslega hátt hlutfall innflytjenda meðal láglaunafólks og leigjenda hefur valdið því að hagsmunir þeirra hópa eru síður á dagskrá stjórnmálanna þrátt fyrir brýna þörf um réttindabætur.

Lýðræðið verður aldrei virkt og okkur mun ekki takast að búa til réttlátt samfélag nema að áherslan sé sett á að bæta stöðu þeirra sem standa verst. Elítuvæðing stjórnmálanna og aukin völd kerfisins á kostnað lýðræðis vinna gegn þessum markmiðum. Það er eitt af meginverkefnum stjórnmála dagsins að vinna gegn þessari öfugþróun lýðræðiskerfisins.

Félagslegur grunnur framtíðarinnar

Helsti afrakstur sjálfstæðisbaráttu alþýðunnar á síðustu öld voru auk hærri launa uppbygging heilbrigðiskerfis, skóla- og menntastofnana, almannatryggingar og annarra félagslegra úrræða sem eru nauðsynleg eru til að byggja upp jöfnuð og réttlæti. Hin efnameiri geta keypt sér heilbrigðisþjónustu og menntun en hin efnaminni fá ekki notið heilsugæslu, mennta eða fjárhagslegs öryggis nema að byggja upp kerfi sem standa öllum opin án endurgjalds.

Með þetta að leiðarljósi var hér byggt upp heilbrigðis og menntakerfi á skömmum tíma, lagður visir að félagslegu húsnæðiskerfi, komið á almannatryggingum og flestu því sem er forsenda fyrir siðuðu samfélagi. Eftir hraða uppbyggingu í nokkrar áratugi hægðist á henni á nýfrjálshyggjutímanum. Skattar á hin ríku voru lækkaðir og samfélagssáttmáli eftirstríðsáranna því í raun felldur úr gildi; að fólk skyldi borga skatta eftir getu og þiggja opinbera þjónustu eftir þörfum. Í stað þess að greiða fyrir læknisþjónustu meðan fólk var fullfrískt og á vinnumarkaði var farið að innheimta skattinn af fólki þegar það veiktist. Í stað þess að litið var á menntun sem samfélagslegt verkefni var litið á það sem fjárfestingu einstaklinga, sem eðlilegt væri að þeir greiddu fyrir og seldu síðan á vinnumarkaði. Í stað þess að fólk borgaði skatta eftir innkomu en allir fengju sömu eftirlaun var búið til kerfi sem framlengdi stéttarmun vinnumarkaðarins út að gröf og dauða.

Það er því ekki nóg að endurheimta auðlindirnar frá útgerðaraðlinum og auðfólki eða að byggja upp baráttutæki alþýðunnar, heldur verðum við að læra upp á nýtt að tala um samfélagið á millum okkar. Eigum við að taka upp þráðinn frá alþýðuhreyfingum fyrri kynslóða og stefna á samfélag sem tekur mið af þörfum þeirra sem búa við mesta óréttlætið og verstu kjörin eða ætlum við að halda áfram að miða samfélagsuppbygginguna við þarfir hinna auðugustu og valdamestu?

Þetta kann að hljóma sem einföld spurning sem augljóst svar er við, en því miður hafa samfélagsleg gildi gefið svo eftir undir útblásinni öfga-einstaklingshyggju nýfrjálshyggjuáranna að við þurfum að æfa okkur til að ná aftur áttum.

Ein af aðferðum nýfrjálshyggjunnar til árangurs var að afstjórnmálavæða alla umræðu. Í stað þess að spyrja hvað við viljum með heilbrigðiskerfið var okkur sagt að það væri takmarkað hvað stæði til boða, að við ættum ekki nægt fé til að veita öllum góða þjónustu heldur þyrftum við að forgangsraða, skera niður, sætta okkur við að kerfið yrði alltaf takmarkað og ófullnægjandi. Í stað hugsjóna um réttlæti og jöfnuð komu álitamál um hvort féð ætti að fara í þennan lið eða þann næsta. Vonin keyrði ekki áfram uppbygging samfélagsins eins og áður var, stjórnmálin voru ekki lengur skapandi vettvangur um framtíðarlandið heldur nauðhyggjulegt stagl með vonda niðurstöðu innbyggða.

Þótt tilboð sósíalista einkennist af skýrum tillögum um aðgerðir nefnum við þetta hér. Ef við viljum byggja upp samfélagið eftir vonum okkar og væntingum þá þurfum við að æfa okkur í að vona, leyfa okkur að dreyma stórt og minna okkur á að við getum komist lengra en við kannski þorum að vona.

Sósíalisminn er bjartsýnn í sjálfum sér. Sósíalistar trúa að almenningur geti byggt upp réttlátt og gott samfélag. Miðjufólk deilir með okkur hugmyndunum um hvað er réttlátt og gott samfélag, en það er ekki eins bjartsýnt, telur að við verðum að sætta okkur við minna. Og hægra fólkið er ekki bara svartsýnt heldur hefur það líka myrka sýn á mannskepnuna, telur að það sé ekki í eðli okkar að byggja upp réttlæti né lifa við jöfnuð.

Tilboð sósíalista: Endurvakning sjálfstæðisbaráttu almennings

Ísland stendur nú á tímamótum við lok tímabils sem kennt hefur verið við nýfrjálshyggjuna. Á þeim tíma voru samfélagsstoðir veiktar og nokkuð af þeim árangri sem náðst hafði með skipulagðri verkalýðsbaráttu á síðustu öld gekk til baka. Innviðir samfélagsins og helstu grunnkerfi eru nú veik og valdaójafnvægi hefur vaxið. Fram undan eru tæknibreytingar sem að óbreyttu auka enn við auð og völd hinna fáu, en munu skilja hin fátækari og valdalausari eftir. Og eins og hinn fjármálavæddi kapítalismi hefur brotið niður samfélögin hefur hann líka gengið svo á náttúrugæði að framtíð mannkyns og lífríkisins er í hættu.

Tilboð sósíalista til kjósenda á þessum tímamótum er að mæta þessum ógnum með samtakamætti almennings, með það að markmiði að byrðunum verði dreift jafnt en ávinningnum einnig. Nýliðin saga sýnir okkur hvers almenningur er megnugur ef honum auðnast að byggja upp samstöðu innan skipulagðrar baráttu. Afar okkar og ömmur, langafar og langömmur, hófu baráttu allslausrar alþýðu, réttinda- og eignarlauss fólks sem átti ekkert annað en vonina um betra samfélag. Þessu fólki tókst að umbreyta stöðu sinni í samfélaginu, bæta lífskjör sín og réttindi, og hafa afgerandi áhrif á mótun samfélagsins komandi kynslóðum til heilla.

Við erum þær kynslóðir. Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það. Og það er skuld okkar við fólkið sem háði baráttuna á síðustu og þar síðustu öld, að skilja svo við samfélagið að staða alþýðu manna sé miklum mun betri þegar við skilum samfélaginu af okkur en þegar okkur var treyst fyrir því.

Tilboð sósíalista snýst um að endurheimta fiskveiðilögsöguna úr höndum útgerðaraðalsins, að nýta auðlindir lands og sjávar til að byggja hér upp réttlátara samfélag, að efla verkalýðshreyfinguna og kveikja enn frekari hagsmunabaráttu almennings, að lýðræðisvæða atvinnulífið, að styrkja alla lýðræðisuppbyggingu sveitarfélaga, ríkisvalds og opinberra stofnana, að vinna gegn elítustjórnmálum með slembivöldu stjórnlagaráði og frekari þróun lýðræðis og setja skýr samfélagsleg markmið um alla uppbyggingu innviða og grunnkerfa samfélagsins.

Sérstaða samfélagsins á Íslandi er að við erum fá í stóru landi með miklar auðlindir. Það eru auðlindir almennings sem eru í raun aflvaki þessa samfélags. Við erum því í einstakri stöðu til að byggja upp réttlátt samfélag jöfnuðar og mannhelgi, samfélag sem alþýða allra tíma hefur þráð.

Um það er tilboð sósíalista um endurvakningu sjálfstæðisbaráttu almennings; að vekja upp drauma alþýðunnar og láta þá rætast.

Samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins að morgni 17. júní 2021

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram