Tími salats og sjálfsánægju liðinn
Pistill
02.08.2021
Kjarninn tekur viðtal við Ara Trausta, þingmann VG í Suðurkjördæmi, vegna þess að hann ætlar ekki að vera lengur á þingi.
Það vekur hjá mér innilega furðu að þingmaður Suðurkjördæmis sem talar um eigin þingsetu sem „merkan og litríkan kafla í samfélagsþjónustu“ skuli ekki minnast einu orði á afleiðingar Covid-faraldursins á íbúa kjördæmisins, þrátt fyrir að þar hafi atvinnuleysi náð skelfilegum og ógleðivaldandi hæðum, og að í nýliðnum júlí hafi í Reykjanesbæ enn mælst nærri 14% atvinnuleysi. Þið munið kannski eftir fréttunum frá því í vetur af biðröðum við matarúthlutanir og frásögnum af því hvernig afleiðingar sóttvarnaraðgerða léku einna helst láglaunakonur grátt, þær konur sem starfað höfðu sem ódýrt vinnuafl svo að kapítalistarnir mættu græða sem mest, þær konur sem misstu vinnuna og máttu svo reyna að þrauka á snautlegum atvinnuleysisbótum í köldum Covid-vetrinum.
Þetta talar Ari ekki um, eyðir ekki einu orði í þær hörmungar, heldur býður upp á orðasalat nútímastjórnmálanna, eitthvað sem öruggt er að þýðir nákvæmlega ekki neitt og hefur aðeins þann tilgang að láta fólk hugsa minna; „takist vel til með nýsköpun, menntunar- og búsetuskilyrði, samgöngur og skilgreiningar á þolmörkum náttúru og samfélaga á svæðinu“ á kjördæmið flotta framtíð í vændum.
Þegar þingmaðurinn nefnir faraldurinn er það til að ræða hvaða áhrif hann hafi haft á störf þingsins, þar sem ferðalög hafi minnkað en fundum fjölgað.
Ari Traust tekur fram að hann sé sósíalisti. Ef svo er, hvers vegna notar hann þá ekki tækifærið þegar að Kjarninn býður honum upp á að senda inn ritgerð um sjálfan sig og setur fram róttæka sýn og greiningu á þau stórkostlegu vandamál sem við stöndum frammi fyrir? Af hverju hljómar hann eins og hver annar nýsköpunar-libbi, hræddur að horfast í augu við samtímann, þá hræðilegu skepnu sem getulaust fulltrúalýðræðið í klóm nýfrjálshyggjunnar hefur í undirgefni sinni leyft kapítalismanum að fæða til að smjatta á okkur og lífríkinu öllu? Af hverju segir hann ekki sannleikann um atvinnuleysið; annað hvort látum við sem að það og afleiðingar þess skipti bara eiginlega engu máli (fyrst og fremst aðflutt verkafólk sem þjást, kunna ekki einu sinni íslensku…) og látum hagkerfið okkar áfram vera ekkert annað en eign auðstéttarinnar eða við ráðumst í að gera það sem gera þarf; atvinnuskapandi aðgerðir framkvæmdar af hinu opinbera, undirstöðu og innviðauppbyggingu í samfélaginu okkar, þar sem lífsskilyrði okkar og afkvæma okkar, sama hvaðan við komum, eru það sem mestu máli skiptir.
Orðagjálfur og óljósar vangaveltur eru einskis virði. Gagnslausar nema til þess að láta þeim sem situr þær fram líða töff í smá stund. Fyrir verka og láglaunafólk, þau sem þeir sem segjast sósíalistar eiga að berjast fyrir, eru orðasalöt hinna dæmigerðu stjórnmála ekkert nema innantómar kaloríur, sem best og hollast er að sneiða alfarið hjá. Við þurfum ekki meira salat, matreitt af þeim sem ekki þora að spreyta sig á innihaldsríkari matreiðslu.
Eftir að hafa lesið textann í Kjarnanum get ég ekki annað en fagnað því að Ari Trausti hætti á þingi og ég vona af öllu hjarta að fólkið í Suðurkjördæmi fái baráttumanneskju á þing, manneskju sem veit að tími salats og sjálfsánægju er löngu liðinn og tími saðsamrar kássu og herskárrar baráttu runninn upp.