Listi Sósíalista í Suðurkjördæmi

Ritstjórn Frétt

„Við stöndum á tímamótum. Hið óréttláta samfélag sem öfgakapítalismi nýfrjálshyggjunnar hefur troðið upp á almenning riðar til falls. Samt halda auðvaldsflokkarnir áfram með þá stefnu sína að einkavæða eignir almennings og almannaþjónustuna og ætla að halda því áfram þvert á vilja þorra almennings. Við getum stoppað þetta,“ segir Guðmundur Auðunsson sem skipar fyrsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi.

Listanum er stillt upp af slembivöldum hópi meðal félaga flokksins sem unnið hefur hörðum höndum að því að endurspegla sem skýrast vilja grasrótar flokksins og teljum við það skila mun betri árangri en hefðbundnar leiðir við uppröðun á lista sem oftar en ekki gefa skakka mynd.

„Mér finnst það algerlega ótækt og í raun alger firring að hér á landi skuli finnast fátækt, segir Birna Eik Benediktsdóttir, sem er í öðru sæti listans. „Hér búa 10-15% barna við fátækt. Það er ekki náttúrulögmál að svo sé heldur er það pólitísk ákvörðun elítunar að sumir, þar á meðal börn, eigi að lifa í fátækt. Þessu ætlum við að breyta.“

Ástþór Jón Ragnheiðarson, sem er í þriðja sæti, hefur skýra sýn á þann vanda sem steðjar að íslensku samfélagi „Vandinn við innviði samfélagsins er ekki sá að við getum ekki byggt þá upp og rekið. Vandinn er að þau sem fara með völdin svelta innviðina í drep og básúna svo um ágæti einkavæðingar. Sósíalistaflokkurinn er eina mótefnið við siðlausri markaðsvæðingu samfélagslegra innviða.“

Sósíalistaflokkurinn leggur fram samhliða listanum fram tilboð til kjósenda í Suðurkjördæmi: Byggjum upp vinnu, húsnæði, þjónustu og samgöngur um allt kjördæmið. Hér má lesa tilboðið: Tilboð til kjósenda í Suðurkjördæmi

Í fyrsta sæti er Guðmundur Auðunsson hagfræðingur. Hann hefur starfað í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins síðastliðin tvö ár og lagt félögum sínum lið við uppbyggingu grasrótar flokksins. Guðmundur lauk framhaldsnámi í alþjóðahagfræði og alþjóðastjórnmálafræði í Bandaríkjunum en hefur lengst af búið í London þar sem hann stofnaði sína fjölskyldu. Guðmundur er nú komin heim, fullur af eldmóði og sósíalískum hugsjónum.

Myndataka 3 ágúst 2021. Birna fyrir Sosialistaflokkinn. Ljósm Rúnar Þór

Í öðru sæti er Birna Eik Benediktsdóttir, framhaldsskólakennari og sex barna móðir. Hún er ættuð af suðurlandsundirlendinu og að vestan. Birna hefur starfað innan flokksins frá stofnun hans með ýmsum hætti og situr nú í framkvæmdastjórn hans. Birna hefur verið sósíalisti frá blautu barnsbeini, alin upp á mjög félagslega meðvituðu heimili þar sem sjálfsagt þótti að líta ávallt til heildarinnar en ekki sérhagsmuna. Birna fluttist til Danmerkur 18 ára gömul en sneri heim til Íslands með börn og buru fyrir fimm árum og býr nú á Selfossi. Hún hefur verið ötul talsmanneskja gegn hvers kyns ofbeldi og mismunun og er hennar hjartans mál einkum staða barna í kapítalísku samfélagi.

Í þriðja sæti er Ástþór Jón Ragnheiðarson þjálfari og varaformaður ASÍ-UNG. Ástþór er ættaður úr Mýrdalnum en búsettur á Hellu, er menntaður þjálfari og hefur starfað við þjálfun frjálsíþrótta undanfarin ár. Hann hefur áður starfað sem vélamaður, í félagsmiðstöð, i grunn- og leikskóla og sem frístunda- og menningarfulltrúi í Mýrdalshreppi. Ástþór hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar, en hann er í dag formaður ungmennaráðs UMFÍ og varaformaður ASÍ-UNG ásamt því að eiga sæti í efnahags- og skattanefnd ASÍ. Ástþór hefur áður starfað í stjórnmálum, en hann var á árunum 2018-2020 varamaður í sveitarstjórn Mýrdalshrepps og varð á þeim tíma yngsti sveitarstjórnarmaður Mýrdalshrepps frá upphafi, 19 ára gamall.

Í fjórða sæti er Arna Þórdís Árnadóttir verkefnastjóri með MA í alþjóðasamskiptum og tveggja barna móðir. Arna hefur verið virk í Sósíalistaflokknum síðan í byrjun árs 2019 og hefur meðal annars setið í framkvæmdastjórn flokksins og er núna formaður Sósíalískra femínista. Arna er alin upp á Höfn í Hornafirði en býr núna í Þorlákshöfn. Arna flutti tímabundið til Noregs en ákvað að flytja aftur heim fyrir þremur árum og lætur nú til sín taka í baráttunni um Ísland.

Í fimmta sæti er Unnur Rán Reynisdóttir hársnyrtir, hársnyrtikennari og fjögurra barna móðir í Reykjanesbæ, en hún er uppalin á Flúðum. Unnur Rán hefur verið félagi í Sósíalistaflokknum síðan 2019, tekið þátt í starfi málefnahópa og setið í framkvæmdastjórn. Hún hefur starfað sem hársnyrtir frá 21 árs aldri, lauk námi til kennsluréttinda fyrir iðnmeistara og hefur síðan þá starfað sem hársnyrtikennari við Tækniskólann. Unnur Rán hefur verið virk innan verkalýðshreifingarinnar, meðal annars setið í stjórn Félags hársnyrtisveina og ASÍ-UNG og starfað af krafti í þágu vinnu- og umhverfisverndar á þeim vettvangi og innan sinnar iðngreinar.

Í sjötta sæti er Þórbergur Torfason starfandi ferðaþjónustubóndi með meiru. Þórbergur er fæddur og uppalinn á Hala í Suðursveit. Þar var nú töluð íslenskan maður minn. Hann er faðir átta barna, afi 15-20 barna eftir því hvernig talið er og langafi þriggja. Þórbergur fór til sjós 16 ára gamall og stundaði sjómennsku til aldamóta. Hann lauk námi við stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og er fiskeldisfræðingur frá Hólaskóla. Þórbergur starfaði við veiðieftirliti Fiskistofu og sem rannsóknarmaður hjá Hafrannsóknarstofnun. Þórbergur er sósíalisti fram í fingurgóma og hans helstu pólitísku hugðarefni eru strandveiðar, kvótakerfið, Vatnajökulsþjóðgarður, ferðaþjónustan í sátt við landbúnaðinn.

Í sjöunda sæti er Einar Már Atlason, sölumaður og frumkvöðull. Einar er alin upp á Akranesi en dvaldist mikið á Hellu í uppvextinum. Hann býr í Reykjanesbæ í dag ásamt konu og tveimur börnum. Einar hefur meðal annars starfað við margskonar verslunar og þjónustustörf og undanfarið við flugtengda starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Einar hefur verið viðloðinn margvísleg félagasamtök í gegnum tíðina. Hann tók þátt í stofnun fyrsta óhagnaðardrifna leigufélags Suðurnesja árið 2017 og stofnaði samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík, sem hafði mikinn stuðning meðal íbúa Reykjanesbæjar. Þá hefur hann einnig ljáð verkalýðsbaráttunni krafta sína. Sú barátta hefur nú orðið þess valdandi að Einar býður fram krafta sína innan Sósíalistaflokksins.

 

Listi Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi

 1. Guðmundur Auðunsson, stjórnmálahagfræðingur
 2. Birna Eik Benediksdóttir, framhaldsskólakennari
 3. Ástþór Jón Ragnheiðarson, þjálfari og varaformaður ASÍ-UNG
 4. Arna Þórdís Árnadóttir, verkefnastjóri
 5. Unnur Rán Reynisdóttir, hárgsnyrtimeistari og -kennari
 6. Þórbergur Torfason, ferðaþjónustubóndi
 7. Einar Már Atlason, sölumaður
 8. Þórdís Bjarnleifsdóttir, nemi
 9. Arngrímur Jónsson, sjómaður
 10. Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, bifreiðastjóri
 11. Bjartey Hermannsdóttir, móttökuritari
 12. Pawel Adam Lopatka, landvörður
 13. Sigurður Erlends Guðbjargarson, rafíþróttaþjálfari
 14. Þórdís Guðbjartsdóttir, öryrki
 15. Kári Jónsson, verkamaður
 16. Bergljót Davíðsdóttir, blaðamaður
 17. Elínborg Steinunnardóttir, öryrki
 18. Stefán Helgi Helgason, atvinnurekandi
 19. Finnbjörg Guðmundsdóttir, eftirlaunakona
 20. Viðar Steinarsson, bóndi

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram