Ákall um atvinnulýðræði

Verkalýðsráð Sósíalista Frétt

Frá upphafi kapítalismans hefur vinnandi fólk verið í óendanlegri baráttu við atvinnurekendur og fjármagnseigendur um sín kaup, kjör og lífsgæði. Í krafti auð síns hafa fjármagnseigendur, eðli sínu samkvæmt, verið með yfirhöndina og aðeins í gegnum harða stéttabaráttu hefur vinnandi fólk unnið sé þau réttindi sem það hefur.

Ef engu er breytt mun þetta valdaójafnvægi aðeins aukast þegar 4. iðnbyltingin fer að skella yfir okkur. Þegar atvinnurekendur sjálfvirknivæða meira og meira mun markaðslegt virði vinnuaflsins minnka. Þegar atvinnurekandi, í mettuðum markaði, innleiðir tæki sem eykur afköst þá minnkar þörfin fyrir vinnuaflið og hann getur fækkað stöðugildum til að auka hagnað. Þó svo atvinnuleysi þurfi ekki nauðsynlega að rjúka upp í háa tinda, þá mun fleira fólk þurfa að finna sér nýja vinnu og líklega mun það í örvæntingu sinni þurfa að sætta sig við lægri kjör og starfsskilyrði en áður.
Ef vinnandi fólk fengi hins vegar að ráða, þá myndu aukin afköst sjálfvirknivæðingar vera notuð til að stytta vinnuvikuna og auka lífsgæði starfsfólks.

Verkalýðsráð xJ neitar því að kjarabarátta þurfi að vera eilífur eltingaleikur með atvinnurekendum um kaup og kjör. Hagsmunabarátta vinnandi fólks má ekki aðeins snúast um kjarasamninga, heldur þarf hún einnig að snúast um völd. Að vinnandi fólk hafi vald yfir sínu eigin lífi, eigin starfi og eigin afkomu. Að vinnandi fólk sé ekki háð góðvilja fjármagnseigenda eða samningsstöðu sinni gagnvart atvinnurekendum.

Verkalýðsráð xJ vill lögfesta atvinnulýðræði: þar sem starfsfólk hefur þann rétt að kjósa sér fulltrúa í stjórnir þeirra fyrirtækja þar sem það vinnur. Til að reka fyrirtæki þarf tvennt: fjármagn og vinnuafl. Í dag fær aðeins fjármagnið viðurkenningu á sínu framlagi í formi stjórnarsetu. Þetta þarf að leiðrétta og gefa starfsfólki rétt á að skipa helming stjórnarmanna á móti fjármagnseigendum.

Verkalýðsráð xJ vill starfsmanna-samvinnufélög: fyrirtæki sem eru í sameiginlegri eigu allra sem þar starfa og lýðræðislega stjórnað. Lög um samvinnufélög eru nær ónothæf fyrir starfsmanna-samvinnufélög þar sem þau gera ekki ráð fyrir því að fjöldi félaga geti haft áhrif á rekstrarforsendur félagsins. Í raun þarf að vera jafn auðvelt að stofna starfsmanna-samvinnufélag og einkahlutafélag.

Auka þarf þekkingu almennings á slíkum félögum og þurfa verkalýðs-frumkvöðlar að hafa greiðan aðgang að fjármagni til að stofna slík félög.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram