Kerfisbreytingar – ekki loftslagsbreytingar

Ritstjórn Áætlanir

Erindi Sósíalistaflokksins í kosningum til alþingis 25. september 2021:
Tíunda tilboð til kjósenda lagt fram 25. ágúst:

KERFISBREYTINGAR – EKKI LOFTSLAGSBREYTINGAR

Eyðilegging náttúru af mannavöldum, loftslagsbreytingar og mengun eru afleiðing kapítalismans, þess að auðvaldið hefur fengið að ráða ferðinni og farið sínu fram. Umhverfisváin á því sömu rót og sú hætta sem vofir yfir samfélögunum, sem er alræði auðvaldsins. Eina leiðin til að byggja upp gott samfélag og verja náttúrugæðin er að almenningur taki völdin af auðvaldinu.

Auðvaldið er hin ríku sem lifa ofan við samfélag alþýðu manna og telja sig ekkert hafa að sækja í þau grunnkerfi sem byggð voru upp á síðustu öld til að bæta lífskjör og réttindi almennings. Þau telja sig heldur ekki bundin af reglum samfélagsins, starfa eftir því eina boðorði að það sem þau græða á hljóti að vera rétt.

Og hin ríku telja sig einnig geta varist náttúruhamförum og loftslagsbreytingum, keypt sér herragarða á svæðum þar sem minni líkur eru á afleiðing loftslagsbreytinga valdi skaða. Kaupa sér jafnvel jarðir á Íslandi til að eiga hér skjól fyrir þeim skaða sem þau sjálf valda.

Það er því óhugsandi að lausn finnist á eyðileggingu umhverfis og samfélags án þess að að breyta valdajafnvæginu í samfélögunum. Undir alræðisvöldum auðvaldsins munu samfélögin verða brotin og náttúrugæðin eyðilögð. Frumforsenda þess að vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva eyðileggingu náttúrugæða er því að taka völdin af auðvaldinu. Það er stærsta aðgerðin í loftslagsmálum.

Við munum aðeins ná að snúa af braut eyðileggingar ef okkur tekst að virkja almenning til að taka völdin í sínar hendur, hrekja auðvaldið frá völdum. Samfélög sem áfram láta hagsmuni hinna fáu leiða sig munu ekki aðeins leysast upp í sundrung og innviðir þeirra brotna niður; heldur eru slík samfélög hættuleg náttúrunni og lífsskilyrðum komandi kynslóða.

Allt tal um loftslagsaðgerðir og umhverfisvernd innan kapítalismans og á forsendum hans eru blekking. Slíkt tal þjónar aðeins auðvaldinu sem er að kaupa sér tíma, reyna að finna leið hvernig það getur grætt enn frekar á þeirri stöðu sem það hefur komið mannkyninu í.

Aðgerðir í umhverfismálum

Sósíalistaflokkurinn hefur fjallað annars staðar um hvernig byggja má upp hreyfingar almennings; endurreisa verkalýðshreyfinguna, samvinnuhreyfinguna og önnur almannasamtök; byggja upp alþýðustjórnmál sem taka munu við af elítustjórnmálum nýfrjálshyggjutímans; ráðast gegn spillingu samgróinna stjórnmála og auðvalds og sveigja ríkisvaldið að þörfum og hagsmunum almennings.

Sósíalistar vita að við komumst hvorki lönd né strönd í umhverfismálum fyrr en auðvaldið er fjarlægt frá borði ákvarðana. Grundvöllurinn er sanngirni ekki varðveisla hagnaðar; að þau lífsgæði og neysla sem umhverfið má við verði dreift jafnt óháð efnahagsstöðu fólks.

Til að slíta þessi mikilvægu mál, varnir gegn loftslagsbreytingum og landgræðslu, úr höndum peningahagsmuna er mikilvægt að byggja upp vettvang fyrir þátttöku almennings, sveitarfélaga, samvinnufélaga, almannasamtaka og einstaklinga fyrir hugmyndir, lausnir, aðgerðir og framkvæmd. Ríkisvaldinu, almannavaldinu, ber að bregðast við en það er jafn nauðsynlegt að að framkvæmdin sé valddreift og allir landsmenn taki þátt.

En þetta leggur flokkurinn til í umhverfismálum sérstaklega:

Samgöngur

Vistspor Íslendinga er með því mesta sem þekkist í veröldinni. Til dæmis losar hver Íslendingur að meðaltali 40,9 tonn af gróðurhúsalofttegundum, en í Svíþjóð er samsvarandi tala aðeins 1,8 tonn. Í hvert skipti sem áformað er að draga úr þessari losun eru hagsmunir auðvalds og sérhagsmuna settir í fyrsta sæti þannig að öll umbreyting gerist á þeirra forsendum, á þeirra hraða og að þeirra skapi.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum lagt mesta áherslu á að draga úr losun á vegum með því að gefa afslætti af nýjum rafbílum og bíða eftir að bílaflotinn velti í gegnum hátekjuheimilin, inn á markað notaðra bíla og til allra heimila landsins á um 20-25 árum. Afslátturinn sem rennur að mestu til hátekjuhópa hleypur á milljörðum á ári hverju. Lágtekjuhópar eru á sama tíma látnir halda áfram að borga á dælunni háar álögur sem er ætlað að standa undir einum mikilvægustu innviðum samfélagsins, vegakerfinu. Þessa skekkju þarf að leiðrétta með því að auka aftur til muna þátttöku hátekjuhópa í uppbyggingu samfélagslegra innviða og nota aðrar leiðir endurnýjunar bílaflotans sem nýtast einkum þeim þjóðfélagshópum sem þurfa til þess stuðning. Þetta má gera með rausnarlegri stuðningi við almenningssamgöngur sem eru lausar við losun og með því að styrkja hin tekjulægstu beint til að kaupa, leigja eða nota farartæki sem ganga fyrir grænni orku.

Aðgerðir í loftslagsmálum verða að vera samfélagslega réttlátar. Það felst í því að byrjað er meðal hinna tekjulægstu, ekki með styrkjum til hinna tekjuhæstu.

Vegasamgöngur eru um þriðjungur af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda. Sósíalistar vilja auka þátttöku fyrirtækja í orkuskiptum. Floti bílaleigu- og leigubíla á að vera eyrnamerktur með sérstökum kvöðum um stífari endurnýjun og úreldingu. Sama á við um hópakstur, rútur, almenningssamgöngur og snattakstur á vegum fyrirtækja.

Landrækt og græn atvinnuuppbygging

Með Kyoto sáttmálanum fékk Ísland að telja fram nýja bindingu í lífmassa og vistkerfum, t.d. með skógrækt, í átt að markmiðum um minni nettólosun. Þetta tækifæri var ekkert nýtt, líkt og íslensk stjórnvöld teldu að skuldbindandi, alþjóðlegt samkomulag um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda myndi gufa upp, án eftirfylgni gagnvart einstökum aðildarríkjum loftslagssamnings sameinuðu þjóðanna.

Eftir gildistöku Parísarsamkomulagsins (2015) varð niðurstaðan að Evrópusambandið, Noregur og Ísland skyldu vinna sameiginlega að framkvæmd hennar. Með því samkomulagi er krafa gerð til ríkja, að draga verulega úr beinni losun og að losun frá landi verði kolefnisjöfnuð, þ.e. að binding í gróðri vegi upp á móti þeirri losun sem ekki er hægt að draga úr með öðru móti.

Sem stendur er losun frá landi stærsta uppspretta losunar frá Íslandi og mun meiri en þekkist í öðrum löndum Evrópu. Því væri auðvelt að breyta því til hins betra. Víða um land væri hægt að takmarka beit sauðfjár, m.a. með því að stöðva lausagöngu búfjár og snúa vörn í sókn með stórátaki í landgræðslu og skógrækt.

Sósíalistar vilja koma upp stuðningskerfi fyrir landeigendur og stórsókn í atvinnuuppbyggingu á landinu öllu þar sem markmiðið er aukin binding og verðmætaaukning í skóglendi Íslands. Nytjaskógar eru vistkerfi fyrir fjölbreytt lífríki en geta einnig gefið af sér nothæft byggingarefni svo hægt sé að binda kolefni í mannvirkjum og draga um leið úr innflutningi á sementi sem losar talsvert við framleiðslu.

Tilboð til kjósenda: Auðvaldið útilokað frá samtalinu um umhverfið
Lyklar að árangri:

  • Auðvaldið fjarlægt frá ákvörðunartöku um loftslagsaðgerðir. Öll loftslagsumbreyting verði gerð á forsendum hagsmuna almennings og umhverfisins, til lengri og skemmri tíma. Lífsgæði almennings verði leiðarljós allra loftslagsaðgerða, ekki hagnaðarkrafa fyrirtækjaeigenda.
  • Auknar kröfur verði settar á fyrirtæki um hraðari endurnýjun og úreldingu eldri ökutækja. Dregið verði úr álögum á eldsneyti þar sem mörg heimili eiga engan annan kost um sinn en að styðjast við ökutæki sem eru knúin mengandi orkugjöfum. Farin verði sanngjarnari en í senn hraðari leið í orkuskiptum.
  • Grænar samgöngur milli landshluta. Tíðar rútusamgöngur og stórbættar almenningssamgöngur milli landshluta. Með hjálp ferðamanna er hægt að byggja upp þétt og áreiðanlegt leiðanet um allt land. Aksturinn verði á vegum opinbera aðila og ekki í útboði, og aðbúnaður og tæki verði fyrsta flokks með lágmarks losun á vegum. Sérstaklega verði hugað að bættum almenningssamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Að leiðanet verði þétt og byggt upp í samráði við mikilvægustu notendur þess, fólkið í landinu.
  • Grænt hagkerfi: „Ný græn gjöf“: Er hluti atvinnuframboðstryggingar þar sem allir sem geta og vilja, fá störf í skógrækt og uppbyggingu íslensku skógarauðlindarinnar. Bændur sem geta og vilja draga úr sauðfjárrækt, munu ganga að rausnarlegu styrkjakerfi sem aðstoðar landeigendur við að hefja græna verðmætasköpun í nýjum greinum, þ.á.m. skógrækt.

Kosningaáætlanir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram