Ný utanríkisstefna Sósíalistaflokksins

Ritstjórn Frétt

Sósíalistaþing 2021 samþykkti samhljóða nýja utanríkisstefnu Sósíalistaflokksins.

Stefnan er svohljóðandi:

Stefna Sósíalistaflokks Íslands í utanríkismálum er …

… að hagsmuni landsins beri að meta út frá því að Ísland sé smáríki og samfélag fólks af ólíkum uppruna.

… að Ísland sýni samstöðu með hinum smáu og undirokuðu sem þrá frelsi og sjálfstæði hvar sem þá er að finna í heiminum.

… að landið tryggi tengsl við næstu nágrannaþjóðir, auki samskipti við aðrar smáþjóðir og vinni að því að koma á stofnun friðarbandalags meðal þjóða í stað hernaðarbandalags.

… að staðið sé með lýðræði og mannréttindum hvar sem er og baráttunni gegn auðvaldi og kúgun á alþjóðavettvangi.

… að Ísland sé herlaust land, fari aldrei með ófriði á hendur öðrum ríkjum né styðji slíkar aðgerðir heldur vinni að friðsælum lausnum deilumála.

… að landið sé með öllu vopnalaust og vopna- og kjarnorkuflutningar inn í íslenska landhelgi og lofthelgi sé með öllu óheimil.

… að auka lýðræðislega aðkomu almennings að ákvarðanatöku varðandi veigamestu þætti heildstæðrar utanríkisstefnu og allar stærri ákvarðanir sem komi til álita og varða alþjóðlegt samráð og þátttöku í stærri bandalögum verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

… að styðja við alþjóðasamvinnu en hafna alþjóðavæðingu á forsendum auðvaldsins.

… að fátækt verði útrýmt á heimsvísu og að grunnmannréttindi allra jarðarbúa séu virt.

… að þróunarsammvinnuverkefni Íslands skulu miða að sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti og jöfnuði í þeim ríkjum sem um ræðir.

… að styðja við verkalýðsbaráttu um allan heim og samvinnu verkalýðshreyfingarinnar milli landa, vinna gegn mansali og kúgun verkafólks.

… að styðja alla jafnréttisbaráttu á alþjóðavísu á grundvelli stétta, uppruna, ríkisfangs, trúar, tungumálakunnáttu, menntunar, kyns, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, húðlitar, getu, líkamlegs eða andlegs atgerfis og holdarfars.

… að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og vinna með öðrum ríkjum að því að afstýra loftslagshamförum og eyðileggingu vistkerfa.

… að komið verði á alþjóðlegum dómstól sem tekur á auðlindaráni sem og umhverfis- og efnahagsglæpum sem glæpum gegn mannkyni

… að stuðla að því að sett verði ströng alþjóðleg viðurlög við því að einstaklingar eða fyrirtæki misnoti auðlindir annarra þjóða. Komi upp grunur um slíkt sé því vísað til alþjóðadómstóls.

… að alþjóðasamningar séu gegnsæir og gerðir án leyndarhyggju með velferð fólks og umhverfis að leiðarljósi.

… að útlendingalög landsins verði endurskoðuð frá grunni með mannúð og mannréttindi í öndvegi.

… að Ísland vinni með öðrum smáþjóðum að því að alþjóðasamfélagið standi saman að friðarsáttmála til að leita lausna á flóttamannavanda heimsins.

Ítarefni:

Ísland er smáþjóð sem hefur þurft að berjast fyrir fullveldi í tímans rás en hefur þrátt fyrir smæð sína náð að öðlast sjálfstæði frá nýlenduríkjunum. Þá dýrmætu reynslu ber að virða og ber okkur skylda til standa með öðrum undirokuðum þjóðum í svipuðum sporum. Í því samhengi má nefna grannþjóðir okkar eins og Grænlendinga og Færeyinga sem og fjarlægar og stríðshrjáðar þjóðir eins og Palestínumenn og Kúrda.

Í stað þess að vera máttlaus smáþjóð innan hernaðarbandalags viljum að þjóðin styrki samband sitt og samvinnu við nágrannaþjóðirnar og aðrar smáþjóðir og komi á friðarbandalagi. Slíkt bandalag verði valkostur á móti núverandi veru landsins í Nató. Á sínum tíma var innganga í Nató ekki borin undir þjóðina. Það ætti að gera sem fyrst. Á þann hátt má vinna betur að mannréttindum og lýðræðislegri stjórnskipan innan heimsins gegn auðvaldi og kúgun stærri ríkja gegn smærri. Þá skal Ísland ævinlega vera herlaust og vopnlaust. Við fordæmum allt ofbeldi og styðjum á engan hátt stríðsátök eða kúgun eins ríkis gegn öðru. Við viljum hvorki heimila vopnaflutninga né millilendingar með vopn, þar með talin kjarnavopn, inn í okkar land- eða lofthelgi, ekki heldur fangaflutninga þar sem fólk er flutt milli landa undir óeðlilegu yfirskini.

Lýðræði þjóða er mikilvægur þáttur þegar kemur að því að búa í réttlátu og mannúðlegu samfélagi. Það skiptir máli að auka lýðræðislega aðkomu almennings að öllum stofnunum samfélagsins sem og að stærri ákvörðunum þegar kemur að þróun heildstæðrar utanríkisstefnu og alþjóðlegri samvinnu. Mikilvægt er að skapa samráðsvettvang til dæmis í formi slembivalinna hópa svo kjörnir fulltrúar hafi stuðning grasrótar landsmanna og beint samráð við veigamiklar ákvarðanir.Þá þarf almenningur að geta kosið um stærri og umdeildari mál í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum og ríkasta eina prósentið verður æ ríkara og valdameiri á meðan almenningur verður valdalausari. Þannig hefur kapítalisminn og græðgisvæðing heimsins náð undirtökunum í gegnum stórfyrirtækin, sem stjórnvöld einstakra ríkja og alþjóðlegar stofnanir þjóna. Afleiðingin er niðurbrot samfélaga og lýðræðis, náttúrugæða og loftslags. Vinnuvernd og sú verkalýðsbaráttu, sem víða var byggð upp á síðustu öld, hefur verið veikt og almenn grunnmannréttindi og velferð lúta í lægra haldi. Við stöndum frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar þar sem fólk flýr heimalönd sín vegna, lífsgæða, loftslagsvár eða styrjalda. Sósíalistaflokkurinn hafnar því alþjóðavæðingu hins fjármálavædda kapítalisma en styður alþjóðlega samvinnu sem hefur það að markmiði að vinna gegn auðvaldi og kúgun.

Fátækt á alheimsvísu verður ekki útrýmt nema með samhentum aðgerðum þjóða, leiddum af smærri þjóðum en ekki risaveldunum. Markmið slíkrar samvinnu á að vera að tryggja öllum jarðarbúum viðundandi lífsviðurværi og aðgengi að grunnþörfum á borð við þak yfir höfuðið, fæðu og lágmarks framfærslu. Þá eiga allir að geta lifað með mannlegri reisn, hvort heldur þeir geta unnið eða standi utan vinnumarkaðar, fatlaðir eða veikir eða falla ekki inn í skilyrt hefðbundið mót.

Ísland er ríkt samfélag og skal taka ríkulegan þátt í þróunarsamvinnuverkefnum, huga sérstaklega að félagslegri uppbyggingu, réttindabaráttu hinna kúguðu og stuðning við hina fátækustu samhliða stuðningi varðandi tækni og nýsköpun. Markmið Íslands í utanríkismálum á að snúast um að gera heiminn allan að betri stað.

Sífellt eru fleiri dæmi þess að lýðræði, lífskjör og völd almennings molni niður vegna ágangs kapítalismans, borgarleg réttindi víkja fyrir valdi hins svokallaða markaðar og bitnar það harðast á veikstæðustu hópunum sem eru háðust lýðræðislegri uppbyggingu samfélagsins og virkri hagsmunabaráttu almennings; fátækara fólki og jaðarhópum, konum, hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum.

Réttur almennings er ávallt meiri en réttur stórfyrirtækja og þurfum við að endurskoða margt hvað varðar aðkomu fyrirtækja og auðugra fjarmagnseigenda að samfélögum. Velmegun okkar Íslendinga má að hluta til rekja til þess að við erum þátttakendur í því að misnota veika stöðu annarra þjóðir þar sem framleiddar eru helstu neysluvörur vesturlanda af verkafólki sem vinnur jafnan við slæm kjör og vondan aðbúnað. Framleiðsluaðferðir valda oft mengandi úrgangi sem í dag er orðinn óásættanlegur fylgifiskur þeirra. Þessu þurfum við að taka ábyrgð á. Íslensk stjórnvöld í samvinnu við önnur ríki þurfa að taka umhverfis- og loftslagsmálin mun fastari tökum á alþjóðavettvangi, en einnig misnotkun kapítalismans á fátækari samfélögum og fólki. Það er óboðlegt að stórfyrirtæki, einnig íslensk, arðræni aðrar þjóðir af auðlindum sínum, sigli undir hentifánum og skilji eftir sig sviðna jörð. Til þess að sporna við slíku alþjóðlegu ofbeldi er þörf á því að víkka út svið Alþjóðaglæpadómstólsins eða stofna nýjan dómstól sem tekur á mútum, auðlindaráni og umhverfisglæpum.

Í dag stendur heimsbyggðin frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar og flóttamenn hafa ekki verið fleiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta er afleiðing styrjaldja og valdabaráttu, efnahagslegs vanda veikstæðra þjóða í alþjóðavæddum kapítalisma og loftslagsbreytingar. Gera þarf ráð fyrir því að flóttafólki muni fjölga verulega á næstu árum, ekki síst vegna loftslagsbreytinga. Allar þjóðir heimsins þurfa að axla ábyrgð á þessum vanda og til að mæta honum þurfum við að endurskoða útlendingalögin sem við störfum eftir í dag. Innflytjendum mun fjölga á næstu ár og áratugi og styrkja íslenskt samfélag, rétta við óhagstæða aldursamsetningu og tryggja okkur aukið afl til að standa undir velferð og réttlæti innan samfélagsins. Hagmunir okkar fara því saman með fólkinu sem hrakið hefur verið á flótta og leitar sé að nýju heimili þar sem það getur tryggt sér og sínum öryggi, frið og þokkalega afkomu. Taka verður á móti flóttafólki með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi og hafa það í huga að við erum öll íbúar á sömu jörð.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram