Tilboð til Suðurkjördæmis: Byggjum upp vinnu, húsnæði, þjónustu og samgöngur

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til Alþingis 25. september 2021, lagt fram 5. ágúst:
Tilboð til kjósenda í Suðurkjördæmi

BYGGJUM UPP VINNU, HÚSNÆÐI, ÞJÓNUSTU OG SAMGÖNGUR UM ALLT KJÖRDÆMIÐ

Í dag býr stór hluti íbúa á Suðurlandi við atvinnuleysi og fátækt. Í Reykjanesbæ einum var atvinnuleysi í lok júlí 14% þrátt fyrir að atvinnuleysi á landsvísu hafi farið lækkandi.

Húsnæðisskortur hefur leitt til töluverðrar hækkunar á leiguverði, sérstaklega á Suðurnesjum og í Árborg, sem hefur stóraukið á vanda svæðisins. Hundruðir íbúða í Reykjanesbæ, á Selfossi og í Hveragerði hafa komist í eigu braskara sem hafa sprengt leiguverðið upp.

Á sama tíma og töluverð fólksfjölgun á sér stað og ferðamannastraumur vex á ný er dregið úr þjónustu heilsugæslu í kjördæminu í hagræðingarskyni. Innviðir eins og samgöngumannvirki eru komnir að þolmörkum og heildarstefnu vantar algerlega í uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Allt þetta gerir það að verkum að fátækt hefur aukist á sama tíma og þjónustan hefur minnkað. Það er kominn tími til róttækra breytinga.

TILBOÐ SÓSÍALISTA TIL KJÓSENDA Í SUÐURKJÖRDÆMI:

I. Stórfelld uppbygging á félagslegu húsnæði

Hrikaleg mistök áttu sér stað þegar hundruð íbúða voru seldar úr opinberri eigu til braskara á leigumarkaðnum. Bjarg íbúðafélag hefur þó unnið ágætt starf en betur má ef duga skal.

Sósíalistar vilja stórfellda uppbyggingu á óhagnaðardrifnu húsnæði í kjördæminu, sérstaklega á þéttbýlissvæðum. Fólk þarf að losna út úr vítahring leigukostnaðar sem er oft meiri en 50% ráðstöfunartekna fólks.

II. Stórbætt heilbrigðisþjónusta

Sósíalistar vilja nýta þá uppbyggingu sem á sér stað í þéttbýliskjörnum og ásókn ferðafólks í kjördæmið til þess að stórbæta heilbrigðisþjónustu við íbúana. Tekið verði tillit til ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, og að heilsugæsla fyrir eldri borgara og öryrkja verði stórefld. Þá þarf að tryggja að læknir sé á vakt í öllum helstu byggðarkjörnum með fasta búsetu og að íbúar þurfi ekki að ferðast lengri leiðir til þess að sækja grunnþjónustu á heilsugæslu. Heilbrigðisþjónusta á að vera gjaldfrjáls.

Starfsumhverfi heilbrigðiskerfisins er vítahringur. Mönnun á heilbrigðisstofnunum er í lágmarki en fjöldi skjólstæðinga í hámarki sem verður til þess að skapa ómanneskjulegt starfsumhverfi sem getur ekki talist boðlegt. Taka þarf skýra stefnu í mönnun heilbrigðisstofnana með það að markmiði að álagið eitt og sér komi ekki í veg fyrir að fólk ráði sig þar til starfa eða hrekist frá störfum. Heilbrigðisstofnanir eiga að geta verið aðlaðandi vinnustaðir þar sem starfsfólki er kleift að veita skjólstæðingum sem besta þjónustu. Kjördæmið hefur allan aðbúnað til þess að starfrækja góðar heilbrigðisstofnanir. Það þarf að virkja þær og sækja mannaflann til að nýta þær.

III. Kvótakerfið verði stokkað upp

Framsal kvóta í sjávarútvegi verði lagt af í núverandi mynd. Kvótinn og ákvarðanir um hann verði tengdar byggðunum þannig að íbúar verði ekki lengur upp á duttlungafullar ákvarðanir stórútgerðarinnar komnir.

Ráðast þarf í heildar endurskipulagningu á regluverki um handfæraveiðar.

IV. Samgöngubótum hraðað

Löngu er kominn tími á tvöföldun Suðurlandsvegar. Framkvæmdir hafa gengið allt of hægt og mikið verk óunnið. Flýta þarf nýrri Ölfusárbrú, tvöföldun einbreiðra brúa, samgöngubætur í Mýrdal við Gatnabrún, endurbætur á Þrengslavegi og áfram mætti telja.

Við erum alfarið mótfallin einkaframkvæmdum í vegakerfinu, sem eru alltaf óhagstæðari þegar uppi er staðið og öll áhættan á herðum ríkisins meðan ágóðinn situr hjá einkaaðilum.

V. Umhverfisvernd og uppbygging ferðaþjónustu

Náttúruvernd og friðlýsingar eru hluti af umhverfisstefnu Sósíalista. Friða skal neðri hluta Þjórsár og náttúruperlur skulu vera í almannaeigu. Allt fyrirkomulag vegna friðlýsinga innan þjóðgarða verði gert í samráði við alla hagsmunaaðila með það að markmiði að hefta ekki starfsemi, að allir geti notið náttúrunnar og að við varðveitum hana. Tekið verði upp komugjald til landsins sem notað verði til uppbyggingar í ferðaþjónustunni.

VI. Sameining sveitarfélaga

Sósíalistar telja að ákvarðanir sem varða byggðirnar í landinu eigi að vera teknar á heimavelli. Samvinna sveitarfélaga er af hinu góða en varast skal að færa ákvörðunarvaldið of langt frá íbúum. Sveitarfélögin í landinu þurfa að finna það hjá sér sjálf ef vilji er til sameiningar. Það er hættuleg þróun fyrir samfélög vítt og breitt um landið ef allur vandi á burt að fara með því að verða stærri eining. Sveitarfélögin í landinu skiptu hundruðum fyrir aldamót en eru í dag 72. Af því má ráða að sveitarfélögin og íbúar þeirra finni það hjá sér sjálfir þegar sameining er svarið. Við eigum að skapa sveitarfélögum grundvöll til þess að vera sjálfum sér nóg.

VII. Endurreisn í landbúnaði

Sósíalistar vilja minnka bilið milli bænda og neytenda. Á milli þess sem bóndinn ræktar sína afurð og neytandinn kaupir hana út í búð er risastórt bil sem veldur lágu afurðaverði til bænda og háu verði til neytenda. Þeir einu sem græða á þessu ferli eru milliliðirnir, sá gróði skilar sér aldrei út í samfélagið. Með því að fækka þeim gerum við kerfið sanngjarnara, sveigjanlegra og möguleikar lítilla framleiðslueininga til reksturs aukast.

Gera þarf landbúnað aðlaðandi og að eftirsóknarverðu starfi sem fólk sér möguleika í t.d. með auknum nýsköpunarstyrkjum til bænda, hagstæðum lánum til framkvæmda og að veita afslátt á raforku til gróðurhúsaræktunar svo fátt eitt sé nefnt.

Til þess að sporna við fækkun bænda þarf að koma í veg fyrir að fólk og fyrirtæki geti safnað að sér bújörðum og öðru landi til eignar með því að setja á búskyldu eða aðrar takmarkanir.

Íslenskur landbúnaður á undir högg að sækja. Landbúnaður er ekki bara bundinn við landbúnaðarstefnu, heldur er landbúnaður einnig byggðastefna. Það er stefna okkar að halda landinu í byggð og landbúnaður leikur þar lykilhlutverk.

Samþykkt á fundi kosningastjórnar Suðurkjördæmis og staðfest af framkvæmda- og málefnastjórnum Sósíalistaflokksins 4. ágúst 2021.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram