Hættuleg efnahagsstjórn Bjarna Benediktssonar
Pistill
04.09.2021
Það er magnað að sjá ráðherra ríkisstjórnarinnar, og þá sérstaklega efnahagsmálaráðherrann Bjarni Benediktsson, halda því fram við kjósendur í aðdraganda kosninga að ríkisstjórnin hafi staðið sig frábærlega vel við efnahagsstjórnina á erfiðum tímum og að hér sé allt í miklum sóma.
Svo er bara alls ekki. Eftir stórkostleg mistök skilar þessi ríkisstjórn efnahagskerfið eftir í viðkvæmri stöðu á viðsjárverðum tímum. Og það skynsamlegasta sem kjósendur geta gert er að kjósa þessa ríkisstjórn burt til að forða sér frá stórkostlegum yfirvofandi skaða.
Einsýni á ferðaþjónustu
Ég mun vísa á nokkur dæmi til stuðnings máli mínu, en vil fyrst benda fólki á að það hefur enga merkingu þegar ráðherrarnir segja stöðuna betri en gert hafi verið ráð fyrir við upphaf kórónafaraldursins. Þarna er ríkisstjórnin að bera sig saman við sjálfan sig.
Í upphafi faraldursins lagði ríkisstjórnin mat á efnahagsáfallið vegna faraldursins og í því mati kom fram stórkostlegt ofmat á mikilvægi ferðaþjónustunnar. Ráðherrarnir gleymdu að taka með í reikninginn að ef engir ferðamenn koma til Íslands þá fara heldur engir Íslendingar til útlanda. Ríkisstjórnin hefði því átt að leggja nokkra veltu við hagkerfið eftir að þeir strokuðu út tekjurnar af erlendum ferðamönnum. Þessi skekkja lækkaði ætlaðan 10-12% samdrátt í 6-7%.
Minni samdráttur er því ekki vegna efnahagsaðgerða ráðherranna heldur vegna einsýni þeirra í upphafi faraldursins. Sem má hlæja að, en líka óttast. Því þessi einsýni á mikilvægi ferðaþjónustunnar markaði ekki bara efnahagsaðgerðirnar heldur sóttvarnir líka. Allan tímann var það helsta markmið ráðherranna að ræsa upp ferðaþjónustuna að nýju.
Sú stefna var ekki aðeins byggð á misskilningi heldur reyndist hún líka skaðleg efnahagslega. Hún leiddi til þess að dregið var þráfaldlega of snemma úr sóttvörnum á landamærum sem leiddi til nýrra bylgna faraldursins, meiri veikinda og þyngri sóttvarna innanlands, sem aftur drógu afl úr hagkerfinu og hægði á efnahagsbatanum.
Fyrir utan að fólk dó.
Bjarnabólan mikla
Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar frammi fyrir faraldrinum var að lækka vexti og auka útlánagetu bankanna í von um að það myndi örva hagkerfið. Sem ekki gerðist. Þegar útlán eru aukin í gegnum bankakerfið fara þau til þeirra sem best standa og sem minnst þurfa á lánum að halda. Og það fólk fjárfestir ekki í nýjum atvinnutækifærum heldur í gömlum eignum.
Talið er að vel yfir 200 milljarðar króna hafi leitað af þessum sökum inn á fasteignamarkaðinn og spennt upp verð á íbúðarhúsnæði, um 20% á meðan á kórónafaraldrinum stóð. Við það hækkar verðmæti íbúðarhúsnæðis á landinu um næstum þúsund milljarða króna, skapar tilfinningu fyrir auðsæld meðal hinna betur settu en örvar hagkerfið sjálft ekki neitt. Og bætir ekkert stöðu þeirra sem misstu vinnuna, urðu fyrir tilfinnanlegu efnahagslegu áfalli, gengu á sparifé sitt og báru í raun ein byrðar þessa samdráttar. Og bætir ekki stöðu þeirra sem þurfa að kaupa sér húsnæði.
Hin betur settu höfðu hins vegar nóg umleikis, spöruðu sér utanlandsferðir og ferðuðust innanlands á nýjum hjólhýsum sem keypt voru fyrir lægri vexti, notuðu ferðagjöfina frá ráðherrunum eða gerðu upp pallinn með niðurgreiddri vinnu iðnaðarmanna úr almannasjóðum.
En þetta eru aðeins gárur utan á þeirri eignabólu sem blásin var upp. Verðmæti hlutabréfa í kauphöllinni hækkuðu um 1500 milljarða króna í kórónafaraldrinum. Þetta er ein og hálf fjárlög, eins og hálf landsframleiðsla. Fé sem féll af himni ofan.
Það er ekki hægt að skýra út fyrir venjulegu fólki hvað 1500 milljarðar króna er há upphæð. Segjum að þú héldir á þessum peningum og myndir ganga aftur á bak í tímanum og leggja eina milljón á hvern dag. Þegar þú legðir frá þér síðustu milljónina værir þú komin aftur til ársins 2089 fyrir Krist. Þú gætir horft á þræla reisa píramíta.
Þessi hækkun hlutabréfa í kauphöllinni er brandari, merki um sturlað efnahagslíf í klíkuvæddum kapítalisma, svokölluðum óligarkisma þar sem allt samfélagið er orðið að spilavíti braskara.
Eina hagkerfið sem hækkar vexti
Þessi eignabóla hefur þrýst upp verðbólgu svo um það bil sem kórónafaraldurinn er að gefa eftir og ætla mætti að hagkerfið gæti fundið fyrri styrk, þá tekur Seðlabankinn í handbremsuna og hækkar vexti. Tvívegis í sumar.
Seðlabanki Íslands er eini seðlabankinn í heiminum sem er að hækka vexti þessar vikurnar. Annars staðar er það metið svo að hagkerfin séu enn í viðkvæmu standi og þurfi á allri örvun að halda og alls engum aðhaldsaðgerðum á borð við vaxtahækkunum.
Þetta er því staðan í aðdraganda kosninga. Það hefur tekist svo óhönduglega til með efnahagsstjórnina að Seðlabankinn tekur sig þurfa að stíga á bremsuna þegar reynt er að koma hagkerfinu upp síðasta hjallann.
Hvaða vit er í því? Ekkert.
Fjáraustur úr ríkissjóði
Fyrir utan vaxtalækkun og aukna útlánagetu bankana var meginstefið í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar að ausa fé í fjármagns- og stórfyrirtækjaeigendur beint úr ríkissjóði. Þeir fengu styrk til að loka fyrirtækjum og opna þau aftur, til að halda fólki í vinnu og til að reka það og svo til að ráða það aftur. Öll umgjörð um þetta var losaraleg og stórfé rann til fyrirtækja sem enga aðstoð þurftu, jafnvel til fyrirtækja sem í reynd notuðu styrkinn til að greiða eigendum sínum arð.
Og þessi fjáraustur kom mönnum á bragðið. Fjármagns- og stórfyrirtækjaeigendur áttuðu sig að ríkissjóður var fullur af peningum og ef sjóður tæmdist mátti alltaf prenta meira. Æ meira af efnahags- og atvinnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar snerust um að sleppa fjármagns- og stórfyrirtækjaeigendum á beit í ríkissjóði.
Nýsköpunarmiðstöð var lögð niður og nýsköpunarstuðningur einkavæddur þannig að öll fyrirtæki gátu sótt sér mörg hundruð milljóna skattaafslátt út á nánast hvaða fjárfestingu eða verkefni sem var. Svo til allt er hægt að kalla nýsköpun og þróun.
Og þegar fjármagns- og stórfyrirtækjaeigendur voru komnir á bragðið ákvað Sjálfstæðisflokkurinn skyndilega að verða umhverfisvænn flokkur og stefna að stórátaki í loftslagsmálum. Markmið er að nota sömu aðferð, leyfa fyrirtækjum að skilgreina nánast hvað sem er sem aðgerðir í loftslagsmálum, til orkusparnaðar, til betri nýtingar og sækja fé til þessa í almannasjóði.
Þetta er afrakstur efnahagsstjórnunar á tímum kórónafaraldursins. Fyrir utan ríkissjóð eru langar biðraðir af stöndugum fjármagns- og stórfyrirtækjaeigendum að sækja sér styrki. Röðin er löng og nær langt vestur í bæ, svo að aldraðir, öryrkjar, sjúkir og fátækir sjást varla lengur þar sem þau norpa aftast í röðinni.
Bjarni Benediktsson er Hrói Höttur á röngunni, að hefur tekið yfir almannasjóði til að gefa úr þeim til hinna ríku.
Spillingin grasserar
Og Bjarna finnst þetta ekki nóg. Þegar 1/3 af Íslandsbanka var seldur tókst Bjarna að gefa hinum betur settu og nokkrum brasksjóðum í útlöndum um 25 milljarða króna. Hann verðlagði eignir almennings lágt og gaf hinum betur settur mismuninn.
Og það er hlaupið græðgisæði í liðið, það er svo mikið af ókeypis fé á sveimi. Eigendur Arion banka ætla að skræla þann banka að innan, draga úr rekstrinum og minnka þjónustu, til að geta tæmt sem mest fé úr bankanum svo hægt sé að greiða eigendum sem mestan arð. Og Íslandsbanki er kominn með sömu stefnu, að tæma bankann af sem mestum verðmætum og færa eigendum. Og Síminn. Og annað hvort fyrirtæki í kauphöllinni.
Og æðið lýsir sér í því að bankarnir eru búnir að selja frá sér öll greiðslumiðlunarfyrirtækin; Valitor, Borgun og Korta, til braskara í Brasilíu og Ísrael. Og þjóðaröryggisráðið fundar um hvort þetta sé í lagi, að svona grunnkerfi samfélagsins séu skyndilega komin í eigu einhverra braskfélaga úti í heimi.
Og þá er Advania selt til félags á vegum Goldman Sachs, sem skráð er í aflöndum og bókhaldskerfi ríkisins með. Í raun gæti einhver innan þessa félags búið til peninga með því að leggja þá inn á reikning og eytt síðan færslunni, búið til pening úr engu svo að enginn sæi. Ætli þetta hafi verið tekið fyrir hjá þjóðaröryggisráði?
Þar er nú líka fundað vegna þess að fjarskiptafyrirtækin ætla að selja alla innviði sína til að geta borgað eigendum sínum sem mestan arð. Fólkið í ráðinu er að ræða hvort það gangi, að Íslendingar hafi ekki yfirráð yfir neinu fjarskiptakerfi.
Endalok nýfrjálshyggjunnar
Svona er ástandið í landi tækifæranna, sem Bjarni kallar svo. Hér er allt falt og hægt að græða á öllu, sækja sér ókeypis fé og halda veislu, bara ef þú ert í klíkunni. Og þetta kallar Bjarni stöðugleika í sjónvarpsauglýsingum þar sem hann óskar eftir atkvæðum svo hann geti gefið vinum sínum meira fé, einkavætt meira af eignum almennings, braskvætt allt samfélagið, selt grunninnviði og í raun kveikt í því samfélagi sem afar okkar og ömmur lögðu grunninn að og feður okkar og mæður byggðu upp.
Stöðugleiki Bjarna er eins og sena úr kvikmynd eftir Pasolini og land tækifæranna eins og altaristafla af dómsdegi eftir Hieronymus Bosch. Við erum komin út í svo óraunverulega upplausn allra eðlilegra gilda að það er mannlegt að efast, hugsa að þetta geti nú varla verið, það getur ekki verið að við höfum misst samfélagið okkar niður á þetta plan.
En því miður get ég ekki huggað ykkur. Þetta er svona slæmt og þetta á eftir að versna ef við snúum ekki af braut. Endalok nýfrjálshyggjunnar er gerspilling óligarkismams, þjófræði þar sem ríkisvaldið hefur verið tekið yfir af bröskurunum.
Víða um heiminn er verið að ræða akkúrat þetta, hvernig vinda skal við ofan af nýfrjálshyggjuvæddum óligarkisma áður en hann brýtur niður öll gildi samfélagsins, alla innviði og grunnkerfi. En þessi umræða hefur ekki náð hingað. Einhverra hluta vegna veltur þessi vítisvél áfram stjórnlaust hér á landi og er meira að segja kynnt í kosningaauglýsingum sem lausn á öllum vanda.
Við þurfum að vakna. Og bregðast við.
Birt í Kjarnanum 4. september