Rekstrarreynsla frambjóðenda
Pistill
11.08.2021
Í kosningabaráttu tala frambjóðendur gjarnan um reynslu sína á hinum ýmsu sviðum. Eðlilega vill fólk koma hæfni sinni á framfæri og færa rök fyrir henni. Ég hef rekið augun í það þegar fólk stærir sig af rekstrarreynslu sinni, er það oftast vegna þess að það hafi rekið sitt eigið fyrirtæki, það verið mjög arðsamt og arðsemi rekstursins sé þannig staðfesting þess að viðkomandi sé hæfur á þing og þar með hæfur til þess að taka ákvarðanir um ríkisfjármálin. Sjálfur get ég ekki stært mig að því að hafa rekið fyrirtæki en ég hef aftur á móti rekið íþróttafélag. Í rekstri íþróttafélaga er arðsemi ekki ofarlega í forgangsröðuninni, heldur er horft í það að veita fólki góða þjónustu, að geta þjónustað alla og að halda úti góðu starfi.
Hvort er þá betri rekstrarreynsla? Ríki og sveitarfélög hafa fyrst og fremst það hlutverk að þjóna íbúum og landsmönnum. Er það þá góð rekstrarreynsla fyrir stjórnmál að hafa rekið arðsamt fyrirtæki? Eru sjónarmið fyrirtækjaeiganda um hámarks arðsemi gild þegar kemur að rekstri sem snýr að því að veita fólki sem besta þjónustu?
Þegar kemur að því að reka innviði samfélagsins eiga þarfir notenda alltaf að vera í fyrsta sæti. Þannig er með engu móti hægt að réttlæta einkarekstur í heilbrigðiskerfi, það er siðferðislega rangt að ætla að hagnast á heilsuleysi fólks. Þannig er með engu móti hægt að réttlæta einkarekstur í menntakerfi, því það liggur ljóst fyrir að það að hafa þarfir nemenda í fyrsta sæti og að ná út hámarks gróða fer ekki saman. Svo mætti lengi áfram telja og engir af innviðum samfélagsins undanskyldir.
Ég hef ekki rekið eigið fyrirtæki en ég hef þjónað fólki í gegnum rekstur ýmissa félagsmála. Ég þekki það ekki að hámarka gróða einkafyrirtækis en ég þekki það að reka góða einingu með þarfir notenda í fyrsta sæti. Á Alþingi er það þekking sem telur, að þekkja það að setja fólk í fyrsta sæti.
Fólkið í fyrsta sæti rímar vel við stefnu Sósíalistaflokks Íslands. Ég vil hvetja alla sem eru sammála mér til þess að kjósa Sósíalistaflokk Íslands í Alþingiskosningum þann 25. september næstkomandi. Ég vil hvetja alla þá sem vilja byggja upp réttlát samfélag og bjarta framtíð til þess að kjósa Sósíalistaflokk Íslands í Alþingiskosningum þann 25. september næstkomandi. Fylgjumst að til framtíðar og setjum X við J í Alþingiskosningum þann 25. september næstkomandi.
Ástþór Jón Ragnheiðarson
Höfundur skipar 3.sæti á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.