Hin­segin réttindi – hvar stendur Ís­land

Rúnar Freyr Júlíusson og Bergrún Andradóttir Pistill

Þegar jafnréttisbarátta hinsegin fólks er til umræðu í samfélaginu nú til dags er oft einblínt á persónulegu hliðina. Við fáum að heyra reynslusögur og skoðanapistla um fordóma og mismunun í garð hinsegin fólks. Þessar sögur eiga fyllilega rétt á sér, það er mikilvægt að þær séu sagðar, og að á þær sé hlustað, en þær einar og sér birta ekki heildarmyndina.

Margir virðast halda að lagalegu jafnrétti hafi verið náð og nú sé þetta bara spurning um að breyta viðhorfi fólks með fræðslu og skilaboðum um ást og umburðarlyndi.

Sannleikurinn er sá að enn eru ýmis samfélagsleg málefni sem takast þarf á við með lagabreytingum og kerfisbundnum lausnum. Stutt grein mun aldrei geta farið yfir öll baráttumál hinsegin fólks á Íslandi en í þessum pistli er gerð grein fyrir einhverjum þeirra.

Blóðgjöf hinsegin karlmanna

Eitt þekktasta dæmið um löglega mismunun hér á landi er að karlmenn sem sofa hjá karlmönnum mega ennþá ekki gefa blóð á Íslandi. Reglur um þetta eru svo strangar hér á landi að ef kona á rekkjunaut sem hefur áður sofið hjá öðrum karlmanni setur það hömlur á hennar leyfi til að gefa blóð. Annars staðar mega hinsegin karlar gefa blóð ef ákveðið langur tími hefur liðið frá því þeir sváfu síðast hjá en hér á landi er engin slík undantekning. Þetta er ekki í takt við önnur Evrópulönd og auk þess að vera óásættanleg mismunun ýtir þessi tímaskekkja undir skaðleg viðhorf gagnvart hinsegin karlmönnum.

Intersex börn

Enn hafa ekki verið sett fullnægjandi lög sem banna ónauðsynlegar aðgerðir á líkömum intersex barna. Slíkar aðgerðir geta reynst hættulegar og eru ekki framkvæmdar með heilsu barnanna í huga heldur til þess að börnin falli inn í þröngar skilgreiningar samfélagsins um kyn. Að gera slíkar ónauðsynlegar aðgerðir á börnum, oft innan við ársgömlum, sem hafa enga getu til að neita þeim er brot á mannréttindum þeirra og ber að banna með lögum eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins: „Að börn njóti sérstakrar verndar þegar kemur að kynrænu sjálfræði, aðgerðir séu ekki gerðar á börnum undir lögaldri.”

Lög gegn hatursglæpum

Þrátt fyrir að á Íslandi séu lög gegn hatursáróðri eru engin sértæk lög á Íslandi gegn hatursglæpum sem eru framdir vegna fordóma á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Að flokka og skilgreina slíka glæpi sérstaklega er mikilvægt skref í að takast á við slíka glæpi. Ofbeldi sem byggir á slíkum hvötum og viðhorfum lýsir sér öðruvísi en annað ofbeldi. Það þarf því að taka á þeim á annan hátt og því er lagaleg flokkun á hatursglæpum nauðsynleg.

Öryggi hinsegin ungmenna

Könnun árið 2017 á vegum Háskóla Íslands, Samtakanna ‘78 og GLSEN leiddi í ljós að um þriðjungur nemenda á Íslandi á aldrinum þrettán til tuttugu ára finni til óöryggis í skólanum vegna kynhneigðar sinnar. Fimmtungur nemenda innan hópsins fann fyrir óöryggi vegna kyntjáningar. Þetta óöryggi er ekki að ástæðulausu en sama rannsókn leiddi í ljós að 12,6% hinsegin nemenda hafi verið líkamlega áreittir af sökum kynhneigðar sinnar og um þriðjungur þeirra áreittir munnlega. Lausnin við þessu vandamáli snýst að miklu leyti um að breyta viðhorfi samfélagsins almennt og skólabarna sérstaklega en það gerist ekki að sjálfu sér. Hér er þörf á aukinni fræðslu fyrir börn, kennara og foreldra. Rannsóknir hafa sýnt að kynfræðsla í íslenskum skólum hefur vissulega tekið framförum en að víðsvegar einskorðist hún ennþá við gagnkynhneigð. Kynfræðsla sem einblínir á gagnkynhneigð sambönd og kynlíf og sveigir framhjá kennslu um fjölbreytileika kynhneigðar og kyntjáningar ýtir undir útskúfun hinsegin nemenda. Taka þarf markvisst á þessu innan stofnanna og byggja upp sterka fræðslu fyrir ungmenni á landsbyggðinni.

Sú kerfisbundna og löglega mismunun á hinsegin fólki sem nokkur dæmi eru gefin um hér að ofan er staðreynd í íslensku samfélagi í dag. Hún hefur neikvæð áhrif á lífsgæði hinsegin fólks og samfélagsgæði allra landsmanna. Að búa í samfélagi þar sem slík mismunun ríkir leiðir til þess að hinsegin fólk er stanslaust minnt á þá staðreynd að einhver hluti þjóðarinnar lítur ekki á þau sem jafningja sína, eða sjá hagsmuni þeirra ekki sem forgangsmál.

Hér sökum við ekki stuðningsmenn neinna stjórnmálaflokka um hatur eða fordóma, en staðreyndin er sú að hægri flokkar og íhaldsflokkar munu ekki forgangsraða þessum málum eins og þörf er á.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram